Fréttir

Líkön varpa ljósi á stöðu mála við Fagradalsfjall
Myndin sýnir líklega staðsetningu á nýja kvikuganginum (rauð lína) út frá líkönum í samanburði við kvikuinnskotið sem átti sér stað i febrúar-mars 2021 (svört lína). Appelsínugulir hringir tákna jarðskjálfta sem mælst hafa síðan 21. desember og grænir eru jarðskjálftar sem mældust frá 24. febrúar til 21. desember.
Miðvikudagur 5. janúar 2022 kl. 22:32

Líkön varpa ljósi á stöðu mála við Fagradalsfjall

Mikið hefur dregið úr færslum á GPS stöðvunum í nágrenni við Geldingadali. Færslurnar sýna aflögun á yfirborði jarðar, en nánast engar færslur hafa mælst frá því 28. desember. Skjálftavirkni er enn töluverð en hefur þó minnkað umtalsvert frá því að skjálftahrina hófst 21. desember í tengslum við þetta nýja kvikuinnskot í Fagradalsfjalli. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Líkön benda til að kvikuinnskotið sé u.þ.b. helmingi minna en það sem myndaðist í aðdraganda eldgossins í Geldingadölum eða um 18 milljón rúmmetrar og að toppur þess hafi náð upp á um 1,5 km dýpi. Óvissa hefur ríkt um hvort kvikan í þessu innskoti muni ná alla leið til yfirborðs líkt og varð raunin í mars. Út frá líkönum og nýjustu mælingum er líklegast að kvikan í innskotinu sé byrjuð að storkna og því lengri tími sem líður án breytinga í virkni, því minni líkur eru á að þetta kvikuinnskot endi með eldgosi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Vísindamenn hafa bent á samanburð virkninnar við Fagradalsfjall og þeirrar virkni sem sást í Kröflueldum,“ segir Michelle Parks, sérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sem unnið hefur að greiningu gagnanna.

„Í Kröflueldum endaði um helmingur kvikuinnskota með eldgosi en önnur ekki og við gætum verið að sjá dæmi um slíka virkni við Fagradalsfjall. Þar hefur það áhrif hversu stór kvikuinnskotin eru og hversu grunnt þau ná,“ segir Michelle.

Ennþá leynist talsverður varmi í hraunbreiðunni við eldstöðvarnar. Á köldum dögum sést gufa rísa upp frá hraunbreiðunni og er hitauppstreymi sem þéttist vatnsgufu í kuldanum. Slíkt er ekki merki um aukna virkni.

Vísindamenn munu halda áfram að fylgjast vel með svæðinu og eru nýjar gervitunglamyndir væntanlegar síðar í vikunni sem varpa frekara ljósi á gang mála við Fagradalsfjall.