Flugger
Flugger

Aðsent

Samvinna um uppbyggingu í Helguvík og Bergvík
Föstudagur 19. apríl 2024 kl. 06:07

Samvinna um uppbyggingu í Helguvík og Bergvík

Vistvænt atvinnusvæði í Helguvík-Bergvík

Á vormánuðum 2023 kynnti Kad-eco nýja þróunaráætlun fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar, sem gengur undir nafninu K64. Nafnið var valið sem regnhlífarhugtak yfir þann fjölda verkefna sem hrint verður í framkvæmd á næstu árum og áratugum en nafnið vísar til staðsetningar Suðurnesja, á 64. breiddargráðu. Á Suðurnesjunum er að finna alþjóðaflugvöll, sem tengir saman tvær heimsálfur, stórskipahöfn, jarðvarma, iðnað af ýmsu tagi og síðast en ekki síst gríðarlega öflugt og hugmyndaríkt fólk. Allt þetta býr til tækifæri sem ekki er að finna annars staðar.

Eitt áherslusvæðanna í K64 er svæðið sem í daglegu tali er nefnt Helguvík og Bergvík. Þetta svæði tilheyrir sveitarfélögunum Suðurnesjabæ og Reykjanesbæ, ásamt Reykjaneshöfn og íslenska ríkinu. Þróunaráætlunin leggur áherslu á að svæðið byggist upp með eins vistvænum áherslum og hægt er þar sem nálægðin við Helguvíkurhöfn og Keflavíkurflugvöll verði nýtt til fulls.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hafin er vinna við að skipuleggja Helguvík-Bergvík með það að markmiði að þar rísi vistvænt athafna- og iðnaðarsvæði, þar sem áhersla á hringrásarhugsun og samvinnu leiðir til þess að heildin verður stærri en einstakir hlutar hennar. Svæði sem þetta hafa stundum verið kölluð grænir iðngarðar, eða hringrásargarðar þar sem sjálfbærni er tryggð með samþættingu félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta. Þessu má lýsa þannig að hráefni sem fellur til frá einum aðila nýtist öðrum til verðmætasköpunar. Ferlið skilar betri nýtingu auðlinda, leiðir af sér samkeppnisforskot og eflir samfélagslega ábyrgð innan garðanna og í nærliggjandi samfélögum.

Starfsemi hefur verið rekin á svæðinu en nýjasta viðbótin eru grænir iðngarðar í ónotuðum kerskálum þar sem mörg spennandi verkefni eru á teikniborðinu og framleiðsla hafin nú þegar.

Samvinna og stuðningur

Þegar rætt er um uppbyggingu á svæðinu í kringum Helguvíkurhöfn verður ekki hjá því komist að tala um drauga fortíðarinnar. Það er mjög eðlilegt að íbúar á Suðurnesjum séu varir um sig þegar iðnaður í Helguvík ber á góma. Það er því afar mikilvægur hluti okkar vinnu að búa svo um hnútana að sú uppbygging sem nú er unnið að, verði með allt öðru og betra móti en áður. Verkefnið er samvinnuverkefni Kadeco, Reykjanesbæjar, Reykjaneshafnar og Suðurnesjabæjar þar sem tilgangurinn er að búa til verkfæri og ramma sem  nýtist við ákvarðanatöku og skipulag svæðisins og ýtir undir að   uppbyggingin verði sveitarfélögunum, íbúunum og umhverfinu til góðs. Mikilvægur þáttur í þeirri vinnu er virkt samráð og samvinna með íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.

Tækifæri til grænnar og arðbærrar uppbyggingar eru mörg og við höfum mikla trú á framtíðarmöguleikum Suðurnesja. Við erum ekki ein um að hafa þá trú. Í samtölum okkar við athafnafólk og fjárfesta, hér heima og erlendis, kemur skýrt fram að fleiri sjá þessa möguleika og vilja taka þátt í uppbyggingunni með okkur. Skýr framtíðarsýn og áhersla á samfélagslegan ágóða og uppbyggingu mun geta skilað árangri sem íbúar framtíðarinnar, börnin okkar og barnabörn munu búa að. Það er markmið sem er þess virði að vinna að.

Stöðugleiki í efnahags- og atvinnumálum er verðugt markmið og ein mikilvæg leið að slíkum stöðugleika er að fjölga þeim stoðum sem efnahagslíf svæða byggir á. Uppbygging í Helguvík og Bergvík miðar að því að þar verði til nýjar stoðir, ný tækifæri og starfsemi sem muni skapa verðmæt störf og styðja við nærliggjandi svæði og samfélög. 

Kadeco ásamt samstarfsaðilum, Isavia, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ tekur þátt í stórsýningunni Verk og vit sem fram fer í Laugardalshöll dagana 18.–21. apríl n.k. Á sameiginlegum sýningarbás verður hægt að kynna sér þróunarverkefni K64 nánar, uppbyggingu innan sveitarfélaganna og eiga samtöl við starfsmenn. Föstudaginn 19. apríl kl.13.00 fer fram málstofa sem ber yfirskriftina Suðurnes, tengingar til allra átta. Uppbygging og atvinnusköpun á Suðurnesjum og við Keflavíkurflugvöll.

Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco
Bergný Jóna Sævarsdóttir, sjálfbærnistjóri Kadeco