Aðsent

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina
Sunnudagur 14. apríl 2024 kl. 10:10

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Eitt aðaleinkenni þjóðkirkjunnar, kirkju þjóðarinnar er hún að hún hefur þá grunnskyldu að veita kirkjulega þjónustu um allt land. Henni ber að þjóna fólki í sveit og borg, í þorpum og bæjum, þeim sem búa afskekkt og þeim sem búa þétt. Þetta er ekki einfalt hlutverk því þegar upp er staðið er það fjárhagurinn sem stýrir því hversu breið og öflug sú þjónusta er. Sóknargjöldin sem ríkið innheimtir fyrir þjóðkirkjuna hafa verið skert af hálfu ríkisins frá því í hruninu og jafnvel eitthvað fyrr. Þetta hefur gert það að verkum að erfiðara er að halda úti þjónustu safnaða og halda við kirkjubyggingum sem margar hver eru menningarleg þjóðarverðmæti. Þá hefur vígð þjónusta verið skert þar sem kirkjan hefur þurft að fara í sparnaðaraðgerðir auk þess sem fólksflutningar hafa orðið á ákveðnum svæðum. 

Staða safnaðanna í landinu er afar mismunandi og hinir vígðu þjónar, prestar og djáknar búa við ólíkar aðstæður mörgu leyti. Prestar sem þjóna á landssvæðum þar sem þarf að aka um, fjallvegi til þess að annast guðsþjónustu, sálgæslu, safnaðarstarf eða kirkjulega athöfn búa við erfiðari aðstæður en prestar sem vart þurfa að fara úr húsi til þess að annast allt sitt starf. Á nokkrum stöðum eru vegalengdir slíkar innan prestakalls að ein skírn getur tekið allt að fjórar klukkustundir þegar akstur er tekinn með. Kirkja sem býður upp á þjónustu á svo ólíkum stöðum getur ekki boðið upp á samskonar þjónustu alls staðar en hún verður að huga að því að allir þjónar kirkjunnar búi við kjör sem gera það eftirsóknarvert að vilja starfa í Þjóðkirkjunni hvar sem er á landinu. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Vígð þjónusta á landsbyggðinni þarf að vera jafn aðlaðandi og samskonar þjónusta á höfuðborgarsvæðinu sem þýðir að kirkjan þarf að fara að huga að því að skoða kjaramál presta eftir því í hvaða landshlutum þeir þjóna. Á ákveðnum stöðum á landinu hefur þjónustuskerðingin orðið með þeim hætti að prestarnir eru sífellt að troða marvaðann eingöngu til þess að svara lágmarkskalli sóknarbarna. Þessir sömu prestar eiga erfitt með að taka fullt sumarleyfi, hvað þá samfellt. Við þurfum aðeins að líta til landanna í kringum okkur s.s. til Svíþjóðar eða Noregs til þess að skoða hvaða leiðir kirkjurnar þar hafa farið í þessum málum. Í þessum löndum hefur verið komið til móts við vígða þjóna á afskekktari stöðum með ýmsum hætti s.s. með auknum leyfum og afleysingu. Þá verður kirkjan að endurskoða þjónustu sína reglulega um allt land til þess að koma til móts við þjónustuþörf og aðstæður síns starfsfólks. Þetta eru leiðir sem ég tel að við verðum að skoða alvarlega því ég vil leiða kirkju þar sem metur allt sitt starfsfólk að verðleikum og hlúir að því. 

Þá þarf kirkjan að sækja það fast að ríkið skili sóknargjöldunum til safnaðanna og festa þau í sessi svo að við getum farið að þjóna Guði og fólki eins og við erum kölluð til á landinu öllu. Þá er hægt að fara fleiri leiðir til þess að hjálpa litlum sóknum sérstaklega og þar má m.a. nefna þann möguleika að skrá söfnuðinn á almannaheilaskrá og gefa þannig fólki kost á að styrkja kirkjuna sína og fá það að hluta til baka sem lækkun á skattstofni. Sjálfsagt er að skoða hvort fólk geti valið að ská sig sérstaklega í allra minnstu sóknirnar og þannig látið sóknargjöldin sín renna þangað. Þá er ekki síður mikilvægt að reyna að fjölga meðlimum í Þjóðkirkjunni og með sérstöku þjóðkirkjuátaki. Einn liður í því er að reyna að koma því um kring að skírnin verði sjálfkrafa skráning í Þjóðkirkjuna. Mikilvægast af öllur er þó að kirkjan haldi áfram að gera sig gildandi sem öflug fjöldahreyfing sem býr yfir ótrúlega miklum mannauði og hæfileikum, en ekki síður erindi sem við hér inni vitum öll að skiptir öllu lífsins máli, það er fagnaðarerindið sjálft.   

Kirkja í sókn tekur hlutverk sitt alvarlega, er fagleg í þjónustu sinni jafnt í söfnuðum sem og í sérþjónustu og hlúir vel að öllum sínum þjónum, starfsfólki og sóknarnefndarfólki. Kirkja í sókn er sýnileg því hún er stolt af erindi sínu, fagnaðarerindinu sjálfu. Þetta er sú kirkja sem ég mun veita forystu verði ég kjörin biskup Íslands.

Guðrún Karls Helgudóttir,
frambjóðandi til biskups.