Flugger
Flugger

Fréttir

Lóa Björg Gestsdóttir ráðin skólastjóri Heiðarskóla
Föstudagur 17. maí 2024 kl. 06:05

Lóa Björg Gestsdóttir ráðin skólastjóri Heiðarskóla

Lóa Björg Gestsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Lóa Björg lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005 og MLM gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2019.

Lóa Björg hefur starfað í Heiðarskóla undanfarin fjögur ár, sem aðstoðarskólastjóri í þrjú ár og undanfarið ár hefur hún leyst af sem skólastjóri. Hún tekur við skólastjórastarfinu af Bryndísi Jónu Magnúsdóttur sem lætur nú af störfum eftir farsælan feril í Heiðarskóla.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar, segir í samtali við Víkurfréttir að aðeins ein umsókn hafi borist um stöðu skólastjóra í Heiðarskóla, frá starfandi skólastjóra, Lóu Björgu Gestsdóttur, sem nú hefur verið ráðin í starfið.

„Það er umhugsunarefni að umsóknir um stjórnunarstöður í skólum hafa farið fækkandi undanfarinn áratug eða svo. Ekki einungis hjá okkur heldur einnig á landsvísu. Það má vera að í þessu tilfelli hafi það spurst út að starfandi skólastjóri myndi sækja um stöðuna og að það hafi dregið úr öðrum að sækja um starfið. En hvað sem því líður þá er niðurstaðan allavega góð. Ég er mjög ánægður með ráðningu Lóu Bjargar og vænti mikils af henni í framtíðinni,“ segir Helgi Arnarson.