RNB þrettándinn
RNB þrettándinn

Fréttir

„Garðmenn eru löghlýðnir borgarar“
Sigurbergur Þorleifsson og Ásdís Káradóttir. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Laugardagur 3. janúar 2026 kl. 08:38

„Garðmenn eru löghlýðnir borgarar“

Gluggað í gamlar Víkurfréttir. Viðtal í jólablaði Víkurfrétta 1988

Fyrrum hreppstjóra- og vitavarðarhjónin, Sigurbergur Þorleifsson og Ásdís Káradóttir, heimsótt

– Góðan dag. Hilmar heiti ég Bárðarson hjá Víkurfréttum. Við hvern tala ég?
– Komdu sæll Hilmar, Ásdís heiti ég. Hvað er að frétta úr Garðinum?
– Það er allt gott að frétta úr Garðinum.
– Það var gott að heyra.
– Hvernig er það, er hann Sigurbergur heima? Ég þarf aðeins að ná tali af honum.
– Já, hann er heima. Viltu bíða aðeins. Hann er niðri og ég ætla að segja honum að það sé síminn.
– Já.
– Já, halló.
– Sæll Sigurbergur. Hilmar Bárðarson hjá Víkurfréttum. Ég ætlaði að athuga hvort ég mætti ekki ónáða þig um helgina. Þannig er mál með vexti að ég hef hug á að spjalla við þig í jólablaðinu okkar. Hvað segir þú um það?
– Já, það ætti að vera allt í lagi.
– Hvernig er það, verður þú heima á laugardaginn? Ferð þú kannski eitthvað úr bænum?
– Ég á ekki von á því.
– Hvað segirðu um að ég heimsæki ykkur hjónin þá og við ræðum málin?
– Þú verður bara að sjá til hvað þér tekst að grafa upp.
– Ég þakka þér þá bara fyrir. Ég mun hafa samband áður en ég legg af stað á laugardaginn. Við sjáumst þá.
– Þú skilar kveðju.
– Ég geri það.
– Blessaður.
– Já, blessaður.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Eitthvað á þessa leið hljóðaði samtal blaðamanns Víkurfrétta við hjónin Sigurberg og Ásdísi í lok nóvembermánaðar, þegar ákveðið var að eftirfarandi viðtal skyldi tekið. Það var síðan einn fagran laugardagseftirmiðdag að viðtalið fór fram.

Sigurbergur er merkur maður, örugglega einn af þeim merkari sem búið hafa í Garðinum í seinni tíð. Sigurbergur hefur fengist við margt um ævina og því er svolítið erfitt að titla manninn: Vitavörður, hreppstjóri, meðhjálpari eða jafnvel sóknarnefndarformaður. Já, Sigurbergur hefur fengist við ýmislegt í gegnum árin. Auk fyrrnefndra starfa hefur hann einnig verið í formennsku í ungmennafélaginu Garðari, fengist við prófdóma í barnaskólanum, verið í sáttanefnd og sýslunefnd til nokkurra ára, formaður Búnaðarfélags Gerðahrepps og þá eru látin ótalin mörg aukastörf og sjálfboðavinna í félagsmálum.

Það er margt forvitnilegt sem Sigurbergur hefur frá að segja, án efa efni í heila bók, en við reynum að stikla á stóru í lífi og starfi Sigurbergs.

Hof í Garði, fæðingarstaður Sigurbergs. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson 1988

Ættir að rekja til eldklerksins

Sigurbergur Helgi Þorleifsson er fæddur 30. ágúst 1905 að Hofi í Garði, sonur hjónanna Júlíönu Hreiðarsdóttur og Þorleifs Ingibergssonar, sem bæði eru ættuð úr Vestur-Skaftafellssýslu. Á Sigurbergur ættir að rekja til eldklerksins fræga, séra Jóns Steingrímssonar.

Þorleifur og Júlíana eignuðust fjögur börn, Sigurberg, Pálínu, Guðrúnu og Sigríði.

„Faðir minn stundaði sjósókn og landbúnað og fjölskyldan lifði á því sem aflaðist“, sagði Sigurbergur um starf föður síns hér áður fyrr.

Byrjaði snemma á sjónum

„Ég gekk í fjögur ár í barnaskóla, sem var skyldan í þá daga. Þá var ég í unglingaskóla veturinn 1922 og fékk einnig tilsögn í tungumálum,“ svaraði Sigurbergur, þegar hann var spurður hvaða menntunar hann hafi orðið aðnjótandi á bernskuárum sínum.

