Aðsent

Gleðilegt nýtt kísilveralaust ár í Reykjanesbæ
Mynd úr kirkjugarðinum að kísilbyggingu.
Föstudagur 3. janúar 2020 kl. 14:43

Gleðilegt nýtt kísilveralaust ár í Reykjanesbæ

Mikið ráðaleysi og þöggun er í stjórnkerfinu vegna kísilsins sem fyrirhugað er að byrja aftur að framleiða í Helguvík. Afleiðingarnar eru ógnvekjandi, hvernig brennsla kola, viðarkurls og kvarts mun auka kolefnisspor Íslands um 10% og senda á hverju ári, sem starfsemin verður í gangi, meira en og aldrei minna en 2000 tonn af eiturefnum yfir næsta nágrenni. Það verður eingöngu frá Stakksbergsverksmiðjunni. Thorsil, ef sú verksmiðja fer af stað, mun rúmlega tvöfalda þennan eiturefnaútblástur.

Í sjónvarpsseríunni um Chernobyl-­slysið í Úkraínu 1986 er sýnt einstaklega vel hvernig valdhroki og yfirlæti örfárra manna ásamt fákunnáttu almennings og trausti hans á ríkjandi stjórnkerfi leiddi til mikils keðjuverkandi, þjóðfélagslegs harmleiks. Það sem þarna átti sér stað má líkja við einhverskonar „ráðaleysisheilkenni“ og á sér margar birtingarmyndir í mannlífinu. Þannig standa íbúar Reykjanesbæjar núna frammi fyrir þessu „ráðaleysisheilkenni“. Fámennur hópur fólks neitar að horfast í augu við umhverfis- og eiturefnavána við framleiðslu kísils í bæjarfélaginu. Þetta er hópur sem ræður miklu í stjórnkerfinu, yfir miklu fjármagni og telur sig hafa heilagan rétt til að setja þessa eiturefnastarfsemi í gang á ný.

Nú höfum við verið án eiturefnanna frá kísilverinu í Helguvík í rúmt ár. Frá því að upprunalegt leyfi til starfrækslu kísilversins var gefið út hefur lögum og reglugerðum um þessa starfsemi verið breytt og mat á umhverfisáhrifum verið hert. Stakksberg er því að vinna að nýju mati á umhverfisáhrifum og þarf að sækja um nýtt starfsleyfi hjá Skipulagsstofnun. Jafnframt hefur nýtt aðalskipulag fyrir Reykjanesbæ tekið gildi, þ.e. frá 2015 til 2030. Við lestur aðalskipulagsins er mjög ánægjulegt að sjá að þar er sérstaklega tekið fram að ekki megi auka m.a. við losun brennisteinsdíoxíðs á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Það er einmitt eitt af eiturefnunum sem er í mestu magni við kísilframleiðslu (brennslu kola). Í aðalskipulaginu segir orðrétt: „Eiga þessar takmarkanir við um starfsemi sem hefur undirbúning að skipulagi, mati á umhverfisáhrifum og leyfisumsóknum eftir gildistöku aðalskipulagsins 2015–2030“. Augljóst er að ekki þarf aðeins að breyta deiliskipulagi lóðarinnar fyrir kísilverið heldur einnig aðalskipulagi Reykjanesbæjar áður en kísilverið getur hafið starfsemi að nýju. Við eigum reyndar eftir að sjá hvernig lögfræðingar Reykjanesbæjar og Skipulagsstofnunar túlka þessa núgildandi skipulagstakmörkun. Eðlilegast er að hagur og heilsufar íbúa ráði för en ekki hagsmunir fámenns hóps fjárfesta og þeirra fylgifiska.

Íbúar Reykjanesbæjar ættu, ef þeir verða ekki fórnarlömb „ráðaleysisheilkennis“ stjórnvalda, að geta horft fram á eiturefnalaus kolabrennslu ár til ársins 2030. Gleðilegt nýtt kísilveralaust ár í Reykjanesbæ. Megi það hvíla í friði við sitt nágrenni.


Reykjanesbæ 28. desember 2019,

Tómas Láruson.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs