ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Aðsent

Bókun Umbótar – viðbrögð við bókun meirihlutans um fjárhag Reykjanesbæjar
Fimmtudagur 3. júlí 2025 kl. 13:38

Bókun Umbótar – viðbrögð við bókun meirihlutans um fjárhag Reykjanesbæjar

Umbót telur bókun meirihlutans, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Beinnar leiðar um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar bæði villandi og fegrandi, þar sem hún gefur rangar forsendur um raunverulega stöðu bæjarins. Þó að fjárhagsstaðan virðist við fyrstu sýn stöðug, sýna nýjustu gögn að sveitarfélagið glímir við verulegan lausafjárskort, óljósar rekstrarforsendur og vaxandi skuldabyrði. Meirihlutinn hefur síðustu misseri ítrekað kynnt langtímalán upp á allt að 5 milljarða króna. 

Í bókun sinni vísar meirihlutinn til heimildar bæjarstjórnar frá 15. apríl 2025 (fundargerð nr. 696) um langtímalán upp á 2,5 milljarða króna. Það sem ekki kemur fram er að þann 26. júní 2025 þurfti fjármálastjóri að óska eftir sérstakri heimild bæjarráðs til að nýta ónotaðan hluta lánalínunnar sem skammtímalán.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Þetta staðfestir að sveitarfélagið hafði ekki nægt rekstrarfé og neyddist til að ganga á lánalínu til að halda daglegum rekstri gangandi. Að láta þetta ósagt í bókun meirihlutans er viljandi þöggun staðreynda.

Umbót hefur ítrekað varað við þessari þróun og mótmælt lántökunni harðlega í bókun frá 15. apríl 2025:
„Umbót getur ekki samþykkt að auka lánabyrði bæjarfélagsins með lántöku að upphæð 2,5 milljarðar króna án þess að liggi fyrir skýr fjárhagsleg framtíðarsýn, niðurstöður greininga og úttekt á rekstri sviða bæjarins.“

Í bókun Umbótar þann 30. apríl 2025 var jafnframt ítrekað að nauðsynlegt væri gera endurskoðun á fjármálastjórn sveitarfélagsins og varað við lausafjárvanda, en um áramót var handbært fé einungis 133 milljónir króna.

Það er alvarlegt að rekstur sveitarfélagsins sé háður lánsfjármögnun og að enn vanti raunhæfa aðgerðaráætlun til að tryggja stöðugleika.

Það er fráleitt þegar meirihlutinn talar um sjálfbærni í rekstri, en sveitarfélagið getur ekki staðið undir eigin rekstri án ítrekaðra lána og formlegra samþykkta til að nýta lánalínur.

Umbót hefur jafnframt gagnrýnt há laun stjórnenda sveitarfélagsins. Þrátt fyrir ítrekaða gagnrýni voru laun sviðsstjóra hækkuð og bæjarstjóri hefur verið með þriðju hæstu bæjarstjóralaun landsins. Umbót hafnaði þessum breytingum og bókanir þess efnis má finna í fundargerðum bæjarstjórnar.

Við fögnum því þó að meirihlutinn hafi nú loks ákveðið að lækka laun æðstu stjórnenda, enda löngu tímabær ákvörðun í samræmi við tillögur Umbótar allt frá upphafi kjörtímabilsins. 

Það stenst ekki að kenna öðrum um þegar rekstrarvandi hefur verið fyrirsjáanlegur  og bent var á hann ítrekað. Meirihlutinn kýs að horfa framhjá eigin ábyrgð og notar bókanir til að fegra fjármál sveitarfélagsins þrátt fyrir að staðreyndir liggi fyrir í eigin fundargerðum.

Umbót hafnar slíkum málflutningi og ítrekar mikilvægi ábyrgðar, gagnsæis og heiðarleika í stjórn sveitarfélagsins. Ábyrg fjármálastjórn snýst ekki um að slá ryki í augu almennings heldur að bregðast við vandanum áður en hann verður að kreppu.

Við í Umbót krefjumst skýrra greininga og aðgerðaáætlana sem tryggja fjárhagslegan stöðugleika og rekstraröryggi í Reykjanesbæ.