Fréttir

„Englakór frá himnahöll“ söng fyrir Erlu prest
Heimsókn kórsins var óvænt en ánægjuleg fyrir Erlu sem grét yfir uppátækinu. Myndir: Skjáskot úr myndskeiði Sveins Ólafs
Þriðjudagur 30. desember 2025 kl. 11:06

„Englakór frá himnahöll“ söng fyrir Erlu prest

Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur í Keflavíkurkirkju, fékk heldur betur ánægjulega heimsókn á jóladag þegar „Englakór frá himnahöll“ mætti heim á tröppur til hennar og söng. Þar voru á ferð félagar í kór Keflavíkurkirkju undir stjórn Arnórs Vilbergssonar. Sveinn Ólafur Magnússon, eiginmaður Erlu, birti myndskeið frá heimsókn kórsins og segir englakórinn vera bestu jólagjöfina í ár.

Erla gat ekki messað í kirkjunni fyrir jólin þar sem hún varð fyrir óhappi á aðventunni þegar hún var að þrífa Kirkjulund, safnaðarheimili kirkjunnar. Erla datt og skall á andlitið á hart gólfið með þeim afleiðingum að hún tvíkjálkabrotnaði og braut fimm tennur. Þá fór beinflís úr höfðukúpunni á ferð sem hefur truflað heyrn. Þá fékk Erla gat á höku og er illa marin víðs vegar.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Í færslunni sem Ólafur Sveinn skrifar um jólin hefur hann eftir Erlu að dagarnir séu að versna en það sé bara af því að þeir eigi bara eftir að batna.

Séra Fritz Már Jörgensson stóð vaktina um jólin og sá um allar hátíðarmessur ásamt Arnóri og kórnum.

Að lokum eru skilaboð frá Erlu, sem hvetur sóknarbörn Keflavíkurkirkju til að mæta í messur sem verða haldnar á gamlársdag og nýársdag með óskum um gleðilegt nýtt ár.