Flugger
Flugger

Fréttir

Liklegast að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingafells
Ljósmynd: Vilhelm Gunnarsson
Miðvikudagur 22. nóvember 2023 kl. 23:27

Liklegast að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingafells

Litlar hreyfingar mælast innan sigdalsins í og við Grindavík og sterkar vísbendingar um tengsl milli kvikusöfnunar í Svartsengi og myndun kvikugangsins. Liklegast er að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingafells.

Á vef Veðurstofu Íslands fyrr í kvöld segir að um 300 skjálftar mældust í gær og 100 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti, sem eru mun færri en síðustu daga. Einnig hefur dregið úr skjálftum yfir 2.0 að stærð. Fram eftir degi er áfram gert fyrir að veður og öldugangur hafi áhrif á næmni kerfisins til að nema minnstu jarðskjálftana.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Aflögun og innflæði tengd kvikuganginum heldur áfram að minnka. Landris við Svartsengi heldur áfram á svipuðum hraða. Líkanreikningar, byggðir á gögnum frá 21. nóvember benda til þess að innflæði í kvikuganginn sé mest við Sundhnúksgíga, um 4 km norð-norðaustan við Grindavík. Litlar hreyfingar hafa mælst innan sigdalsins í og við Grindavík síðustu daga.

Áfram eru taldar líkur á eldgosi á svæðinu yfir kvikuganginum. Líklegasta er að kvika komi upp á svæðinu milli Hagafells og Sýlingarfells. Á meðan að áfram dregur úr aflögun, skjálftavirkni og innflæði í kvikuganginn minnka líkurnar á eldgosi með tímanum.

Út frá nýjustu gögnum og að teknu tilliti til þróunar virkninnar síðan 10. nóvember, hafa líkur á skyndilegri gosopnun innan bæjarmarka Grindavíkur farið minnkandi með hverjum degi og eru í dag taldar litlar. Reikna má með að kvikan í ganginum undir Grindavík sé að hluta til storknuð, sem einnig dregur úr líkum að sú kvika nái skyndilega að brjóta sér leið til yfirborðs innan bæjarmarkanna. Það skal hinsvegar tekið fram að áfram eru taldar líkur á eldgosi yfir kvikuganginum og er líklegasta svæðið fyrir upptök eldgoss milli Hagafells og Sýlingarfells.

Mikilvægt er að taka fram að sterkar vísbendingar eru um tengsl milli kvikusöfnunar í Svartsengi og myndun kvikugangsins 10. nóvember. Líkön benda til þess að kvikan í innskotinu sem myndaði sylluna undir Svartsengi hafi hlaupið í austur að Sundhnúksgígum og í kjölfarið myndað kvikuganginn með þeim miklu umbrotum sem þá urðu. Á meðan að landris í Svartsengi heldur áfram má búast við að kvikan sem er að safnast þar geti hlaupið aftur. Við það gæti hún flætt inn í kvikuganginn sem nú liggur undir Grindavík. Einnig má reikna með að nýr kvikugangur geti myndast t.d. vestur af landrisinu við Svartsengi. Fyrirboðar um slíka atburðarás væri hægt að greina á skjálfta- og GPS mælum.

Hættumatskort frá Veðurstofu Íslands hefur verið uppfært í dag 22. nóvember. Kortið er endurskoðað í takti við þróun virkninnar.

Frá þessu er greint á vef Veðurstofunnar kl. 18:15 í dag.