Flugeldasýning mætti slökkviliðsmönnum
Eldur kom upp í grenndargámum við Kamb í Innri-Njarðvík í gærkvöldi. Það var nágranni sem gerði Neyðarlínunni viðvart og hún sendi slökkvilið Brunavarna Suðurnesja á staðinn.
Nágranni grenndarstöðvarinnar lýsti því í samtali við Víkurfréttir að mikil sprenging hafi orðið. Þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang blasti við þeim mikil flugeldasýning en eldur logaði þá í flugeldum við grenndargámana.
Slökkviliðið var fljótt að slökkva eldinn og hann náði því ekki að dreifa sér í aðra gáma á svæðinu.
Tekið er á móti flugeldarusli á grenndargámastöðvum en ekki liggur fyrir hvort eldurinn hafi komið upp í því rusli.
Myndirnar voru teknar við slökkvistarf í gærkvöldi. Einnig eru myndir frá sjónarvottum og skjáskot úr myndskeiði Brunavarna Suðurnesja sem sýnir „flugeldasýninguna“.







