Flugstefna Íslands
Flugstefna Íslands

Fréttir

Ánægðir bæjarbúar í afmælisbænum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 6. september 2019 kl. 15:13

Ánægðir bæjarbúar í afmælisbænum

Ljósanótt er fyrirboði um það að haustið sé á næsta leyti en þetta er síðasta bæjarhátíðin hér á landi. Að vanda er dagskráin afar fjölbreytt þar sem bæjarbúar eru mjög duglegir að taka þátt. Ljósanæturdagskráin stendur yfir í fimm daga og nú bættist við skemmtilegur forsmekkur að henni að það voru stórtónleikar Sinfónínuhljómsveitar Íslands á þriðjudag. Þeir voru í boði Reykjanesbæjar sem fagnar 25 ára afmæli á þessu ári.

Í þessu blaði rifjum við upp það helsta úr 20 ára sögu Ljósanætur en henni hefur aldeilis vaxið fiskur um hrygg og rúmlega það. Einnig birtum við dagskrá Ljósanætur 2019 innan á kápu blaðsins þannig að þeir sem vilja hafa prentað eintak af henni geta tekið þær blaðsíður með sér. Gestir á Ljósanótt voru ekki margir árið 2000 þegar fyrsta hátíðin fór fram eins og sjá má á mynd sem við birtum frá flugeldasýningunni en þar eru ekki margir bæjarbúar að fylgjast með þegar flugeldar sprungu skömmu eftir að kveikt hafði verið á ljósunum á Keflavíkurbergi í fyrsta sinn. Ljósin í berginu gefa skemmtilegan svip ekki síst nú þegar farið er að dimma og fastur liður í lok hátíðarinnar er þegar kveikt er á þeim eftir flugeldasýningu. Nú er svo komið að endurnýja þarf ljósin en Steinþór Jónsson, einn af forvígismönnum Ljósanætur átti þessa skemmtilegu hugmynd og fékk fyrirtæki með sér í lið við fjáröflun og uppsetningu. Við hvetjum Steina „Ljósálf“ að einhenda sér í verkið. Honum ætti að takast að fá aðila með sér í það ef við þekkjum hann rétt.

Í þessu tölublaði Víkurfrétta tökum við nettan púls á bæjarlífinu í Reykjanesbæ og ræðum meðal annars við alla bæjarstjórana í tilefni aldarfjórðungsafmælis fjórða stærsta bæjarfélgs á Íslandi. Þeir tóku allir við mismunandi áskorunum og það er gaman að lesa viðtölin við þá. Við heimsækjum líka nokkur fyrirtæki og fólk á þessum tímamótum. Þar má sjá að mörg fyrirtæki eru í ágætum málum og margir bæjarbúar eru ánægðir í Reykjanesbæ.

Í forystugrein í blaði fyrir Ljósanótt 2018 skrifaði undirritaður um óvissufréttir af flugfélögunum Icelandair og WOW air með þeirri von að allt færi vel. Eins og flestir vita þá fóru þau mál frekar illa og kom sér illa við Suðurnesin sem hafa vaxið mikið í uppgangi ferðaþjónustunnar á undanförnum árum. Mun fleiri eru nú á atvinnuleysisskrá af þeim sökum en þó virðist höggið fyrir ferðaþjónustuna ekki hafa verið eins alvarlegt og það hefði getað orðið. Síðustu fréttir eru þær að bókunarstaða ferðamanna sem hyggjast heimsækja Ísland í haust og vetur er ágæt og það er því ekki hægt annað en að vona það besta. Margir hafa þó áhyggjur af stöðu mála þegar hausta tekur. Vitað er að all nokkur fyrirtæki hafa þurft að fækka starfsfólki og það gæti því verið raunveruleikinn að slíkt gæti gerst á haustmánuðum.

En næstu daga er síðasta bæjarhátíð landsins í ár. Göngum hægt um gleðinna dyr á Ljósanótt en njótum mjög fjölbreyttrar dagskrár.

Gleðilega Ljósanótt og til hamingju íbúar Reykjanesbæjar með 25 ára afmæli bæjarins. 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs