HP flutningar færa alla starfsemina aftur í Grindavík
„Þekki nánast hverja einustu sprungu sem hefur myndast,“ segir Otti Sigmarsson hjá HP og björgunarsveitarmaður.
„Við viljum ganga fram með góðu fordæmi og hefja rekstur á ný í Grindavík, segir Otti Sigmarsson, framkvæmdastjóri hjá HP flutningum í Grindavík. Fyrirtækið rekur flutninga- og gámaþjónustu í Grindavík en eðlilega hefur verið lítið að gera að undanförnu en Otti horfir björtum augum til framtíðar fyrirtækisins og Grindavíkur yfir höfuð.
„Við erum kannski að starfa á fjórðungs afköstum miðað við sama tíma í fyrra. Sem betur fer er Bláa lónið komið í talsverða starfsemi en við þjónustum Bláa lónið með flutning á handklæðum og baðsloppum sem er þvegið í Grindavík, ásamt flutningum á öðrum vörum fyrir fyrirtækið. Flutningastarfsemin til og frá Grindavík er bara brotabrot af því sem það var en við höfum ákveðið að færa alla starfsemina aftur til Grindavíkur eftir að hafa opnað um tíma í Hafnarfirði. Það verður ekki eins mikið að gera til að byrja með en það verður einhvern tíma, það er ég sannfærður um. Við viljum ganga fram með góðu fordæmi og þannig styðja við þá sem eru nú þegar búnir að hafa starfsemi eins og útgerðirnar og þau fyrirtæki sem ætla sér að hefja starfsemi á ný. Það þurfa einhverjir að byrja og við erum tilbúnir til þess.“
Vinnandi fólk í stað björgunarsveita
Otti var orðinn formaður Landsbjargar en vegna ástandsins í Grindavík og vegna uppbyggingar þar ákvað hann að draga seglin aðeins saman en sinnir ennþá björgunarsveitarstörfum fyrir björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík.
„Ég ákvað að segja skilið við formennskuna á vordögum til að geta sinnt betur fjölskyldunni, uppbyggingu Grindavíkur og rekstri okkar fyrirtækis. Maður þarf að hafa nægan tíma til að sinna formennsku í svo stóru félagi eins og Landsbjörg er og ég tók þessa ákvörðun. Ég er auðvitað áfram félagi í Björgunarsveitinni Þorbirni og sinni þeim verkefnum sem koma upp þar en þau eru miklu minni en þau voru þegar eldgosin voru við Fagradalsfjall. Þar sem starfið í björgunarsveitunum byggist upp á sjálfboðastarfi var ljóst að þetta gat ekki gengið svona til lengdar, það var gífurlegt álag á fólki og nú er það komið út um allt land má segja svo það var ljóst að starf okkar björgunarsveitar myndi breytast. Nú er vinnandi fólk að sinna mörgum af þeim verkefnum sem við vorum í svo okkar verkefni fara að snúast meira af því sem björgunarsveitarstarf á að snúast um, að bjarga fólki,“ segir Otti.
Skólahald grunnforsenda
Otti og fjölskylda hafa búið í Hafnarfirði síðan hamfarirnar áttu sér stað í nóvember en Otti sér alveg fyrir sér að fjölskyldan myndi snúa til baka þegar bærinn verður gerður öruggur og skólahald hefjist á ný.
„Við myndum íhuga það gaumgæfilega en þá þarf líka að fara sýna fram á breytta stefnu. Það er grunnforsenda fyrir því að eðlilegt líf geti hafist í bænum, að skóla- og leikskólahald hefjist á ný. Ég vil fara sjá framkvæmdir hefjast í Grindavík, ég hef verið hér nánast alla daga síðan hamfarirnar áttu sér stað í nóvember og þekki nánast hverja einustu sprungu sem hefur myndast. Það þarf bara að fara í þetta verkefni, laga sprungurnar og gera bæinn öruggan, snúa svo aftur heim. Þetta er staðan, það er annað hvort að slökkva ljósin eða hafa þau kveikt, ég vel seinni kostinn og vil sjá bæjaryfirvöld fara spýta í lófana,“ sagði Otti að lokum.