Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Nafni UMFN breytt á 80 ára afmæli félagsins
Guðmundur Sigurbergsson, gjaldkeri UMFÍ, sæmdi Ólaf Eyjólfsson, formann UMFN, gullmerki UMFÍ við mikinn fögnuð viðstaddra. Myndir/umfn.is
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 10. maí 2024 kl. 06:04

Nafni UMFN breytt á 80 ára afmæli félagsins

Aðalfundur Ungmennafélags Njarðvíkur var haldinn þann 23. apríl síðastliðinn í hátíðarsal Njarðvíkurskóla. Mætingin var mjög góð í ár enda var 80 ára afmæli félagsins fagnað við sama tilefni og því boðið upp á dýrindis veitingar af því tilefni.

Á fundinum var lagt til að nafn UMFN yrði framvegis Ungmennafélagið Njarðvík í stað Ungmennafélags Njarðvíkur. Í daglegu tali er jafnan talað um Njarðvík þegar verið er að fjalla um félagið og nafnabreytingin því í takt við það. Fleiri ungmennafélög titla sig á sama eða svipaðan hátt og má nefna sem dæmi Keflavík - íþrótta- og ungmennafélag, Ungmennafélagið Fjölnir, Ungmennafélagið Snæfell, Ungmennafélagið Tindastóll, Ungmennafélagið Þróttur og fleiri félög.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ólafur Eyjólfsson, formaður Ungmennafélagsins Njarðvíkur, segir að nafnabreytingin hafi fengið góðar viðtökur. „Þetta er hugmynd sem vaknaði hjá mér fyrir um þremur árum síðan en sveitarfélagið Njarðvík er náttúrulega ekki til lengur. Þá voru menn svolítið hræddir um að það yrði eitthvað mál að breyta nafninu, skammstöfunin UMFN heldur sér í nýja nafninu svo þegar upp var staðið var þetta ekkert vandamál.“

Ólafur var endurkjörinn formaður en hann tók við formennsku í félaginu á 70 ára afmælisári Njarðvíkur og er því að hefja sitt ellefta ár sem formaður. Ólafi var jafnframt veitt gullmerki UMFÍ á fundinum við mikinn fögnuð viðstaddra.

Afmælisfagnaður og fleira framundan

„Það verður gert meira úr afmælinu þegar við fáum loksins nýja húsið afhent,“ segir hann jafnframt. „Þá munum við halda stóran afmælisfagnað og kynna fleiri breytingar. Merki félagsins mun fá smá andlitslyftingu og þá verður farið í að samræma útlit allra deilda, s.s. liti, leturgerðir og þess háttar.“

Þá var sú lagabreyting samþykkt á fundinum að framvegis geti aðalstjórn lagt niður deild innan félagsins ef ekki eru lengur forsendur fyrir rekstri viðkomandi deildar, starfsemi deildar kastar rýrð á félagið, stjórn deildar fer ekki að lögum félagsins eða rekstur deildar stefnir hagsmunum félagsins í voða. Ákvörðun aðalstjórnar skuli staðfest á næsta aðalfundi eða aukaaðalfundi með samþykki 2/3 viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna.

Stefán Thordersen sá um fundarstjórn og Þórdís Björg Ingólfsdóttirvoru ritaði fundinn.

Ólafur Eyjólfsson var endurkjörinn formaður til eins árs, Einara Lilja Kristjánsdóttir og Þórdís Björg Ingólfsdóttir sitja áfram í stjórn þar sem þær voru kjörnar til tveggja ára á síðasta aðalfundi, Thor Hallgrímsson og Erlingur Hannesson voru kjörnir til tveggja ára stjórnarsetu, Guðný Björg Karlsdóttir og Anna Andrésdóttir kjörnar varamenn til eins árs.

Stjórn UMFN ásamt Hámundi Helgasyni, framkvæmdastjóra félagsins.

Aðrir gestir sem tóku til máls voru Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs, Rúnar Arnarson, formaður ÍRB, og Ellert Björn, stjórnarmaður Massa, sem vakti athygli á því að deildin sé að fara að halda heimsmeistaramót í kraftlyftingum 11.–16. nóvember.


Heiðursviðurkenningar voru veittar á afmælisfundinum

Þeir sem tóku við viðurkenningum á fundinum. F.v. Ólafur Helgi, Sigurrós, Skúli, Erna, Ólafur Eyjólfsson, Friðrik Ingi og Thor, á myndina vantar Guðnýju Björgu Karlsdóttur og Örvar Þór Kristjánsson.
Bronsmerki UMFN fyrir tíu ára starf eða keppni fyrir félagið

Erna Hákonardóttir
Hætti eftir tímabilið 2022–2023 þá leikjahæst allra leikmanna fyrir kvennalið UMFN í úrvalsdeild kvenna í körfubolta.

Ólafur Helgi Jónsson
Hætti eftir tímabilið 2022–2023 með 287 deildarleiki fyrir Njarðvík í úrvalsdeild karla í körfubolta.

Skúli Björgvin Sigurðsson
Stjórnarseta, myndatökur og fréttaskrif fyrir klúbbinn sem og tæknivinna við heimasíðu til fjölda ára.

Sigurrós Antonsdóttir
Stjórnarseta og önnur ómetanleg störf fyrir sunddeild UMFN.

Örvar Þór Kristjánsson
Örvar á leiki á sex mismunandi tímabilum í úrvalsdeild með Njarðvík og á þeim tíma lék hann alls 137 úrvalsdeildarleiki og er fyrir vikið á meðal 30 leikjahæstu manna félagsins í úrvalsdeild karla í körfubolta.

Silfurmerki UMFN fyrir frábær störf í þágu félagsins en þó aldrei fyrr en eftir fimmtán ára starf

Guðný Björg Karlsdóttir
Unglingaráð KKD til fjölda ára og nú síðustu ár í aðalstjórn UMFN.

Gullmerki UMFN fyrir frábær störf í þágu félagsins en þó aldrei fyrr en eftir tuttugu ára starf

Friðrik Ingi Rúnarsson
Margfaldur meistari með körfuknattleiksdeild UMFN og þjálfari um áratugaskeið.

Thor Hallgrímsson
Sjálfboðaliðastörf og stjórnarseta til fjölda ára.

Ólafsbikarinn

Ólafur Thordersen afhenti Ólafsbikarinn og var þetta í þrítugasta og annað skipti sem Ólafsbikarinn er afhentur en bikarinn er hugsaður sem viðurkenning fyrir þá sem hefur unnið óeigingjarnt starf fyrir félagið.

Í ár var það Vala Rún Vilhjálmsdóttir sem hlaut þessa frábæru viðurkenningu og á hún það svo sannarlega skilið endar tóku fundargestir vel undir með kröftugu lófaklappi og fögnuði.