Public deli
Public deli

Íþróttir

Ekkert gengur hjá Keflavík
Bojan Ljubicic í baráttunni í kvöld
Mánudagur 25. maí 2015 kl. 21:11

Ekkert gengur hjá Keflavík

1-3 tap gegn Fylki á Nettóvellinum

Keflavík tapaði í kvöld fjórða leik sínum af fimm í deildinni þetta sumarið þegar liðið lá heima gegn Fylkismönnum 1-3. Frammistaða liðsins var langt frá því að vera á pari og geta Keflvíkingar þakkað fyrir að tapið var ekki stærra í kvöld.

Gestirnir voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleik sem var þó ekki ýkja mikið fyrir augað á löngum köflum þar sem Keflvíkingar áttu í miklum vandræðum með að skapa sér marktækifæri og var sóknarleikur liðsins nánast engin þar sem liðið lék gegn vindinum sem gerði mönnum erfitt fyrir að halda boltanum innan liðsins. Fylkismenn fengu nokkur dauðafæri til að komast yfir í hálfleiknum en fyrir tilstilli hreinnar óheppni og nokkurra góðra markvarslna frá Richard Arends, markverði Keflavíkur, náðu gestirnir ekki að skora í hálfleiknum og liðin gengu til búningsklefa í stöðunni 0-0. Keflvíkingar voru í nauðvörn nánast allan fyrri hálfleikinn og ekki sanngjarnt að skella skuldinni á veður og vinda. Það vantaði hreinlega allt púður í menn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Síðari hálfleikur var ekki orðinn 10 mínútna gamall þegar Fylkismenn brutu loks ísinn. Albert Brynjar Ingason sendi góða sendingu fyrir markið þar sem að Andrés Már Jóhannesson lagði boltann snyrtilega í netið. Fyllilega verðskulduð forysta. 

Aðeins nokkrum mínútum síðar fengu gestirnir dæmda vítaspyrnu þegar Richard Arends gerðist brotlegur á heldur klaufalegan hátt og keyrði niður Ingimund Níels Óskarsson innan teigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Á punktinn steig Albert Brynjar Ingason sem að skoraði af öryggi og Keflvíkingar komnir í afar slæma stöðu og hálftími eftir af leiknum. 

Richard Arends brýtur á Ingimundi Níels Óskarssyni

Kristján Guðmundsson gerði í kjölfarið breytingu á liði sínu og skipti Jóhanni Birni Guðmundssyni af velli fyrir Magnús Sverri Þorsteinsson sem að hafði aðeins verið á vellinum í tæpar tvær mínútur þegar hann hafði minnkað muninn fyrir heimamenn með góðum skalla eftir sendingu frá Hólmari Erni Rúnarssyni. Aukinn kraftur færðist í Keflvíkinga við markið og voru þeir hársbreidd frá því að jafna metin skömmu síðar þegar Fylkismenn björguðu á marklínu eftr mikinn hamagang í markteignum .

Í stað þess að jafna metin voru það Fylkismenn sem að skoruðu þriðja mark sitt á 70. mínútu þegar Oddur Ingi Guðmundsson fylgdi eftir skoti Ingimundar Níels sem að Arends í markinu hafði varið. Staðan orðin 1-3 og fjögur mörk litið dagsins ljós á fyrstu 25 mínútum síðari hálfleiks. Varnarlína Keflvíkinga hefur oft munað fífil sinn fegurri en í aðdraganda marksins.

Keflvíkingar voru svo nærri því að minnka muninn næstu 10 mínúturnar en Magnús Sverrir átti skot rétt framhjá markinu og skömmu síðar átti Sigurbergur Elísson hörkuskot sem endaði í markslánni. Ekki var heppnin með Keflvíkingum sem að virtist fyrirmunað að skora annað mark.

Liðin skiptust á færum síðustu 15 mínútur leiksins, Fylksimenn þó alltaf betri aðilinn, en allt kom fyrir ekki og Fylkir landaði sanngjörnum sigri á heimamönnum sem enn leita að sínum fyrsta sigri í deildinni og ganga eyðimerkurgöngu í leit sinni að sjálfinu þessa dagana.

Keflvíkingar sitja enn við botn deildarinnar með 1 stig og virðist fátt benda til annars en að liðið komi til með að eiga erfitt uppdráttar í sumar miðað við spilamennsku liðsins fyrstu fimm umferðir mótsins.

Magnús Sverrir Þorsteinsson minnkar muninn fyrir Keflavík