Aðsent

Steinunn sumarboði Suðurnesjamanna
Fimmtudagur 6. júní 2019 kl. 06:00

Steinunn sumarboði Suðurnesjamanna

Lóan er komin að kveða burt snjóinn, að kveða burt leiðindin, það getur hún. Við könnumst öll við þetta ljóð eftir Pál Ólafsson sem fæddist 1827 og dó 1905. Lóan er nefnilega sumarboði svo til alls landsins, nema kannski hérna á Suðurnesjunum. Því okkar sumarboði er aðeins ólíkur lóunni þótt hún sé nú fallegur lítill fugl. Okkar vorboði, eða sumarboði, er nefnilega ansi stór bátur, Steinunn SH.

Undanfarin ár hefur Steinunn SH nefnilega klárað kvótann sinn í vertíðarlok 11. maí og síðan er bátnum siglt suður til Njarðvíkur þar sem hann er tekinn upp í slipp og þar lúrir hann allt sumarið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Steinunn SH er stálbátur sem var smíðaður í Garðabæ hjá Stálvík HF sem þá var til og hét fyrst Arnfirðingur II GK 412 og var þá gerður út frá Grindavík. Hann byrjaði að róa í ársbyrjun 1971. Báturinn var ekki búinn að vera gerður út í nema tæpt eitt ár þegar að Arnfirðing II GK hlekktist á í innsiglunni til Grindavíkur og rak á land.  

Það tókst að bjarga bátnum út en nokkrar skemmdir urðu á honum. Þá var hann í kjölfarið seldur og fékk nýtt nafn í ágúst 1972, Ingibjörg RE 10. Hann var með því nafni í aðeins sex mánuði og var þá seldur til Ólafsvíkur þar sem nafnið Steinunn SH kom á bátinn og hefur verið í 46 ár.

Mubla segja margir þegar þeir sjá bátinn því eigendur hann hugsa virkilega vel um hann og þó að báturinn hafi stundað flestar tegundir veiða þessi 46 ár, t.d. línu, net, rækju, troll, síld og dragnót, þá er það nú samt þannig að alla þessa öld hefur báturinn róið á dragnót og eytt sumrinu í Njarðvík í slippnum þar.  

Það má geta þess að Steinunn SH var aflahæstur dragnótabáta á vertíðinni 2019, eins og lesa má um í vertíðaruppgjörinu sem ég kynnti í síðasta pistli.

Í maí þá landaði báturinn 300 tonnum í aðeins 8 róðrum og var mest með um 49 tonn í róðri. Steinunn SH var reyndar ekki eini dragnótabáturinn sem veiddi vel í maí, því t.d. allir Nesfisksbátarnir mokveiddu. Sigurfari GK var í þriðja sæti yfir landið með 337,3 tonn og var aðeins 500 kílóum á eftir Magnúsi SH. Fékk þennan afla í fimmtán róðrum og mest 44 tonn í róðri, Siggi Bjarna GK var með 313 tonn í átján róðrum og mest 39 tonn og Benni Sæm GK 202 tonn í sextán róðrum og mest 39 tonn.

Förum aðeins í línubátana. Sighvatur GK mokveiddi í maí og var langaflahæstur með 590 tonn í aðeins fimm róðrum, mest 158 tonn í róðri. Sighvatur GK er, eins og hefur verið talað um hérna, mikið breyttur bátur frá því sem var og hann á það sameiginlegt með Steinunni SH að hafa legið í Njarðvíkurslippnum. Reyndar var lega Sighvats GK mjög löng í slippnum í Njarðvík því báturinn var þar í um sex ár, og var síðasta nafn bátsins Hafursey VE. Þessi sami bátur var gerður út frá Sandgerði í um tíu ár og hét þá Arney KE 50 og tók þessi bátur við af gömlu Arney KE sem var með skipaskrárnúmer 1014. Sá bátur var feykilega mikill aflabátur undir skipstjórn Óskar Þórhallsonar.  

Og aðeins meira um þennan bát, Sighvat GK, því áður en hann fékk nafnið Arney KE þá var báturinn Skarðsvík SH og var með því nafni í 25 ár.  

Og það má geta þess að Magnús SH sem er minnst á að ofan tengist Skarðsvík SH. Útgerðin sem átti Skarðsvík SH er sú sama og á í dag Magnús SH.