Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Fréttir

„Hvetjum atvinnurekendur og félagasamtök til að nýta sér einstakt tækifæri“
Fimmtudagur 22. apríl 2021 kl. 07:03

„Hvetjum atvinnurekendur og félagasamtök til að nýta sér einstakt tækifæri“

– segja forráðamenn Reykjanesbæjar og Vinnumálastofnunar. Fækkar á atvinnuleysisskrá. Fleiri mættu nýta sér úrræði til að ráða fólk.

„Nýtt úrræði sem gengur undir heitinu „Hefjum störf“ sem kynnt var á dögunum mun gera okkur kleift að ráða fleiri í tímabundin störf á vegum sveitarfélagsins. Við hvetjum líka alla til að leggjast á eitt til að nýta þetta úrræði, hvort heldur sem er hjá einkafyrirtækjum, stofnunum eða félagasamtökum á svæðinu. Þá munum við líka bjóða námsmönnum upp á fjölbreytt störf eins og við gerðum í fyrra,“ segir Sigurgestur Guðlaugsson, verkefnastjóri viðskiptaþróunar hjá Reykjanesbæ.

Hildur Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar Suðurnesja, segir að atvinnuleysi hafi minnkað á Suðurnesjum að undanförnu eða sem nemur um 800 manns. Enn eru þó rúmlega þrjú þúsund manns á atvinnuleysisskrá.  „Það má gera mun betur en það. Við hvetjum atvinnurekendur og forstöðufólk stofnana og félagasamtaka að nýta þetta einstaka tækifæri til að ráða fólk af atvinnuleysisskrá sem og námsmenn,“ segir Hildur.

Sólning
Sólning

„Við bindum vonir við það að með auknum umsvifum í flugi en einnig í gegnum mikilvæg framkvæmdaverkefni á svæðinu að sjá þessar tölur lækka enn frekar. Það er reynsla okkar af þeim starfsmönnum sem við höfum ráðið í gegnum þessi úrræði Vinnumálastofnunar að þar er á ferðinni víðtæk þekking sem er mikilvægt að nýta, þó það sé ekki nema tímabundið í afmörkuð verkefni á meðan vinnumarkaðurinn er að jafna sig. Við köllum líka eftir hugmyndum að verkefnum til að skapa störfin utanum. Þannig vitum við til dæmis af áhuga málfundarfélagsins Faxa til að skrá upplýsingar úr fundargerðum félagsins í rafrænar skrár. Þetta er dæmi um eitthvað sem við getum skapað störf í kringum og viljum endilega fá að vita af öllum svona verkefnum. Þá mun ríkisstjórnin bjóða aftur upp á atvinnuátak um sumarstörf fyrir námsmenn. Við verðum með í því og reiknum með að bjóða upp á fjölbreytt störf eins og við gerðum í fyrra þegar við buðum upp á tæplega 200 mismunandi störf hvort heldur sem var á skrifstofu Reykjanesbæjar eða í hinum ýmsu stofnunum sveitarfélagsins. Við gerum ráð fyrir að störfin verði auglýst um mánaðarmótin,“ segir Sigurgestur.

Hildur segir mjög mikilvægt að fá virkni í fólk sem hefur verið atvinnulaust. Það sé einn af stóru þáttunum í þessu átaki. Aðili sem ræður til starfa einstakling sem er búinn að vera atvinnulaus lengur en tólf mánuði fær framlag frá VMST sem nemur tæplega 530 þúsund krónum að hámarki með 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð, í allt að sex mánuði. Einnig er hægt að ráða fólk af atvinnuleysisskrá sem hefur verið atvinnulaust allt niður í einn mánuð en þá er upphæðin sú sama og viðkomandi fær í atvinnuleysisbætur eða tæpar 343 þúsund krónur með framlagi í lífeyrissjóð.