– Hvað var svo haft fyrir stafni á unglingsárunum?
„Strax eftir fermingu fór ég á sjóinn fyrir alvöru. Það var aðallega róið með þorskanet og línu. Annars byrjaði ég fljótt á sjónum, fyrst með gömlum mönnum og þá var yfirleitt róið út í þarann, sem kallað er, en þá var farið rétt út fyrir landsteinana og veiddur þaraþyrsklingur. Gömlu mennirnir þekktu miðin þar sem veiði var von.“

„Ég réri í nokkur skipti með gömlum manni sem hét Steinn Bergþórsson og þá var róið með ræksni sem beitu.“
– Ræksni?
„Já, það er innvolsið úr gráðsleppu. Það gekk nokkuð erfiðlega að beita ræksninu og því voru notaðir stórir önglar og spotti vafinn um beituna svo hún héldist saman. Með þetta var síðan róið á svokölluð kirkjumið og fleiri fisksæla staði í Garðsjó.“
– Hverju var nú aðallega beitt í þá daga?
„Á haustin var öðuskel mikið notuð til beitu, en á vorin var farið upp í Hvalfjörð á opnum báti og þangað sóttur kræklingur. Það voru einnig nokkrir sem grófu eftir sandmaðki í fjörunni á Garðskaga og Sandgerði.“

Vitabyggingar víða um land

Sigurbergur fékkst við fleira en sjósókn og lítils háttar landbúnað á sínum yngri árum, því frá árinu 1924 og til 1931 vann hann við vitabyggingar víða um land. Fyrsta sumarið vann hann ásamt öðrum að því að steypa utan um gamla Garðskagavitann. Síðan fékkst Sigurbergur við byggingu Stafnesvita og annarra vita víða um land. Vinnu sinni við vitabyggingar lauk Sigurbergur þegar nýi Garðskagavitinn var reistur árið 1944.

Strandhögg á Tjörnesi

Einn af þeim stöðum sem Sigurbergur fékkst við vitabyggingar var á Tjörnesi fyrir norðan. En Sigurbergur gerði aðeins meira en að byggja þar vita því þangað sótti hann líka elskuna sína, Ásdísi Káradóttur, sem hann hefur verið kvæntur alla tíð síðan.

Sigurbergur stofnaði til heimilis árið 1930 og bjó að Hofi í 21 ár. Sigurbergur stundaði sjó á trillubát og var með útgerð, auk lítils háttar landbúnaðar.

„Ég tók vertíðarmenn, sem voru kallaðir útgerðarmenn í þá daga. Þeir voru ráðnir upp á fast kaup, sama hvernig fiskaðist, en ef það fiskaðist vel, þá fengu þeir hærri greiðslu fyrir sinn hlut.“

Garðskagaviti sem var byggður 1944, fjósið og vitavarðarhúsið á Garðskaga.

Vitavörður og sá um rekstur radíómiðunarstöðvar

– Þú hefur fengist við margt um dagana, Sigurbergur. Eitt þeirra starfa sem þú fékkst við í mörg ár var varsla Garðskagavita.
„Við hjónin fluttumst út á Garðskaga sumarið 1951 og vorum þar í 26 ár og sáum um vitana, bæði Garðskagavita og Hólmbergsvita, þegar hann var reistur 1958.

Um sama leyti og við tókum við vitavörslunni á Garðskaga þá var settur upp radíómiðunarbúnaður, sem ég annaðist rekstur á.“

Að sögn Sigurbergs var oft og tíðum mikil vinna í kringum miðunarstöðina og bera dagbækur frá þessum tíma glöggt vitni um það að sumar nætur hefur verið lítið um svefn hjá Sigurbergi og Ásdísi.

„Þetta var ákaflega bindandi og það varð alltaf að vera einhver heimavið, enginn vissi hvenær skip þyrfti á miðun að halda.“

– Var kallað beint á Garðskaga, eða var einhver milliliður um loftskeytin?
„Ef skip þurfti á miðun að halda, þá kallaði það á loftskeytastöðina í Reykjavík, sem síðan hringdi til okkar hér á Garðskaga og ég kallaði upp skipið, þar til ég fékk svar. Þegar sambandi var náð, þá var því ekki slitið fyrr en skipið var komið í örugga höfn eða vissi hvar það var statt.

Þegar vond veður voru, þá var kallað beint í Garðskaga „Garðskagi Radíó“, en það var nafnið á stöðinni.“

Skipströndin urðu nokkur meðan Sigurbergur var við vitavörslu á Garðskaga. Saltskip fór í Flösina, lúðuveiðari, finnskt skip og tveir vélbátar. Fjórir áhafnarmeðlimir af finnska skipinu gistu hjá þeim hjónum í nokkra daga en öðrum af sama skipi var bjargað um borð í vélbát.

