Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 10. maí 2024 kl. 15:58

Katrín Jakobsdóttir - Gjá milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis að breikka

Katrín Jakobsdóttir, forsetaframbjóðandi og fyrrverandi forsætisráðherra segir að hún hafi orðið vör við það á ferðum sínum um landið að það sé gjá á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og hún breikki frekar en hitt.

„Það er eitthvað sem forseti getur gert eitthvað í. Mál sem ég heyri víða er mismunur á þjónustu og samgöngum. Forsetinn á að ferðast um landið og hlusta á fólk, gefa sér tíma í það. Kannski er enn meiri þörf á því nú en fyrr. Það eru tækifæri alls staðar á landsbyggðinni og það þarf að auka þann skilning.

Alls staðar finnst mér fólki finnast þetta embætti mikilvægt, ekki valdsins vegna heldur að forseti hefur áhrif og á að vera sá sem þjóðin getur hallað sér að. Hann getur sett mál á dagskrá en hann þarf líka að vera aðgengilegur um land allt.“

Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta ræddi við Katrínu í tilefni af framboði hennar til forseta Íslands.