Aðsent

Vinnustaðasamningar og friður á vinnumarkaði
Ásmundur Friðriksson alþingismaður skrifar.
Laugardagur 12. júlí 2014 kl. 10:54

Vinnustaðasamningar og friður á vinnumarkaði

Hlaðmenn á Keflavíkurflugvelli hækkuðu í launum um 9.700 kr. á mánuði en flugstjórar um 80.000 kr.


Ófriður á vinnumarkaði, kjaradeilur, verkföll og lagasetningar hafa verið ofarlega í umræðunni síðastliðna mánuði. Það hefur gætt óþols félagsmanna ASI eftir kjarabótum, sem ég tel að nokkrar greinar atvinnulífsins geti staðið, undir ekki síst útflutningsreinarnar. En samflot í kjarasamningum hefur komið í veg fyrir að þær greinar sem geta staðið undir hærri launum hafi samið um launakjör umfram lágmark samflotsins.  SA og ASÍ fóru af staða með góðar væntingar um 2,7% launahækkanir, eða 9.700 kr. á mánuði sem tryggja átti nokkra kjarabót og stöðugleika í þjóðfélaginu með aðgerðarpakka frá ríkisstjórninni. Í stuttu máli þá fóru þeir samningar í gegn þrátt fyrir nokkra andstöðu, sérstaklega fiskvinnslufólks. Síðan hefur hverri launadeilunni af annarri lokið með tugþúsunda hækkunum, 70-80 þús. króna launahækkanir sem gjarnan eru skýrðar með hagræðingu, breyttu vinnu- og vaktafyrirkomulagi bæði á almenna markaðinum og þeim opinbera. Hluti þeirra samninga hafa algjörlega gengið á svig við þau fyrirheit sem lægst launaða fólkið var tilbúið að axla ábyrgð á. Hlaðmenn á Keflavíkurflugvelli hækkuðu í launum um 9.700 kr. á mánuði en flugstjórar um 80.000 kr. Það ver ekki tífaldur munur á launahækkunum sem farið var með af stað í kjarasamningum á vinnumarkaði, en það er niðurstaðan.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er mikilvægt að ná hagræðingu fram í kjarasamningum, en þá á það að ná til allra sem taka á sig og eru þátttakendur í hagræðingu. Í fiskvinnslu, sérstaklega uppsjávarveiðum hefur orðið gríðarleg verðmætaaukning vegna falls krónunnar, hagræðingar, fækkun starfsfólks og framleiðniaukningar síðustu ár, sem hafa fært fyrirtækjunum miklar tekjur og eigendum góðan arð. Það er mikilvægt að undirstöðuatvinnugreinarnar búi við góðan hagnað og hafi getu til fjárfestinga og taki virkan þátt í samfélagslegri ábyrgð. Tölur um 30-50% lækkun launakostnaðar í fiskvinnslu af framleiðsluverðmæti sl. 5-7 ár er staðreynd án þess að það hafi skilað sér í launaumslagið hjá verkafólki. Það sama má segja um aðrar útflutningsgreinar eins og ferðaþjónustuna. Ef það á endalaust að stíga ofaná lægst launaða fólkið í þjóðfélaginu sem stendur undir mestu verðmætasköpuninni, í fiskvinnslu, ferðaþjónustu og annarri gjaldeyrisskapandi starfsemi verður enginn friður á vinnumarkaði. Stóriðjan er ekki með láglaunastefnu og greiðir tvöföld laun á við aðrar útflutningsgreinar.

Sem þingmaður hef ég tekið þátt í að greiða atkvæði með lögum á tvær vinnudeilur. Það voru þung spor, en stigin af ábyrgð sem mér fannst verjandi við þær aðstæður. En við verðum að finna nýjar leiðir til árangurs. Það hefur þó komið í ljós að lögin um Herjólfsdeiluna voru mistök að því marki að ekki var gert ráð fyrir kjaradómi ef deiluaðilar næðu ekki saman fyrir ákveðinn tíma eins og í flugmannadeilunni. Þrátt fyrir lög og frestun aðgerða gengur hvorki né rekur í kjaradeilu undirmanna á Herjólfi og verulegar blikur á lofti í þeirri deilu. Enn og aftur hvet ég deiluaðila til að ná samningum því ef sumarið dugar ekki til að ná fram kjarasamningi þá gerist það ekki í haust þegar ferðamannatíminn verður liðinn.

Við verðum að ná almennri sátt á vinnumarkaði, hjá því opinbera á almenna markaðinum og þar verða allir að koma að borðinu. Vinnustaðasamningar hafa gefið góða raun eins og í stóriðjunni. Þar hefur lengi verið góður friður og þeir samningar hafa tryggt mun betri laun en á almennt á vinnumarkaðinum og ólíkar starfsstéttir náð að tryggja sameiginlega hagsmuni sína og fyrirtækjanna þar sem tekið er tillit til ábyrgðar, menntunar og stöðu í fyrirtækinu. Fyrirtæki á borð við Herjólf og Icelandair  eru vinnustaðir sem ættu að gera slíka samning.

Á Íslandi eru tækifæri framtíðarinnar í sjálfbærri nýtingu orkunnar, fegurðar landsins og auðlindum til sjávar og sveita. Erlendar þjóðir og ferðamenn horfa öfundaraugum á þessar auðlindir. Ferskleiki og hreinleiki íslenska fisksins og landbúnaðarafurða eru eftirsótt gæði eins og frumkvöðlastafsemin og hátækniiðnaðurinn, sem ferðamenn vilja sjá í sínu rétta umhverfi og hvernig við búum í þessu hreina og fallega landi. Það er í okkar höndum að skapa og viðhalda því trausti og stöðugleika sem fær fólk til að flykkjast hingað. Það gerist með sátt á vinnumarkaði.

Þrátt fyrir að verkfallsvopn hverrar stéttar sé grundvöllur verkalýðsbaráttunnar þá verðum við að finna leiðir til þess að það vopn sé aðeins notað þegar allt um þrýtur og þar er ábyrgðin beggja viðsemjanda. Á síðustu mánuðum höfum við öll gert okkur grein fyrir því að þessi staða er óviðunandi og við verðum að finna lausn. Lausn sem felur í sér betri kaupmátt og rekstraröryggi fyrir atvinnulífið það eru sameiginlegu hagsmunirnir sem allir geta varið.

Ásmundur Friðriksson alþingismaður