Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Kalka sameinast ekki Sorpu
Laugardagur 26. október 2019 kl. 03:28

Kalka sameinast ekki Sorpu

Sameining Sorpeyðingarstöðvarinnar Kölku við Sorpu þykir ekki fýsilegur kostur að mati starfshóps sveitarfélaganna á Suðurnesjum en hann var skipaður til að skoða þann möguleika. Niðurstaða starfshópsins hefur verið send til sveitarfélaganna og eru þau núna með hana til umfjöllunar.

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga á Vatnsleysuströnd hefur þegar samþykkt hana en Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri, vekur athygli á þessu máli í fréttabréfi í síðustu viku. Í niðurstöðu starfshópsins segir einnig að í stað þess að vinna áfram að hugmyndum um sameiningu við Sorpu verði farið af krafti í samtal við sorpsamlögin á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi um sameiginleg markmið og aðgerðir við meðhöndlun og förgun úrgangs.

Verulegur samgangur hefur verið á milli Kölku og Sorpu í nokkurn tíma og viðskiptin á milli aðila mikil. Meðal mála sem liggja fyrir og Kalka þarf að bæta sig í er frekari flokkun en í dag er eingöngu flokkun á pappír og plasti á Suðurnesjum.

Í vikunni verður fundur um málefni Kölku en samkvæmt heimildum Víkurfrétta á að skoða þrjár sviðsmyndir. Ein þeirra er sú að þróa samstarf við Sorpu enn lengra undir svipuðum formerkjum og gert er í dag en önnur er á þann veg að hugað verði að samruna eða sameiningu að markmiði. Þriðja sviðsmyndin er á þann veg að Kalka sigli ein síns liðs í starfseminni. Hjá Kölku eru yfir 20 heilsársstörf en 1. október tók við nýr framkvæmdastjóri, Steinþór Þórðarson, en fráfarandi framkvæmdastjóri, Jón Norðfjörð, hætti störfum fyrr á þessu ári.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024