Mynd tekin úr Garðskagavita og yfir byggðina í Útgarðinum 1953. Mynd í varðveislu Byggðasafnsins á Garðskaga.

Hreppstjórinn Sigurbergur

Ég er búinn að ræða við Sigurberg í ófáar mínútur um æskuárin og starf hans sem vitavörður. Því var kominn tími til að „blaðinu yrði snúið við“ og rætt við hreppstjórann Sigurberg Þorleifsson.

Ásdís, kona Sigurbergs, hefur verið að sinna öðrum málum og fylgst með okkur úr fjarlægð en er nú komin inn í stofuna til mín og Sigurbergs og tekur þátt í umræðunum.

Það er gott að tala við Sigurberg. Við gefum okkur tíma í að ræða hlutina. Hann er hvatlegur maður, öruggur í framkomu og ekki með neinar sveiflur í fasi. Eitt er víst, að hann er ekkert að gorta af því sem hann hefur fengist við.

Sigurbergur gegndi stöðu hreppstjóra í Gerðahreppi í rúma þrjá áratugi, frá 1943 til 1978.

„Þetta var heilmikið starf,“ sagði Sigurbergur, „en gekk furðu vel.“

Starf hreppstjóra í gamla daga var öðruvísi en það er í dag, því þá var hreppstjórinn líka lögregla byggðarlagsins og þurfti að hafa afskipti af ýmsum málum.

„Ég tók til dæmis skýrslur af öllum sem lentu í árekstrum í hreppnum og fólk leitaði oft til hreppstjórans með hin ýmsu vandamál.“

– Hvernig voru Garðmenn?
„Garðmenn voru löghlýðnir borgarar en það var alltaf eitthvað um að vera,“ svaraði Sigurbergur.

Sigurbergur hugsaði sig aðeins um en náði síðan í bókina Undir Garðskagavita eftir Gunnar M. Magnúss og fletti þar upp á sögu, sem hann lét hafa eftir sér í þeirri bók fyrir allmörgum árum.

Sagan hljóðar þannig: Það var á bæ einum í Gerðahreppi að tvö hjón áttu heima í tvílyftu timburhúsi. Bráðlega tók að bera á missætti á milli kvennanna, fyrst smá agnúaskapur, sem magnaðist með hverjum straumi, þar til upp úr sauð. Máttu þær naumast hvor aðra sjá, úti eða inni, án þess að svala heift sinni. Stóðu þær tíðum andspænis hvor annarri og háðu hinar hvössustu deilur með harkalegu orðbragði svo öll blíða hvarf úr umhverfinu, svo langt sem landareignin náði.

Eiginmönnunum þótti hér stefna í óefni, en hvorugur átti hægt um vik að hverfa á braut með sína fjölskyldu en sambýli til frambúðar virtist þó óhugsandi. Magnaðist ófriðurinn enn og létu þær ekki sitja við orðin tóm, heldur fóru að brjóta og skemma hvor fyrir annarri. Komu bændur sér þá loks saman um að leita aðstoðar hreppstjóra.

Sigurbergur kom nú á vettvang og varð það fyrst úr að hann heimsótti fjölskylduna á loftinu. Var honum boðið kaffi og ræddi hann undir borðum þetta alvarlega ástand. Hélt hann síðan niður til hinnar konunnar. Þar var einnig hellt upp á könnuna og drakk hreppstjórinn þar kaffi meðan hann rabbaði um málið. Að því loknu fór hann aftur upp og hafði þá á loftinu aftur rjúkandi kaffi og skenkti í bollann hjá yfirvaldinu.

Þannig gekk þetta lengi dags að Sigurbergur hélt áfram að drekka kaffi, ýmist uppi eða niðri. Tók koffínið smátt og smátt að hafa sínar hressilegu og gleðivekjandi verkanir, þar til fylling stundarinnar kom upp og þau settust öll þrjú við kaffiborðið. Að þeim sopa niðurrenndum tókust konurnar í hendur og sættust fullum sáttum en yfirvaldið lýsti friði og fullum griðum, að fornum sið.

Svo er sagt að það sé lastandi að þjóð vor sé mesta kaffidrykkjuþjóð á Norðurlöndum og þó að víðar væri leitað.

