Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

50 ára afmæli Suðurflugs
Magni Freyr Guðmundsson, Kristinn Eyjólfsson, Sigurbjörn Björnsson, Sigþór Kristinn Skúlason, Davíð Jóhannsson og Magnús Brimar Jóhannsson.
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 5. júní 2022 kl. 07:20

50 ára afmæli Suðurflugs

Suðurflug þjónustar einkavélar og hervélar á Keflavíkurflugvelli en á dögunum varð flugafgreiðslufyrirtækið 50 ára. Var þessum merka áfanga fagnað við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Suðurflugs við Silfurhlið Keflavíkurflugvallar. Magnús Brimar Jóhannsson, Kristinn Eyjólfsson og Sigurbjörn Björnsson, þrír af stofnendum Suðurflugs, voru við athöfnina og færðu þeir forstjóra Airport Associates og Suðurflugs, Sigþóri Kristni Skúlasyni, fyrstu fundargerðabók Suðurflugs. Í henni er skráð upphafleg saga þess sem spannar yfir tíu ár.

Við afhendingu fundargerðabókarinnar sagði Kristinn Eyjólfsson nokkur orð:
„Kæru eigendur Suðurflugs, ástæða þess að ég er enn með þessa upphaflegu fundargerðabók undir höndum er sú að fyrstu árin var ég ritari Suðurflugs. Þegar ég seldi minn hlut og gekk úr félaginu „gleymdi“ ég að afhenda bókina og hef þess vegna varðveitt hana þessi 50 ár sem eru liðin frá stofnun Suðurflugs. Okkur þremur eftirlifandi stofnendum, mér, Sigurbirni Björnssyni og Magnúsi Brimari Jóhannssyni, er það sönn ánægja og heiður að afhenda ykkur þessa bók þar sem segir frá rekstri Suðurflugs fyrstu árin.“

Kristinn Eyjólfsson afhenti Sigþóri Kristni Skúlasyni fyrstu fundargerðabók Suðurflugs


Suðurflug var stofnað 15. maí 1972 og var fyrst um sinn flugskóli. „Við vorum með kennslu og svo leiguflug og þar af meðal var farið í varahlutaflug til útlanda til þess að sækja varahluti fyrir útgerðarfélögin og það var þannig fyrstu 27 árin,“ segir Magnús. Aðspurðir hvernig hugmyndin að Suðurflugi hafi kviknað segja þeir draumana hafa verið til staðar. „Við vorum allir lærðir flugmenn að einhverju leyti, bara mislangt komnir en þetta var í rauninni framhald af flugfélaginu Þór, sem var svona fyrirrennari,“ segir Kristinn. 
Þeir Magnús, Kristinn og Sigurbjörn rifjuðu upp þær stundir sem þeir áttu á þessum tíma. „Yfirbyggingin og sýndarmennskan var ekki mikil í byrjun, þetta var bara gamall kofi þar sem selt var kók og prins póló,“ segir Kristinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Magnús Brimar Jóhannsson og Sigurbjörn Björnsson: Mynd tekin fljótlega eftir að þeir flugu til landsins með fyrstu vélina sem Suðurflug, þá flugskóli og útsýnisflug, átti.

Árið 1999 varð Suðurflug í flugafgreiðslufyrirtæki en Davíð Jóhannsson kom þá inn í fyrirtækið. Hann var aðaleigandi og framkvæmdastjóri Suðurflugs um skeið og segir hann að fyrsta árið hafi fyrirtækið afgreitt 158 vélar. „Í apríl 2020 voru svo búnar að fara í gegn 31.000 vélar,“ segir hann stoltur. 

Suðurflug hefur verið í eigu REA ehf., sem er móðurfélag Airport Associates frá árinu 2020 og er nú eingöngu flugafgreiðslufyrirtæki. Sigþór, forstjóri fyrirtækisins, segir rekstur Suðurflugs nátengdan rekstri Airport Associates þar sem stoðdeildir fyrirtækisins styðji vel við rekstur Suðurflugs. Rekstrarstjóri Suðurflugs er Magni Freyr Guðmundsson.