Æskuminningar úr Kerlingarfjöllum urðu að heimildarmyndinni Fjallasögu
„Hugmyndin kviknaði út frá að það var alltaf verið að spyrja mig hver uppáhalds staðurinn minn á Íslandi væri eftir að ég flutti til Danmerkur. Mér fannst ég aldrei almennilega geta lýst staðnum eingöngu í orðum og þá kviknaði hugmyndin um að gera heimildarmynd um uppáhalds staðinn minn, Kerlingarfjöll,“ segir ung kvikmyndagerðarkona frá Grindavík, Edda Sól Jakobsdóttir. Hún hefur búið í Danmörku undanfarin ár og mun útskrifast um næstu jól úr Tækni- og Hönnunarskólanum í Köben og svo hyggur hún á frekara nám í greininni. Heimildarmyndarformið á hug hennar allan í dag en hún er opin fyrir öllu í framtíðinni.
Edda var stödd á Íslandi vegna kvikmyndahátíðarinnar Stockfish. Mynd hennar, Fjallasaga, var ein fimm stuttmynda sem var tilnefnd í flokki heimildarmynda og voru úrslitin kunngerð á Eddunni sem haldin var laugardaginn 13. apríl og þangað mætti Edda prúðbúin. Mynd hennar vann ekki en Edda var hæstánægð með að eiga eina af þeim fimm myndum sem var tilnefnd. Myndin hefur verið sýnd víða og verður sýnd í bíóhúsinu Cinemateket í Kaupmannahöfn 15. maí þar sem hún mun opna íslensku kvikmyndaseríuna þeirra.Hún verður sýnd á undan myndinni Villibráð. Edda mun að sjálfsögðu mæta ásamt leikstjóra Villibráðar þar sem þau munu kynna myndina og svara spurningum.
„Þessi hátíð, Stockfish, er til að vekja athygli á upprennandi og fjölhæfu kvikmyndagerðarfólki frá Íslandi og það er mikill heiður fyrir mig að hafa verið tilnefnd.“
Hvaðan kom hugmyndin af efni myndarinnar?
„Í náminu mínu í Danmörku fékk ég oft spurningar um Ísland og hver uppáhalds staðurinn minn þar væri. Það var einfalt svar í mínum huga, Kerlingarfjöll hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi frá því að við fjölskyldan vorum þar mörg sumur þegar ég var lítil. Þetta eru einar mínar bestu minningar sem ég á úr æsku, við gátum ekki verið með síma eða neitt slíkt, vorum algerlega sambandslaus og maður þurfti að læra að vera sjálfum sér nægur. Ég heyrði ótal sögur frá alls kyns fjallafólki og kannski fæddist strax eitthvað þarna hjá mér, sem leiddi til þess að ég vildi segja þessa sögu núna. Ég fór að velta fyrir mér út af hverju þetta væri uppáhaldsstaðurinn minn og þá birtist mér ástæðan fyrir gerð myndarinnar, mig langaði svo ótrúlega til að heimilda [documenta] fegurð, fortíð og umbreytingu Kerlingarfjalla og varðveita Fjallasöguna sem afi sagði mér frá þegar ég var lítil. Ég var búin að reyna lýsa fyrir samnemendum mínum og kennurum, hversu magnaður þessi staður væri og hve kær hann er mér en mér fannst mér aldrei takast það almennilega. Það var yndisleg stund þegar hugmyndin að gerð myndarinnar fæddist, ég vissi strax að þetta yrði skemmtileg og lærdómsrík vegferð sem ég væri að fara leggja upp í,“ segir Edda Sól.
Afi aðalsögumaðurinn
Myndin var tekin upp síðasta sumar og fékk Edda Isabellu vinkonu sína til að aðstoða sig og svo ákvað hún að fá afa sinn með í för til að vera aðalsögumanninn en hann heitir Eðvarð Hallgrímsson.
„Við fórum í ágúst í fyrra og þurftum í raun að fikra okkur áfram og læra á staðnum, þurftum að vera á hljóðinu, vera í kvikmyndatökunni, ég þurfti að leikstýra og framleiða, í raun að gera allt sem snýr að gerð heimildarmyndar. Við vorum í tvo daga að taka upp og vorum ekki með neitt handrit, það var æðislegt að fá afa með því hann þekkir allt svæðið eins og handabakið á sér, ég hefði aldrei getað þetta án hans. Eftir að hugmyndin að gerð myndarinnar fæddist áttaði ég mig fljótlega á að afi myndi leika stórt hlutverk því hann á svo stóran þátt í út af hverju ég elska Kerlingarfjöll svona mikið. Staður getur aldrei orðið betri en manneskjan sem þú tengir við hann, afi var með okkur öll þessi sumur, sagði okkur ótal sögur og mér þykir afskaplega vænt um að hafa geta gert þetta með honum.
Eftirvinnslan tók svo hálft ár og á meðan ég var að klippa myndina og vinna hljóðið, dundu hamfarirnar yfir minn gamla heimabæ og það hafði mikil áhrif á hvernig ég klippti myndina því ég var að kanna sambandið milli staðar og fólks. Fjallasaga fjallar um það og það var skrýtið að upplifa hvað gekk á í Grindavík á sama tíma og hafði pottþétt áhrif á lokaútkomu myndarinnar.“
Hvenær byrjaði kvikmyndagerðarkonan að blunda í Eddu og hvernig sér hún nánustu framtíð fyrir sér?
„Eftir grunnskóla ákvað ég að flytja til Akureyrar, við vorum nokkur úr Grindavík sem vildum prófa eitthvað nýtt og það var mjög gaman. Ég sýndi leikhússtarfinu í skólanum strax mikinn áhuga og þegar ég útskrifaðist langaði mig til að athuga hvort ég myndi finna mig í kvikmyndagerð og sótti um í lýðháskóla í Danmörku, European film college. Þetta var eins árs nám og mér fannst þetta strax mjög skemmtilegt og eftir það ákvað ég að vinna við fagið í Danmörku og skráði mig svo í Multimedia design í Tækni- og hönnunarskóla í Kaupmannahöfn. Ég er búin að vera í þessu námi í tvö ár og er að útskrifast næstu jól. Ég held að ég muni mennta mig meira en hvort það verði á Íslandi, Köben, London eða hvar kemur bara í ljós. Ég er algjörlega hugfangin af heimildarmyndarforminu og langar til að mennta mig meira í því og draumurinn er að gera heimildarmynd í fullri lengd. Ég hef komið að gerð tónlistarmyndbanda, auglýsinga og leikinna mynda en er þá meira í framleiðsluhlutanum, sem mér finnst einnig ótrúlega skemmtilegt. Þegar kemur að leikstjórn hallast ég meira að heimildarmyndargerðinni og er með margar sögur sem mig langar og ég hlakka til að segja,“ sagði Edda Sól að lokum.