„Ekki annars flokks gámabygging heldur nútímaleg byggingaraðferð“
Ný bráðabirgðalögreglustöð í Keflavík reist á mettíma með einingahúsum Stólpa
Ný bráðabirgðalögreglustöð við Hringbraut í Keflavík er gott dæmi um hvað nútímaleg einingabygging getur gert fyrir opinbera innviði. Þetta segir Börkur Grímsson, forstjóri Stólpa, sem sá um framkvæmdina fyrir Framkvæmdasýslu ríkisins.
Verkefnið varð til þegar þörf skapaðist fyrir skjótvirka lausn vegna myglu á efri hæð gömlu lögreglustöðvarinnar í Keflavík og mikilla þrengsla í húsnæðinu. Nauðsynlegt var að koma starfsfólki í heilnæmt húsnæði á stuttum tíma án þess að slaka á kröfum um gæði.
„Þetta er dæmigert innviðaverkefni sem Framkvæmdasýslan fer með í útboði,“ segir Börkur. „Við vildum taka þátt í metnaðarfullu verkefni þar sem ríkið leysir raunverulegan innviðavanda, án þess að slá af neinum kröfum, bara gera hlutina á hagkvæman hátt og á miklu skemmri tíma.“
Einingabygging í stað hefðbundinnar steypu
Lögreglustöðin er byggð úr sérhönnuðum húseiningum sem byggja á „gámalausn“ en eru langt frá því að vera hefðbundnir vinnubúðargámar. Þorleifur Björnsson, arkitekt hjá Glóru í Reykjanesbæ og aðalhönnuður mannvirkisins, segir að grunnurinn sé sá sami og notaður er í gámaflutningum, staðlaðar stærðir þar sem eru svo þróaðar áfram fyrir mismunandi notkun.
Einingarnar eru framleiddar innandyra í verksmiðju erlendis við kjöraðstæður, með fullum frágangi að innan: gólf, loft, innveggir og einangrun. Þær eru svo fluttar til landsins, settar á steyptar undirstöður og tengdar saman á byggingarstað.
„Það er mikil vöruþróun í gangi með þessar lausnir,“ segir Börkur. „Birgjar okkar í Evrópu eru að keppa á mjög kröfuhörðum mörkuðum, meðal annars í Þýskalandi og Hollandi. Þeir framleiða einingar sem uppfylla stöðugt strangari kröfur, og húsin standast allar íslenskar byggingarreglugerðir.“
30% ódýrara og miklu hraðvirkara
Að sögn þeirra sem að verkinu komu er kostnaðar- og tímasparnaður verulegur miðað við hefðbundna byggingu.
Þorleifur bendir á að einingabygging geti verið um 30% ódýrari en hefðbundin byggingaraðferð, án þess að dregið sé úr gæðum. Þar að auki sparist mánuðir, jafnvel ár, í framkvæmd.
„Ef þú færð mannvirki í notkun á 12 mánuðum í stað 30, þá er ávinningurinn miklu meiri en byggingarkostnaðurinn einn og sér. Fjármagnskostnaður, skipulag og tíminn sjálfur skiptir gríðarlega miklu máli,“ segir Börkur.
Samningur um lögreglustöðina var gerður snemma á árinu, einingar fóru að berast til landsins í júlí og húsið var tilbúið þann 1. september. „Frá því einingarnar koma á staðinn og þar til húsið er fullbúið líða um það bil tveir mánuðir,“ segir Börkur.
Gámabygging með gæðum hefðbundins húss
Börkur viðurkennir að enn séu til fordómar gagnvart svokölluðum gámabyggingum, en segir þá byggjast á úreltum hugmyndum.
„Við viljum ekki horfa á þetta sem einhvers konar annars flokks lausn heldur sem byggingaraðferð,“ segir hann. „Notagildið og upplifun notenda af þessu húsi er þannig að flestir myndu halda að þetta væri hefðbundið hús.“
Hann nefnir styrk í gólfum, hljóðvist, lofthæð og frágang sem lykilatriði. Veggir eru málaðir, frágangur vandaður og hljóðeinangrun í samræmi við kröfur. „Það skiptir máli hvernig hljóð berst á milli rýma, hvernig dyr lokast og hvernig upplifun er af húsinu í daglegu lífi. Allt þetta er hannað til að standast sömu kröfur og í venjulegri steinsteyptri byggingu.“
Bráðabirgðalausn – en með líftíma upp á áratugi
Þó að um „bráðabirgða“ lögreglustöð sé að ræða segir Þorleifur að ekkert sé því til fyrirstöðu að slík bygging standi í áratugi.
„Það er ekkert sem segir að svona hús séu ekki í notkun í 30–40 ár,“ segir hann og bendir á að hefðbundinn líftímaútreikningur húsnæðis sé oft miðaður við um 30 ár áður en farið er í umfangsmiklar endurbætur, hvort sem um er að ræða einingahús eða hefðbundna byggingu.
Einingarnar geta líka fengið nýtt hlutverk síðar. Þær má færa á annan stað eða umbreyta, til dæmis í skóla- eða leikskólahúsnæði eða jafnvel frístundahús. „Reykjanesbær hefur til dæmis verið með tímabundinn skóla á malarvellinum við Hringbraut í svona gámaeiningahúsi sem verður síðar leikskóli,“ segir Þorleifur. „Það er ákveðinn innviður sem er hægt að nýta áfram.“
Fleiri verkefni í pípunum
Stólpi og samstarfsaðilar félagsins hafa á undanförnum árum tekið þátt í fjölda verkefna á borð við tímabundnar skólabyggingar, meðal annars við Stapaskóla í Reykjanesbæ, auk nýrra verkefna tengdum bráðamóttöku í Fossvogi og skólum á höfuðborgarsvæðinu.
Börkur segir að jákvæð reynsla af lögreglustöðinni í Keflavík gefi tóninn fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða með einingabyggingu. „Það er gríðarleg þörf fyrir húsnæði; í heilbrigðiskerfinu, á hjúkrunarheimilum, í skólum og alls konar opinberum rekstri,“ segir hann.
„Ef ríkið og sveitarfélögin horfa til þessarar lausnar sem fullgildrar byggingaraðferðar, sem getur leyst vandamál á mánuðum en ekki árum, án þess að slaka á gæðum, þá er þetta frábær kostur fyrir samfélagið.“