Helguvíkurmálið kemur upp

– Þrætuefnin hafa verið margvísleg í gegnum tíðina og kaffidrykkja ekki alls staðar orðið til sátta, sem komið er. Þú ert hreppstjóri þegar Helguvíkurmálið kemur fyrst upp á yfirborðið. Hafðir þú einhver afskipti af þessu máli?
„Helguvíkurdeilan lenti ekki mikið á mér. Það voru aðallega oddvitinn og hreppsnefndin sem voru að snúast í kringum þetta umrædda mál. Það var alltaf eitthvað um landamerkjadeilur, bæði í Leirunni og annars staðar.“

Björn var ákveðinn í sinni stefnu

– Hvernig var hreppapólitíkin á þessum tíma?
„Það voru ekki mikil átök í hreppapólitíkinni. Sjálfstæðismenn hafa alltaf verið í meirihluta utan einu sinni, að menn sem hallast til vinstri voru í valdastól. Fólk hafði misjafnar skoðanir og deilurnar bitnuðu mikið á Birni Finnbogasyni en Björn var fastur fyrir í sinni stefnu.“

Ekkert lögtak í 35 ár

Sigurbergur hefur aldrei ætlað neinum manni illt. Hreppstjóranum bar að innheimta opinber gjöld og á 35 ára ferli sem hreppstjóri þurfti Sigurbergur aldrei að gera lögtak hjá fólki.

„Það var alltaf hægt að semja,“ sagði Sigurbergur.

– Hvernig var það, nú var hreppstjórinn lögregla byggðarlagsins. Hvað gerðir þú ef stinga þurfti mönnum inn?
„Ég fór með þá sem setja þurfti inn heim til mín. Ef um aðkomumenn var að ræða, þá leitaði ég til lögreglunnar í Keflavík, sem þá sá um að vista mennina, en sem betur fer þá kom ekki oft til þess.“

Skemmtilegt að umgangast börn

Nú, þegar við Sigurbergur höfum rabbað saman í dágóðan tíma, er ekki úr vegi að leggja nokkrar spurningar fyrir eiginkonu hans, Ásdísi Káradóttur.

Ég veit það að Ásdís hefur fengist við skáldskap og hafa birst ljóð eftir hana á prenti.

– En hvenær giftuð þið hjónin ykkur?

„Við vorum gefin saman 13. desember 1930 í Útskálakirkju af sóknarprestinum, séra Eiríki Brynjólfssyni.“

– Þið eignuðust tvö börn.
„Já, við hjónin eignuðumst tvö börn. Kára, sem nú er læknir á Reykjalundi, og Sigrúnu, barnakennara í Reykjavík. Við eigum líka uppeldisdóttur, Valgerði, sem starfar sem gjaldkeri í Sparisjóði Vélstjóra.“

– Ég veit að þið hjónin hafið mikið dálæti á börnum. Var ekki oft gestkvæmt hjá ykkur í Garðinum?
„Jú, það var oft gestkvæmt og fjöldi barna dvaldist hjá okkur bæði á Hofi og á Garðskaga. Á sumrin voru oft nokkur börn í einu. Það er ákaflega skemmtilegt að umgangast börn og þau hafa verið mikill gleðigjafi í lífi okkar.“

Orustuþota fórst á Garðskaga

Ég beini spurningum mínum aftur til Sigurbergs, sem hefur verið að lesa gögn frá því á vitavarðaárunum. Það kemur til tals hjá okkur þegar orustuþota hrapaði í flæðarmálinu úti á Garðskaga um 1960. Ég bað Sigurberg að lýsa atburðarásinni.

„Það komu tvær orustuþotur úr austurátt og stefndu á vitann. Önnur þeirra var talsvert lægri en hin og þegar þær nálguðust sá ég í hvað stefndi, því önnur vélin smaug rétt yfir húsþökin í Út-Garðinum, fór rétt yfir fjörukambinn og skall í sjóinn.“

– Hvar varst þú staddur þegar þetta átti sér stað og hvernig leit þetta út fyrir þér?
„Ég var staddur úti á túni, þegar þetta átti sér stað, og varð nokkuð bilt við þegar ég sá vélarnar koma. Þetta var áhrifamikil stund. Orustuþotan skall fyrst í sjónum, fór upp aftur og síðan beint niður á Krossstanga.

Ég setti þegar af stað björgunarleiðangur og varnarliðið var mætt á staðinn eftir fáeinar mínútur til þess að bjarga tækjum úr flugvélinni. Flugmaðurinn mun hafa skotið sér út í fallhlíf yfir Ósabotnum í Höfnum en vélin átti að fara í hafið út af Grindavík, eftir að ljóst var að hún gat ekki lent vegna bilunar.“

– Var ekki hætta á því að vélin lenti á vitanum?
„Það var lítil hætta á því, þar sem hún var nokkuð sunnan við húsið.“

Mikill félagsmálaáhugi

Þau hjónin Sigurbergur og Ásdís hafa fengist við ýmis félagsmál. Sigurbergur var formaður U.M.F. Garðars í tuttugu ár.

