Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Á sama báti
Föstudagur 12. apríl 2024 kl. 06:03

Á sama báti

Andspænis ógnum náttúrunnar erum við mannfólkið afskaplega smá. Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum og áföllum reynir á þrautseigju okkur og styrk. Þá getur trúin verið það haldreipi sem við þörfnumst til að komast í gegnum það sem að höndum ber.

Þjóðkirkjan er stór og sterk stofnun með tækifæri til að taka höndum saman við aðra aðila í samfélaginu til að vinna að góðum málum. Ég fullyrði að engin hreyfing í landinu býr að eins stórum og virkum hópi fólks í sínum röðum  nema ef vera skyldi björgunarsveitirnar, sem við eigum svo margt að þakka. Þegar prestar á Reykjanesi kölluðu saman Grindvíkinga í Hallgrímskirkju eftir rýmingu bæjarins í nóvember lét forsætisráðherra þessa skoðun í ljósi og sagði: „Þetta getur enginn gert nema Þjóðkirkjan.“ Þetta ættum við kirkjunnar fólk að muna betur og taka til okkar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú stendur biskupskjör fyrir dyrum og því vil ég nota þetta tækifæri að segja þér sem þetta les, í örstuttu máli frá þeirri sýn sem ég hef á hlutverk biskups Íslands.

Verði ég kjörin biskup Íslands, mun ég:

  • Hlúa að einingu og friði í lífi þjóðkirkjunnar, milli leikra og lærðra, höfuðborgar og dreifbýlis.
  • Styrkja stöðu safnaðanna með því að ganga eftir því að sóknargjaldalögin verði fest í sessi og fjárhagur safnaðanna verði þar með treystur.
  • Efla og standa vörð um vandaða stjórnsýslu og faglega leiðsögn með sanngjarnri og ábyrgri stjórnun.
  • Auka hlut fræðslu, kennslu og boðun á vegum kirkjunnar fyrir fólk á öllum aldri.
  • Móta frekar samskiptastefnu þjóðkirkjunnar og ydda áherslur og nálgun sem kemur boðskap kristinnar trúar á framfæri í fjölmenningarsamfélagi dagsins.
  • Standa vörð um og efla kærleiksþjónustu kirkjunnar í söfnuðum og Hjálparstarfi kirkjunnar.
  • Styðja við nýjungar, fjölbreytni og endurnýjun í helgihaldi kirkjunnar.
  • Ganga til góðs með prestum, próföstum, djáknum og öðru trúnaðarfólki þjóðkirkjunnar um allt land.
  • Tala til íslensku þjóðarinnar á stórum stundum og vera talsmaður kristinna lífsgilda í samfélagsumræðunni.

Biskup Íslands er fyrst og fremst trúarlegur leiðtogi, sem prédikar og leiðir bænalíf og kærleiksþjónustu þess samfélags sem þjóðkirkjan er. Biskup á að uppörva vígða þjóna vítt og breitt um landið svo þeir geti boðað fagnaðarerindið og miðlað trúnni á þann hátt að samtíminn skilji.

Biskup þarf að bera gæfu til að eiga gott og uppbyggilegt samstarf við aðra leiðtoga þjóðkirkjunnar. Örugg boðun í trú og gleði, sátt og samlyndi, með vandaðri stjórnun, verður mín nálgun.

Elínborg Sturludóttir er frá Snæfellsnesi og hefur þjónað sem prestur í Grundarfirði, Borgarfirði og nú við Dómkirkjuna í Reykjavík. Hún er í framboði til biskups Íslands, kjör fer fram 11. – 16. apríl nk. Sjá https://kirkjan.is

Elínborg Sturludóttir