Lögreglan varar við hættu á nýstorknu hrauni
Lögreglan á Suðurnesjum hvetur fólk til að fara með gát við gosstöðvarnar og varar ferðamenn sérstaklega við hættum á svæðinu.
Í nýrri tilkynningu frá lögreglu er ítrekuð sú alvara sem fylgir því að ganga á nýstorknu hrauni. „Það er nefnilega þannig að þó efsta lagið sé hart þá er örþunnt niður á glóandi hraunið og það þarf ekki að spyrja að leikslokum ef skelin brotnar undan þunga,“ segir í tilmælunum.
Mikið hraunrennsli á sér enn stað undir yfirborðinu og lögregla bendir á að fólki geti verið hætt við að vanmeta aðstæðurnar. Ferðafólk er hvatt til að vara aðra við og hnippa í þá sem virðast ekki meðvitaðir um hættuna. Skiltum hefur verið komið fyrir á svæðinu, en lögregla minnir á að „allur er varinn góður.“
Veðurútlit einnig slæmt
Auk hættunnar sem fylgir hrauninu er spáð miklu roki og úrkomu á svæðinu. „Blessað veðrið er líka að angra okkur,“ segir í tilkynningu lögreglu sem bendir á að gul viðvörun sé í gildi. „Mikið rok og rigning er að skella á okkur er líður á daginn,“ og því sé mikilvægt að huga að veðurspánni áður en haldið er að gosstöðvunum.
Fólk beðið um að sýna ábyrgð
Lögreglan minnir að lokum á mikilvægi þess að sýna aðgát og ábyrgð. „Munið að fara varlega og hnippum í þá sem eru að ganga á nýstorknaða hrauninu.“