Lögreglan varar við „nauðgunarlyfjum“
	Lögreglan á Suðurnesjum hefur til rannsóknar ætlað kynferðisbrot þar sem grunur leikur á að konu hafi verið byrluð ólyfjan á skemmtistað í Reykjanesbæ þannig að hún hafi ekki getað spornað við því að brotið væri gegn henni.
	
	Þá hafa lögreglu borist af því spurnir að fleiri konur hafi lent í sömu aðstæðum á skemmtistöðum í umdæminu að undanförnu án þess að kærur hafi borist vegna þeirra tilvika.
	
	Lögreglan vill af þessu tilefni vekja athygli á þessu og hvetja fólk til að sýna fyllstu aðgát en telja má víst að efnum sé blandað út í drykki fólks á skemmtistöðum með þessum afleiðingum.
	
	Jafnframt beinir lögreglan því til starfsfólks á skemmtistöðum að fylgjast vel með gestum, kalla eftir aðstoð lögreglu og aðstoða gesti eftir atvikum ef einhver grunur er uppi um lyfjabyrlun.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				