Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Bandaríkjamenn  yfirbjóða markaðinn
Forsíða blaðauka Víkurfrétta í síðustu viku þar sem fréttum frá árinu 1983 voru gerð skil.
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
þriðjudaginn 26. janúar 2021 kl. 10:04

Bandaríkjamenn yfirbjóða markaðinn

– og hreppa flestar íbúðir sem gefast. Framboð á leiguhúsnæði aldrei verið minna.

Víkurfréttir í 40 ár • Frétt úr blaðinu fimmtudaginn 21. júlí 1983

Framboð af leiguíbúðum hefur að undanförnu verið mjög lítið hér á Suðurnesjum, en eftirspurn sennilega sjaldan verið meiri. Bandaríkjamenn og þá aðallega varnarliðsmenn, hafa nú í auknum mæli sótt í leiguíbúðir hér á svæðinu. Og með því að yfirbjóða húsaleiguna hefur þeim tekist að hremma þær íbúðir sem losnað hafa og Íslendingar hafa ekki verið samkeppnisfærir í greiðslum, auk þess sem margir hverjir vilja frekar leigja Bandaríkjamönnum, þar sem greiðsla frá þeim er í dollurum, auk hærri greiðslu sem þeir bjóða. Er þetta mest allt fjölskyldufólk sem kýs frekar að búa niðri í Keflavík eða Njarðvík heldur en á vellinum. Auk þess fær  fólk sem vinnur við störf eins og kennslu á vellinum ekki íbúðir þar og þurfa því að verða sér úti um þær a Suðurnesjasvæðinu.

Vegna hinnar góöu stöðu dollarans gagnvart íslensku krónunni eru Bandaríkjamenn í mjög auknum mæli farnir að versla hér niður frá, nema ef helst skyldi vera vín og tóbak. Fyrir utan  að sækja alla þjónustu hér á svæðinu þá finnst hinum bandaríska fjölskyldumanni mun betra að búa niður frá, þar sem hann fær meira ró og næði. Annað sem spilar inn í er, að hinn bandaríski fjölskylduþegn kærir sig ekki um að búa nálægt eiturlyfjaneytendum, en slík neysla hefur aukist verulega upp á síðkastið á vellinum. Allar íbúðir sem bjóðast á vellinum eru í blokkum og fólkið vill ekki að krakkar sínir umgangist eiturlyfjaneytendur.

Bandaríkjamenn sem búa hér niður frá borga að sjálfsögðu ekki skatta sína og skyldur til ríkis eða bæja, og njóta því allrar þjónustu sem hér gefst, fyrir ekki neitt. Eigendur íbúðanna borga fasteignagjöld, en hver veit hvað borgað er fyrir leiguna á íbúðinni? Hún er að sjálfsögðu ekki gefin upp til skatts.

Fyrir nokkrum árum síðan var mikill fjöldi Bandaríkjamanna búsettur hér niður frá, en með byggingu fjölda íbúðarblokka á vellinum var fólkið látið fara þangað til búsetu og takmarkið var að allir Bandaríkjamenn ættu heimili sín þar.

Það er því ljóst að ef ekki á að fara í fyrra horf og Bandaríkjamenn streymi hér niður eftir, þurfa bæjaryfirvöld að taka til höndum, og  strax. - pket.


Í næstu tölublöðum Víkurfrétta verður ferðast aftur í tímann og valdar fréttir úr 40 ára sögu blaðsins skoðaðar.