Ekki í okkar nafni!
Þann 4. apríl síðastliðinn birtist á Víkurfréttarvefnum frétt undir fyrirsögninni „200 Grindvíkingar í Vogum - Komið að þolmörkum - segir bæjarstjóri.“ Þar er vitnað í bókun bæjarráðs Voga frá fundi sínum þann 3. apríl sl. um málefni Grindvíkinga sem hafa þurft að ganga í gegnum ólýsanlegar hörmungar síðustu misseri og eru nú flóttamenn í eigin landi.
Ég velti fyrir mér tilgangi þessarar bókunar bæjarráðs Voga og svo tilsvörum bæjarstjóra Voga í viðtali við ritstjóra Víkurfrétta þar sem haft er m.a. eftir bæjarstjóranum að nú „er komið að þolmörkum“. Einnig segir bæjastjórinn að „það er ekki hægt að ætlast til þess að hin sveitarfélögin á Suðurnesjum og þar með íbúar þeirra taki þetta verkefni í fangið“. Þá kemst hann þannig að orði að Grindvíkingar upplifi gjá á milli sín og annarra íbúa, sem hann að sjálfsögðu gerir þegar hann les svona frétt.
Að bæjaryfirvöld í Vogum skuli taka þennan pólinn í hæðina í opinberri umræðu veldur mér miklum vonbrigðum. Ég tel að með því að bæjarráð og bæjarstjóri velji að tjá sig opinberlega með þessum hætti að þá kjósi þau að horfa á glasið hálftómt frekar en hálffullt.
Ég sem íbúi í Vogum til síðustu 50 ára vil biðja Grindvíkinga innilega afsökunar á ummælum bæjaryfirvalda, fyrir hönd okkar Vogabúa sem kjósum að sjá glasið hálffullt og horfa á þau tækifæri sem í þessu liggja fyrir sveitarfélagið og brottflutta Grindvíkinga í stað þess að kvarta og kveina opinberlega yfir stöðunni.
Það eru fordæmalausir tímar hjá Grindvíkingum um þessar mundir. Við sem samfélag og kærir nágrannar hljótum að vera tilbúnir að leggjast á árarnar og aðstoða hvern og einn þann sem hann getur og breiðum þannig vængi okkar yfir íbúa sem syrgja sitt samfélag. Bæjarstjórn Voga getur farið ýmsar aðrar og skynsamlegri leiðir til þess að koma sínum skilaboðum á framfæri til ráðamanna landsins en með fyrrgreindum hætti.
Ég geri það hér með að tillögu minni að Sveitarfélagið Vogar bjóði Grindvíkingum í formlegar sameiningarviðræður. Samfélagslega og landfræðilega er það eðlilegasti hlutur í heimi miðað við núverandi stöðu. Ég er líka með tillögu að nafni á hið sameiginlega sveitarfélag og það er Grindavíkurbær. Þannig verður Grindavík alltaf til hvernig sem þetta allt saman fer á endanum.
Ég trúi því að ég tali fyrir hönd margra Vogabúa þegar ég fordæmi svona framkomu við Grindvíkinga og segi að þessi bókun og orð bæjarstjóra eru ekki lögð fram í nafni okkar íbúa. Kæru Grindvíkingar, verið innilega velkomnir í Vogana, við munum gera allt til þess að ykkur líði sem best hér í okkar ört stækkandi samfélagi. Það er rétt sem skáldið skrifaði að sól slær silfri á Voga.
Gunnar Júlíus Helgason,
íbúi í Vogum til 50 ára.