Fréttir

Hringferð SA hefst í  Reykjanesbæ í næstu viku
Laugardagur 31. maí 2025 kl. 06:05

Hringferð SA hefst í Reykjanesbæ í næstu viku

„Hringferð SA markar upphaf starfsársins okkar sem helgað er útflutningsgreinum,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. „Við leggjum mikla áherslu á að vera í góðum og gefandi samskiptum við félagsmenn samtakanna um land allt og hringferðin er mikilvægur liður starfi okkar.“

Búið er að skipuleggja heimsóknir til níu staða vítt og breitt um landið. Fyrsti fundurinn er haldinn í Listasalnum á Park Inn í Reykjanesbæ næsta þriðjudag.

„Það er virkilega ánægjulegt að hefja hringferðina í Reykjanesbæ en á þessu svæði skiptir útflutningur mjög miklu máli og hér er að finna mörg öflug fyrirtæki. Hér er helsta hlið ferðamanna inn til landsins, sterkur sjávarútvegur og iðnaður sömuleiðis.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Fundirnir hafa síðustu ár verið vel sóttir enda fá fundargestir tækifæri til að hafa áhrif á málefnastarf SA og áherslur. „Þessir vinnufundir eru mikilvægt samtal milli okkar sem störfum hjá SA og félagsmanna. Við segjum frá helstu áskorunum sem við sjáum í umhverfi fyrirtækja, stefnum og straumum, og fáum mikilvægar upplýsingar og sjónarmið frá fundargestum. Oft er einhver áherslumunur milli landshluta hvað varðar einstaka mál en það ríkir jafnan samhljómur um stærstu hagsmunamálin sem eru þau að búa fyrirtækjum einfalt og sanngjarnt rekstrarumhverfi,“ segir Sigríður Margrét.

Vinnufundirnir eru þannig byggðir upp að tekið er á móti gestum kl. 11.30 með hádegisverði. Fundurinn hefst síðan kl. 12 með stuttri kynningu frá SA. Í framhaldinu er umræður og vinnuhópar á borðum og lýkur fundinum síðan með niðurstöður eru dregnar saman. Fundargestir fá tækifæri til að svara eftirfarandi spurningum: Hverjar eru helstu áskoranir fyrirtækja á ykkar atvinnusvæði? Hvað geta stjórnvöld gert til að skapa aukin tækifæri og lífsgæði? Hvernig getum við aukið útflutningstekjur Íslands og þar með lífsgæði?

Síðustu vikur hafa stjórnmálin verið undirlögð af hörðum umræðum um veiðigjöld. „Sjávarútvegur hefur í langan tíma verið ein af lykilstoðum íslensks atvinnulífs og útflutnings. Umræður um greinina hafa að mínu mati verið alltof hörð og óvægin. Enginn í forystu sjávarútvegsins hefur haldið því fram að greinin eigi ekki að greiða veiðigjöld. Það er mikilvægt að stjórnvöld standi vel að öllum ákvörðunum sem varða grundvallaratvinnuvegi landsins og gefi greinunum og þeim samfélögum sem reiða sig á þær ráðrúm og tækifæri til að koma með sitt sjónarhorn,“ segir Sigríður Margrét.

Fyrir skemmstu var Jón Ólafur Halldórsson kjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins. Jón Ólafur er ekki ókunnugur störfum fyrir atvinnulífið á Íslandi en hann hefur verið formaður Samtaka verslunar og þjónustu og setið í stjórn SA. „Ég er fullur tilhlökkunar fyrir hringferðinni. „Ég legg mikla áherslu á lifandi samtal við forsvarsmenn fyrirtækjanna í landinu. Einnig er nauðsynlegt að muna að fyrirtækin eru ekki eyland heldur mikilvægur þáttur í hverju samfélagi,“ segir Jón Ólafur.

Fundur SA, Öflugur útflutningur – aukin lífsgæði, verður haldinn í Listasalnum á Park Inn, við Hafnargötu 57 í Reykjanesbæ, þann 3. júní. Fundurinn hefst kl. 12.00 en húsið verður opnað kl. 11.30 með hádegisverði.