Ásdís vann að stofnun björgunarsveitar og var í Slysavarnadeild kvenna í Garði. Einnig í Kvenfélaginu Gefn í Garði, auk þess sem hún var lengi í skólanefnd Gerðaskóla og varamaður í sóknarnefnd Útskálakirkju til nokkurra ára.

Sigurbergur var einn af stofnendum Ungmennafélagsins Garðars og var sem formaður þess félags í ein 20 ár. Hvað var gert spennandi í Garðari?

„Í félaginu höfðum við íþróttanámskeið og rákum unglingaskóla í ellefu ár. Fljótlega eftir að U.M.F. Garðar var stofnað var farið að vinna að stofnun bókasafns. Annaðist ég innkaup á bókum fyrir safnið. Ef félagið hætti starfsemi þá áttu allar bækur að ganga til hreppsins. Ungmennafélagið stóð einnig fyrir sundkennslu og var þá kennt í sjónum. Við náðum oft í góða menn til þess að kenna við unglingaskólann,“ sagði Sigurbergur.

Það má geta þess hér að Sigurbergur var einn af stofnendum Íþróttabandalags Suðurnesja, sem varð 40 ára í fyrra.

Mikill áhugi er á starfi björgunarsveitar

Ásdís starfaði mikið að slysavarnamálum í Garðinum ásamt manni sínum. Hún vann dyggilega að stofnun björgunarsveitar í Garði, sem var formlega stofnuð í samkomuhúsinu 23. mars 1969, en sveitin hafði þó starfað frá árinu 1935. Hlaut sveitin nafnið Ljóssveinar en því var síðar breytt í Ægir.

„Piltarnir voru mjög samviskusamir og fórnfúsir og sýndu mikinn áhuga á starfi björgunarsveitarinnar. Það ríkti mikill einhugur með mönnum.“
– Hvað voru margir viðstaddir stofnun Ljóssveina?
„Það voru 39 stofnfélagar og gestir. Fyrsti formaður var Valur Kristinsson.“

Ásdís Káradóttir og Sigurbergur Þorleifsson voru gerð að heiðursfélögum SVFÍ á 50 ára afmæli félagsins árið 1978. Einnig var Ásdís gerð að heiðursfélaga kvenfélagsins Gefnar árið 1977.

„Það var mjög þroskandi að starfa að þessum málum,“ sagði Ásdís um þau félagsmál, sem þau hafa fengist við um ævina.

Síðustu árin í Garðinum

Það er farið að líða undir lok þessa spjalls okkar og því ekki úr vegi að spyrja hvernig það sé að flytja úr kyrrðinni í Garðinum og í ys höfuðborgarsvæðisins?

„Eftir að ég varð sjötugur árið 1975 tók Ásdís við vitavörslunni í tæp tvö ár, þar til sú ákvörðun var tekin að flytja til Kópavogs. Við vorum alltaf í nánu sambandi við fólkið í byggðarlaginu meðan við bjuggum í Garðinum.“

Nýr kafli

„Það hefst nýr kafli í lífi okkar þegar við flytjum úr Garðinum og hættum störfum. Í Garði er miklu nánara samband við umhverfið og fólkið, en hér fer vel um okkur,“ sagði Ásdís.

„Við gleðjumst yfir velgengni Garðbúa og framförum. Frá því við fórum þá höfum við verið í Garðinum á sumrin, á fæðingarstað Sigurbergs, Hofi, og höfum því ekki slitið tengsl okkar við byggðarlagið,“ sagði Ásdís Káradóttir að lokum og Sigurbergur bætti við: „Við tökum þátt í félagsstarfi aldraðra hérna og höfum mætt hlýju og velvild. Það er mikið gert fyrir eldri borgarana hér í Kópavogi.“

Það hefur verið ánægjulegt og fróðlegt að sitja þessa dagsstund með þeim hjónum og ræða lífið í Garðinum. Það er komið kvöld og því kominn tími til að kveðja þau hjón, Sigurberg Þorleifsson og Ásdísi Káradóttur.

Viðtal og ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Sigurbergur lést 23. nóvember 1989, tæpu ári eftir að viðtalið var tekið. Hér er mynd frá útför hans frá Útskálakirkju 2. desember 1989. VF-mynd: Hilmar Bragi

 

RNB þrettándinn
RNB þrettándinn