Áskoranir og tækifæri á Suðurnesjum
- segir Baldur forsetaframbjóðandi
Baldur Þórhallsson segir að í heimsóknum sínum um landið í undirbúningi fyrir forsetakjör sé rödd landsmanna hávær um að heimamenn fái meira um málefni þjóðarinnar að segja, m.a. um nýtingu auðlinda. „Við viljum að horft sé á þjóðina sem eina heild í öllum helstu málum og tökumst saman á við áskoranir og að nýta tækifærin sem bjóðast,“ sagði Baldur í viðtali við Víkurfréttir í heimsókn sinni suður með sjó.
Baldur heimsótti nokkra vinnustaði á Suðurnesjum og fannst skemmtilegt að kíkja baksviðs í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Hann heimsótti Ráðhús Reykjanesbæjar og sagði áhugavert að heyra af þeim áskorunum sem sveitarfélögin á Suðurnesjum standi frammi fyrir, m.a. vegna fjölbreytileika mannlífsins. Hann heimsótti einnig Fjölbrautaskóla Suðurnesja og sagði ánægjulegt að sjá starfið þar.
Hann kom inn á öryggismál og segir mikilvægt væri að ræða þau betur, mál sem m.a. tengjast starfi björgunarsveita sem hafi verið áberandi á Suðurnesjum undanfarið vegna eldgosa og sagði áríðandi að starfsemin fengi stuðning yfirvalda enda væri starf þeirra í þágu allra. Þá sagði Baldur að hægt væri að gera betur í málefnum barna og ungmenna og að forseti gæti komið að því, lyft slíkum málum á hærri stall og kallað hópa saman í Bessastaðastofu til að koma með hugmyndir að úrvinnslu þeirra.
Baldur heimsótti ritstjórnarskrifstofur Víkurfrétta og ræddi við Pál Ketilsson, ritstjóra.