Fréttir

„Gott samstarf hjá mörgum aðilum í Fagradalsfjalli“
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
mánudaginn 4. október 2021 kl. 09:28

„Gott samstarf hjá mörgum aðilum í Fagradalsfjalli“

– segir Gunnar G. Schram, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum

Eldgosið í Fagradalsfjalli er orðið langlífasta eldgos á Íslandi á 21. öldinni og engin leið að spá fyrir um endalok þess. Til að fræðast aðeins um gosstöðvarnar og veturinn sem er í vændum tókum við Gunnar Schram, yfirlögregluþjón á Suðurnesjum, tali.

„Það er engin merki um að gosið sé að hætta, hegðun gossins er hins vegar mjög breytileg bæði hvað varðar virknina og einnig hraunflæðið, það hefur verið mjög hagstætt síðustu mánuði að fá flæðið niður í Meradali í stað Nátthaga,“ segir Gunnar.

Ýmislegt er til skoðunar fyrir haustið og veturinn með yfirvofandi versnandi veðri og styttri dagsbirtu. Gunnar kom inn á nokkur atriði sem eru til skoðunar „Veturinn er á næsta leiti og það stendur yfir undirbúningur núna með nokkur atriði sem eru í fjármögnunarferli hvað varðar lagfæringar á gönguleiðum. Það er mjög mikilvægt að ná lagfæringum á stígunum fyrir veturinn, hafa þá merkta og upplýsta að hluta til, sérstaklega þessar tvær gönguleiðir – upp á Langahrygg og Stórhól. Þetta eru bestu útsýnisstaðirnar eins og stendur. Stikurnar verða einnig hnitmerktar þannig að auðveldara verði að staðsetja slys.“

Meira af erlendum ferðamönnum

Það hefur orðið töluverð breyting á því fólki sem er að sækja gosstöðvarnar, meira um erlenda ferðamenn en Íslendinga sem sóttu gosið meira í vor og voru einnig meira fram á kvöld. Ferðaþjónustuaðilar hafa einnig verið að bjóða upp á skipulagðar ferðir undir leiðsögn.

Breyting hefur orðið á viðveru björgunarsveitaraðila, þeir hafa í sumar einungis verið um helgar og landverðir á virkum dögum og hafa verið mjög mikilvægir í upplýsingagjöf til ferðamanna að mati Gunnars. „Þeir verða með daglega vakt frá hádegi til átta á kvöldin og síðan er lögreglan með fasta viðveru þarna.“

Í upphafi voru daglegir upplýsingafundir með ýmsum hagsmunaaðilum, viðbragðsaðilum, björgunarsveitum, vísindasamfélaginu, veðurstofu, landeigendum, almannavörnum, ráðuneytum og stjórnendum Grindavíkurbæjar. „Samstarfið hefur gengið vonum framar og líklega er þetta í fyrsta skipti sem gossvæði eru mönnuð með landvörðum. Fundum hefur fækkað núna eftir því sem meiri reynsla og þekking hefur orðið til og núna eru reglulegir fundir tvisvar í viku með þeim aðilum sem við á hverju sinni.

Tölvert hefur verið um slys, fólk hefur verið að hrasa í lausamölinni, sérstaklega þegar það er á niðurleið af Langahrygg, orðið þreytt og ekki eins öruggt með sig í göngunni.

„Líklega hafa orðið um 45–50 beinbrot frá upphafi af þeim rúmlega 300 þúsund ferðamönnum sem hafa sótt gosstöðvarnar en ekki hafa orðið nein slys enn sem komið er vegna hraungöngu sem er ótrúlegt,“ segir Gunnar.

Gunnar merkir að meiri áhugi og fjöldi er að sækja Reykjanesið, bæði hjá erlendum ferðamönnum og Íslendingum, vegna eldgossins og kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni.