Spennan magnast
Palli Ketils kom heldur betur sterkur inn í lokasprett getraunaleiksins og getur með góðri samvisku haldið fram að hann sé besti tipparinn því hann er á stalli eftir tvo glæsilega sigra og ætti samkvæmt öllu að hefja leik á næsta tímabili. Hins vegar er komið að undanúrslitunum og þar sem Palli sem eigandi Víkurfrétta, var aldrei að fara vera þar á meðal og mun ekki heldur hefja leik á næsta tímabili, hefur hann lokið leik og er hér með þökkuð frábær frammistaða. Palli var ánægður með gengi sitt í leiknum.
„Þetta var skemmtilegt en nú er komið að alvörunni og ég hleypi fjórum efstu að,“ sagði Palli.
Loksins náði Íslendingur þrettán réttum og ekki nóg með það, þrír tipparar urðu tæpum 1.300 þúsund krónum ríkari. Alls náðu 133 þrettán réttum og af tæplega 3.200 tippurum voru 71 frá Íslandi og fengu rúmar tíu þúsund krónur.
Nú færist harka í leikinn en komið er að undanúrslitum leiksins og þar munu fjórir efstu í vetur, leiða saman hesta sína. Grétar Ólafur Hjartarson á móti Magga Tóka og Gunnar Már Gunnarsson á móti Hámundi Erni Helgasyni. Sigurvegarnir mætast svo í hreinum úrslitaleik annan sunnudag og sigurvegarinn þar skellir sér með undirrituðum á úrslitaleik FA cup á milli Manchester-liðanna 25. maí.
Púlsinn var tekinn á undanúrslitakempunum.
Grétar: „Ég er búinn að vera í stífum æfingabúðum síðan ég lauk leik. Auðvitað var ekki gott að vera í svo langri pásu, maður getur misst dampinn en á móti mæti ég vel úthvíldur. Ég stefni að sjálfsögðu á að fara með þér helgarferð til London,“ sagði Grétar.
Maggi Tóka: „Ég held að það muni hjálpa mér hversu stutt er síðan ég tryggði mig inn í undanúrslitin. Grétar er orðinn ískaldur eftir að hafa verið sjóðandi heitur fyrr í vetur, ég ætla mér að rúlla honum upp,“ sagði Maggi.
Gunnar Már: „Þetta fór nákvæmlega eins og ég vildi, þ.e. að mæta Hámundi í undanúrslitunum. Ég veit að ég mun vinna hann örugglega og þar sem ég þekki Grétar en Magga Tóka ekki neitt, vonast ég til að vinna Grétar í úrslitunum,“ sagði Gunnar Már.
Hámundur: „Ég mæti auðmjúkur til leiks, þakklátur fyrir að hafa náð alla leið í undanúrslitin í þessum flotta leik Víkurfrétta. Ég veit að ég er að mæta mjög öflugum tippara, Gunnar Már er kyngimagnaður og ef ég vinn hann mun ég opna kampavínsflöskuna,“ sagði Hámundur.