Krabbamfél Suð
Krabbamfél Suð

Aðsent

Orðræða sem sameinar – ekki sundrar
Miðvikudagur 21. janúar 2026 kl. 09:44

Orðræða sem sameinar – ekki sundrar

Undanfarna daga hefur umræðan sérstaklega snúist um menntamál. Það er eðlilegt, menntun snertir okkur öll og allir mega hafa skoðun á henni. En þegar umræðan verður einhliða svartsýn missum við sjónar á heildarmyndinni. Við gleymum því að í menntakerfinu eru ekki aðeins áskoranir, heldur einnig vel menntað fólk sem mætir nemendum af fagmennsku, nemendur sem blómstra og skólasamfélög sem vinna kraftaverk við krefjandi aðstæður.

Stöðug neikvæð orðræða hefur raunverulegar afleiðingar. Hún grefur undan trausti – ekki aðeins til stjórnvalda eða stofnana, heldur líka hvers okkar til annars. Hún skapar tilfinningu um að ekkert skipti máli og að ekkert virki. Hún dregur úr þátttöku, frumkvæði og von. Og það sem er kannski alvarlegast: hún kennir börnum okkar að samfélagið þeirra sé fyrst og fremst vandamál, en ekki sameiginlegt verkefni sem þau eru hluti af.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Íslenskt samfélag er ekki fullkomið. Við stöndum frammi fyrir raunverulegum áskorunum en við erum líka samfélag með sterkar stoðir. Samfélag þar sem fólk sýnir samstöðu í verki, þar sem sjálfboðaliðar halda uppi íþróttafélögum og þar sem kennarar og heilbrigðisstarfsfólk mætir á hverjum degi til að gera sitt besta, oft við mjög krefjandi aðstæður.

Að benda á þetta er ekki bjartsýni, heldur raunsæi. Heilbrigð orðræða felst ekki í því að fegra veruleikann, heldur að varpa á hann ljósi. Orð skipta máli og það hvernig við tölum um samfélagið mótar hvernig fólk upplifir það.

Við þurfum orðræðu sem dregur fólk með í vegferðina, ekki frá henni. Orðræðu sem sameinar frekar en að sundra, viðurkennir áskoranir en gleymir ekki styrkleikunum. Þannig byggjum við upp traust, styrkjum lýðræðið og tryggjum að Ísland verði áfram samfélag þar sem fólk trúir á framtíðina – saman.

Sandra Sigurðardóttir
Þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi

Krabbamfél Suð
Krabbamfél Suð