Aðsent

Framtíðaráform loftslagsmála í Helguvík og nágrenni
Laugardagur 24. ágúst 2019 kl. 07:49

Framtíðaráform loftslagsmála í Helguvík og nágrenni

Loftslagsmál eru í brennidepli þar sem kolefnisjöfnun og minnkun kolefnisfótspora eru brýn viðfangsefni. Síðustu þrjú árin hef ég alla jafna ferðast til og frá vinnu með almenningssamgöngum til að minnka mitt kolefnisfótspor. Stjórnvöld hafa sett markmið um minnkun losunar CO2 (koldíoxíð) innan marka Parísarsamkomulagsins um 40% fyrir árið 2030. Á sama tíma eru uppi strompar fortíðar og áform um uppbyggingu tveggja kísilvera í Helguvík sem verða þau stærstu í heiminum í rúmlega kílómeters fjarlægð frá rótgróinni íbúabyggð í Reykjanesbæ. 

United Silicon sem aldrei kunni að ganga

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Flestum er kunnug saga United Silicon sem fékk að menga nærri óáreitt frá nóvember 2016 þar til reksturinn var stöðvaður í september 2017. Dönsk verkfræðistofa neitaði að hafa unnið mengunarspá en yfirvöld samþykktu útreikningana. Aðalverktakinn hætti framkvæmdum vegna skulda. Þetta var eina stóriðjan á Íslandi sem var án sérkjarasamninga. Byggingar voru ekki innan gildandi deiliskipulags. Met voru slegin í fjölda kvartana frá íbúum og eftirlit Umhverfisstofnunar var fordæmalaust. Skýrsla Ríkisendurskoðunar til Alþingis staðfestir að fleiri en einn pottur var brotinn í stjórnsýslunni. Við gjaldþrot 2018 töpuðu stórir sem smáir lífeyrissjóðir milljörðum, aðalvertakinn rúmum milljarði, fyrrverandi starfsmenn, Reykjanesbær o.fl. umtalsverðum upphæðum. 

Stakksberg úr öskunni í eldinn

Eigandi verksmiðjunnar, Stakksberg, veður nú úr öskunni í eldinn gagnvart íbúum Reykjanesbæjar og hyggst lappa upp á hana fyrir á fimmta milljarð króna. Áform Stakksberg ganga gegn vilja flestra íbúa og rúmlega meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Saga Stakksbergs er stutt en fulltrúi eiganda Stakksbergs var einnig í stjórn United Silicon frá vori 2017 fram að þroti þess. Stakksberg hefur nú heitið því að leita samráðs og samvinnu við íbúa. Samráðið er þó ekki laust við klæki því samráðstímabilin eru jafnan stutt og tímasett þannig að flestir eru í sumarfríum eða í jólaundirbúningi á sama tíma. Þá var íbúafundur boðaður með eins til tveggja daga fyrirvara. Í sérstakri samráðsgátt (samrad.stakksberg.com) tókst Stakksbergi ekki að leita samráðs við íbúa um þau atriði sem áhyggjur íbúa beinast helst að en þeir hafa jú lofað að vanda sig. 

Þriðjungur allrar CO2 mengunar á Íslandi gæti komið frá Helguvík

Kísilver brenna kolum í stórum stíl og markmið kísilveranna er að brenna 315.000 tonnum af kolum árlega. Við brennslu á kolum myndast mörg efnasambönd, meðal annars CO2, SO2 (brennisteinstvíoxíð), NOx (köfnunarefnisoxíð) o.fl. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í apríl 2017 var það rætt hvort ekki væri ástæða til að banna slíkan mengandi iðnað svo nálægt íbúabyggð. Með almennri skynsemi mætti komast að þeirri niðurstöðu að starfsemi sem þessi eigi ekki að vera staðsett í kílómeters fjarlægð frá byggð. RÚV greindi frá því að losun CO2 á Íslandi myndi aukast um rúm 10% ef starfsemi Stakksbergs hefjist á ný. Í óhugnarlegu svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn minni myndi áætluð losun CO2 aukast um allt að 25% fari bæði kísilver í gang og bætist álverið við þá eykst áætluð losun um allt að 33% á öllu Íslandi miðað við losun 2017. Það yrði fróðlegt að vita hvað Stakksberg og Thorsil þyrftu að gróðursetja mörg tré vegna bindingar þeirrar kolefnislosunar sem hlýst af starfsemi þeirra en fyrirtæki í landinu hafa einmitt verið hvött til þess, meðal annars af eiganda Stakksbergs.

Augljós krafa um íbúakosningu

Um síðustu áramót söfnuðu Andstæðingar stóriðju í Helguvík 2.700 undirskriftum íbúa Reykjanesbæjar sem er um fjórðungur kosningabærra aðila þar sem krafist var þess að bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar myndu láta fara fram íbúakosningu um það hvort kísilverksmiðja Stakksbergs fái að hefja starfsemi á ný og um það hvort kísilverksmiðja Thorsil verði reist í bæjarfélaginu. Umrædd undirskriftasöfnun var metin ólögmæt af lögmanni Reykjanesbæjar og engin kosning fór fram. Undirskriftasöfnunin sannar þó að íbúar vilja fá að kjósa um það hvort þessar verksmiðjur eigi rétt á sér í bakgarði íbúa.

Stefnir Reykjanesbær á lista yfir menguðustu sveitarfélög í Evrópu eða ekki? 

Framtíðaráform loftslagsmála í Helguvík og nágrenni eru vægast sagt áhyggjuefni. Mengun frá stóriðjunni í Helguvík yrði á bilinu 25%–33% allrar losunar CO2 á Íslandi ásamt losun fjölmargra annarra óæskilegra efna og efnasambanda sem frá þessum verksmiðjum koma. Mér hugnast vægast sagt ekki áform Stakksbergs og finnst samstarf þeirra hingað til við íbúa með eindæmum lélegt. Frá sjónarhorni íbúa væri æskilegast fyrir Stakksberg að skoða núllkostinn. Stakksberg og Thorsil mættu alvarlega íhuga áskorun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og fulltrúa Miðflokksins um að falla frá áformum sínum um rekstur kísilverksmiðja í Helguvík enda endurspeglar sú áskorun vilja meirihluta íbúa Reykjanesbæjar. Almennt þarf svo að taka afstöðu til þess hvort við viljum að Reykjanesbær verði frægastur sveitarfélaga á norðurhveli jarðar fyrir að menga mest eða hvort stefnt verði að grænni framtíð þar sem umhverfissjónarmið eru í forgrunni. Iðnaðaruppbyggingin í Helguvík er augljóslega eitt allra stærsta hagsmunamál íbúa Reykjanesbæjar og kosning um framtíð stóriðjunnar í Helguvík er bráðnauðsynleg. Ég kýs góð loftgæði til handa íbúum Reykjanesbæjar og komandi kynslóðum sem endurspeglast í betri lífsgæðum framyfir ófullkomnar kolabrennandi kísilverksmiðjur í kílómetra fjarlægð frá byggð. Það er ekki of seint að hætta við núna og ég vona innilega að þessi kísilversverkefni hverfi héðan úr Helguvík. Svæðið fær í framhaldi nýjan tilgang og aðra starfsemi sem þrífst í sátt og samlyndi við íbúa í nágrenninu sem verður sannarlega farsælla til framtíðar litið fyrir alla. 

Andri Freyr Stefánsson
íbúi í Reykjanesbæ