Fréttir

Ábyrgðin algerlega hjá Reykjanesbæ
Fimmtudagur 14. september 2023 kl. 04:49

Ábyrgðin algerlega hjá Reykjanesbæ

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar lögðu fram bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar þar sem óskað er svara vegna tafa á færanlegum skólastofum.

„Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir svari við því hvers vegna skólastjórnendur fengu ekki að vita fyrr en nokkrum dögum áður en skólastarf átti að hefjast að þrjár til sex vikur væru í að færanlegar skólastofur yrðu tilbúnar til notkunar og gera þyrfti aðrar ráðstafanir vegna kennslu fyrstu vikurnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Framkvæmdin er á vegum bæjarins þrátt fyrir að utanaðkomandi aðili hafi verið eftirlitsaðili og er því ábyrgðin algerlega hjá Reykjanesbæ. Ákvörðunin um að kaupa færanlegar skólastofur var tekin í apríl og því skammur fyrirvari og teljum við okkur ekki hafa forsendur til að meta seinkun á verklokum. Sjálfstæðisflokkurinn undrast þó að upplýsingar um töfina hafi ekki borist frá Reykjanesbæ til skólanna sem um ræðir þannig að hægt væri að bregðast við tímanlega.“

Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Birgitta Rún Birgisdóttir, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, rita undir fundargerðina.