Þolinmæðissigur Njarðvíkinga í baráttuleik
Njarðvíkingar unnu glæsilegan 3:0 sigur á Dalvík/Reyni í miklum baráttuleik í Lengjudeild karla í knattspyrnu þegar liðin áttust við á gervigrasinu við Nettóhöllina í dag.
Njarðvík hefur unnið tvo fyrstu leikina og sitja í efsta sæti eins og staðan er núna en umferðin klárast annað kvöld.
Njarðvík - Dalvík/Reynir 3:0
Heimamenn höfðu góð tök á leiknum í fyrri hálfleik en norðanmenn vörðust vel. Leikurinn var svolítið líkamlegun og leikmenn beggja liða fóru grimmt í andstæðinginn en dómari leiksins lét það óátalið lengst af.
Eitthvað varð undan að láta og það gerðist á markamínútunni þegar Kaj Leo Bartalstovu átti góða sendingu inn á fjærstöng þar sem boltinn var aðeins of hár fyrir Oumar Diouck sem var nálægt því að ná til boltans en Jaou Ananias Jordao Junior kom aðvífandi, kastaði sér fram og skallaði í netið (43’). Glæsilegt mark og Njarðvíkingar komnir í forystu.
Gestirnir mættu tvíefldir til seinni hálfleiks og virtust vera að ná undirtökunum en Njarðvíkingum óx ásmegin og þeir komust betur inn í leikinn.
Björn Aron Björnsson, sem hafði verið ógnandi á vinstri kantinum í fyrri hálfleik, var nálægt því að tvöfalda forystu heimamanna um miðbik seinni hálfleiks þegar hann náði góðu skoti frá utanverðum vítateig. Markvörður gestanna henti sér í vitlaust horn en náði að verja með fótunum.
Fimm mínútum síðar skoraði fyrirliðinn Kenneth Hogg og Njarðvíkingar fögnuðu vel og innilega en eftir mikla reikistefnu var markið dæmt af og Bartalstovu fékk að líta gula spjaldið. Sagan segir að hann hafi kallað að láta boltann fara og þannig truflað varnarmann gestanna í rýminu sem gerði eins og honum var sagt.
Á 85. mínútu gerði Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkinga, tvöfalda breytingu. Út af fóru þeir Björn Aron og Kaj Bartalstovu enda báðir búnir að vera gríðarlega duglegir og sennilega lítið eftir á tankinum hjá þeim, inn á komu þeir Svavar Örn Þórðarson og Freysteinn Ingi Guðnason.
Dalvíkingar voru nærri því að jafna leikinn eftir skiptinguna þegar boltinn hafnaði í stönginni eftir atgang fyrir framan mark heimamanna sem náðu að bægja hættunni frá.
Það tók Freystein Inga einungis þrjár mínútur að setja mark sitt á leikinn þegar hann var við það að komast í ákjósanlegt færi inni í teig andstæðinganna en var felldur og víti dæmt. Diouck steig á punktinn og skoraði örugglega (88’).
Markaskorarinn Diouck gerði svo endanlega út um leikinn tveimur mínútum síðar þegar Njarðvíkingar pressuðu hátt og unnu boltann rétt utan teigs gestanna. Diouck lætur ekki gott boð framhjá sér fara og þakkaði fyrir með góðu skoti framhjá markverði Dalvíkinga og í netið (90’).
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og myndasafn fylgir fyrir neðan fréttina