Fréttir

Gosstöðvarnar opnar á ný: Allt sem þú þarft að vita
Mynd: Ingibergur Þór Jónasson
Miðvikudagur 10. ágúst 2022 kl. 11:22

Gosstöðvarnar opnar á ný: Allt sem þú þarft að vita

Eins og komið hefur fram þá hefur verið opnað aftur inn á gossvæðið og ráðlagt ferðamönnum að fara gönguleið A. Unnið hefur verið að lagfæringum á þeirri leið en hún er þó erfið yfirferðar og er enn unnið að úrbótum. Veður hefur skánað og því ekki lengur ástæða til að halda svæðinu lokuðu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá Lögreglustjóra Suðurnesja. 

Áætlað er að ferðalagið að gosinu taki um fimm til sex klukkustundir. Frá upphafi gönguleiðar A að útsýnisstað við enda hennar er um tveggja klukkustunda ganga með 300 metra hækkun í landi. Útsýnisstaðurinn við enda gönguleiðarinnar liggur hátt uppi og eru um 600 metrar frá honum að gossprungunni sjálfri.

Ferðamenn eru beðnir um að gæta gasmengunar á gönguslóð og í nálægð við gosið. Þá vill Lögreglustjóri ítreka það að foreldrum með börn yngri en tólf ára verður snúið frá leið A af öryggisástæðum. „Börn hafa minna þol gagnvart loftmengun og eru skilgreind sem viðkvæmur hópur. Þá er ekki ráðlegt að börn dvelji lengur en fimmtán mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum,“ segir í tilkynningunni.  

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Það hefur reynst erfitt að fá erlenda ferðamenn til að fara að fyrirmælum lögreglu og það þrátt fyrir að þau hafi rækilega komið fram á samfélagsmiðlum og í sjálfvirkum textaskilaboðum frá 112. Þrátt fyrir lokanir síðustu daga hafa þeir streymt að og ætlað inn á lokað svæði.   Það er áhyggjuefni. Síðasta sólarhring hafa aðgerðir viðbragsaðila gengið vel og lokanir inn á svæðið hafa haldið. Ákvörðun um takmarkað aðgengi var m.a. tekin með hliðsjón af framansögðu,“ segir einnig í tilkynningunni.

Gjaldskylda er við bílastæði þar sem ganga hefst og er gjaldið eitt þúsund krónur.

Samkvæmt talningu Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna á gosslóð, frá upphafi fyrra goss, hafa 451.797 farið um gossvæðið. Gera má ráð fyrir því að sú tala sé í reynd mun hærri.  

Aðgerðir viðbragðsaðila hingað til hafa verið mjög umfangsmiklar en hafa gengið vel.