Flugstefna Íslands
Flugstefna Íslands

Fréttir

Lífbjörg undir Berginu - manni bjargað frá drukknun
Maðurinn synti til hafs frá grjótgarði við smábátahöfnina í Gróf. Honum var bjargað um borð í björgunarbát þegar hann var að drukkna. VF-mynd: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 8. september 2019 kl. 00:28

Lífbjörg undir Berginu - manni bjargað frá drukknun

- Réðst á björgunarmann sinn með þungum höggum

Björgunarsveitarmaður var fluttur slasaður á sjúkrahús eftir að hafa bjargað lífi drukknandi manns undir Berginu í miðri flugeldasýningu Ljósanætur nú í kvöld.

Maður í annarlegu ástandi stakk sér til sunds af grjótgarðinum við smábátahöfnina í Gróf þegar flugeldasýningin stóð yfir í kvöld. Nærstaddir heyrðu manninn lýsa því yfir að hann ætlaði að synda til Hafnarfjarðar.

Þegar björgunarbátur kom að manninum var hann að drukkna og var bjargað um borð í bátinn á elleftu stundu. Maðurinn var ekki sáttur við lífbjörgina og réðst á björgunarsveitarmanninn sem hafði dregið hann upp úr sjónum með þungum höggum. Björgunarsveitarmaðurinn lá óvígur eftir og var fluttur á sjúkrahús.

Þegar þetta gerðist var flugeldasýningin stöðvuð öðru sinni í kvöld en áhorfendur tóku eftir því að tvö löng hlé voru gerð á sýningunni. Fyrra skiptið sem sýningin var stöðvuð var þegar bátur sigldi inn á öryggisvæði á sjónum við Bergið. Svokallaðar sjóbombur eru sprengdar í flugeldasýningunni. Lokunarsvæðið hafði verið auglýst á meðal sjófarenda og einnig tilkynnt rétt fyrir sýninguna.

Haraldur Haraldsson hjá Björgunarsveitinni Suðurnes segir að atvikið undir Berginu í kvöld hafi verið klár lífbjörgun og sorglegt að maðurinn hafi veitt björgunarsveitarmanninum áverka.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs