Ertu vinur eða óvinur Hljómahallar?
Umræða á villigötum
Ég hef verið að fylgjast með umræðunni um flutning bókasafns í Hljómahöllina og finnst margt sem hefur verið látið flakka byggjast á vanþekkingu og neikvæðni. Nú vil ég taka fram að ég skrifa þessa grein sem íbúi Reykjanesbæjar og unnandi menningarstarfs í bænum mínum en ekki sem blaðamaður Víkurfrétta, þetta er mitt sjónarmið en ekki fréttaflutningur. Þá vil ég einnig taka fram að ég hef beinna hagsmuna að gæta. Öll mín fjölskylda er í námi í tónlistarskólanum og ég get ekki farið nógu fögrum orðum um það starf sem þar er unnið. Þá er bókasafnið vinnustaður konunnar minnar og þangað sæki ég oft viðburði, bara síðustu vikur hef ég farið á tónleika, ljóðakvöld og hlýtt á höfunda lesa úr bókum sínum á Erlingskvöldi. Þá hef ég sérstaklega gaman af sýningum í Átthagastofu sem tengjast mínu nærumhverfi. Þetta litar kannski sjónarmið mitt að einhverju leyti en ég legg mig fram við að sýna hlutleysi og rýna í hvað getur verið jákvætt við þessa sambúð.
Klúðurslega staðið að málum
Viðbrögð fólks við ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar að flytja Bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll hefur vakið harkaleg viðbrögð margra íbúa Reykjanesbæjar. Sumum finnst vegið að starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, öðrum finnst Rokksafni Íslands og menningararfi bæjarins sýnd vanvirðing og þá finnst fjölmörgum hvorutveggja. Flestir sem hafa lagt orð í belg eiga það sameiginlegt að hafa ákveðið að einblína á neikvæðu hliðina þessu máli.
Ég skil þessi harkalegu viðbrögð að mörgu leyti enda finnst mér bæjaryfirvöld hafa sýnt starfsfólki og aðstandendum þessara stofnana hroka og óvirðingu við kynningu á þessari ákvörðun.
Henni var kastað fram sem hálfkveðinni vísu, þetta skyldi gert en engar skýringar fylgdu um hvernig framkvæmdinni skuli háttað eða hvernig eigi að koma þessum stofnunum fyrir undir sama þaki. Þar var ekkert tillit tekið til tilfinninga þeirra sem starfa í þessum stofnunum og sjá ekki fyrir sér hvernig þetta geti gengið upp – það var látið eins og þeim komi það ekkert við. Því er vel skiljanlegt að hagsmunaaðilar standi upp og mótmæli – vandamálið er að þeir vita ekki hverju þeir eru að mótmæla þegar það liggja ekki fyrir neinar tillögur að þessum breytingum. Fólk er í óvissu og það er hrætt. Hrætt um starf sitt, hrætt um vinnuaðstöðuna sína og það er hrætt við óvissuna. Þegar fólk veit ekki hvað er framundan verður það óöruggt og allskonar getgátur og sögusagnir fara af stað.
Þriðji staðurinn
Í safnafræði kemur hugtakið þriðji staðurinn fyrir. Heimilið er fyrsti staðurinn, vinnan er annar staðurinn en þriðji staðurinn er staður sem íbúar samfélagsins geta leitað í sér til dægrastyttingar utan heimilis eða vinnu, staður til að afla sér þekkingar, deila þekkingu, staður til að hitta annað fólk eða bara til að komast í annað umhverfi. Bókasöfn eru dæmi um slíkan stað og þau hafa gegnt þessu mikilvæga hlutverki í gegnum mannkynssöguna. Það er algengur misskilningur að bókasöfn séu einungis staður sem geymir og lánar út bækur.
Þá er það gömul mýta að alger þögn skuli ríkja í bókasafninu. Fólk sér fyrir sér hvassa bókavörðinn með hornspangagleraugun hvæsa „USS“ á alla þá sem gefa frá sér minnsta hljóð. Ég held að þetta fólk ætti að gera sér ferð í bókasafn og kynna sér þá starfsemi sem þar á sér stað. Í bókasöfnin koma heilu skólahóparnir, leikskóla- og grunnskólahópar, þar eru haldnir fyrirlestrar, sýningar og jafnvel tónleikar. Bókasöfn eru lifandi menningarstaðir fyrir íbúa hvers samfélags til að njóta. Þau eru mótuð af samfélaginu sem þau starfa í og taka breytingum með samfélaginu. Það má þess til gamans geta að starfsfólk þjónustuvers ráðhússins hefur kvartað undan ónæði frá bókasafninu en ekki öfugt.
„Bókasöfn eru þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings og eigenda sinna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Sameiginlegt markmið bókasafna, sem undir lög þessi falla, er að veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi. Þau skulu efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun, símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi.
Hlutverk bókasafna er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Áhersla skal lögð á að safnkostur bókasafna endurspegli sem flest sjónarmið.“ (Bókasafnalög, 6. gr.)
„Almenningsbókasöfn eru menningar-, upplýsinga- og menntastofnanir reknar af sveitarfélögum. Allir landsmenn skulu eiga kost á að njóta þjónustu almenningsbókasafna.
Öllum sveitarfélögum er skylt að standa að slíkri þjónustu í samræmi við þessi lög. Sveitarfélög ráða starfslið almenningsbókasafna sem á vegum þeirra starfa, sjá söfnunum fyrir viðunandi húsnæði og búa þau nauðsynlegum búnaði.“ (Bókasafnalög, 7. gr.)
Forgangsröðun og staðreyndir
Ef við horfum blákalt á forgangsröðunina þá er sveitarfélögum aðeins skylt að reka eina af þessum stofnunum og það er bókasafn. Bæjaryfirvöld þurfa ekki að reka listasafn, byggðasafn, tónlistarskóla eða rokksafn en þeim ber skylda til að reka bókasafn sem er aðgengilegt almenningi.
Árið 1994 flutti Bókasafn Keflavíkur (síðar Bókasafn Reykjanesbæjar) í glæsilegt húsnæði sem var sérhannað undir starfsemi þess. Flatarmál safnsins var 800 m2 á jarðhæð með 223 m2 geymslurými í kjallara. Árið 2000 var starfsfólk safnsins níu talsins og íbúar Reykjanesbæjar 10.840. (Tölur úr grein Huldu Bjarkar Þorkelsdóttur, þáverandi safnstjóra Bókasafns Reykjanesbæjar, í bókinni Nordic Public Libraries frá árinu 2002)
Frá árinu 2012 hefur Bókasafn Reykjanesbæjar þurft að sætta sig við að starfsemi þess sé rekin á tveimur hæðum í ráðhúsinu sem hentar starfseminni illa. Í tölum frá árinu 2021 er flatarmálið sagt vera 395 m2 á jarðhæð og 400 m2 í kjallara (hluti kjallara er geymslurými), stöðugildi eru 8,1 en íbúafjöldi bæjarins hafði þá tvöfaldast (20.380). (Tölur úr ársskýrslu Bókasafns Reykjanesbæjar 2022 og frá Hagstofu Íslands)
Þessar staðreyndir sýna berlega að bókasafn sveitarfélagsins er í mikilli þörf fyrir úrlausn á húsnæðisvanda sínum en það er ekki nóg að troða því inn í Hljómahöllina og kalla það menningarhús. Það er augljóst að þessum þremur stofnunum er sniðinn þröngur stakkur í óbreyttri Hljómahöll. Bókasafnið er ekki að fá nema hluta þess rýmis sem talin er þörf á og talað hefur verið um að möguleiki sé á að byggja við Hljómahöll til að mæta þörfum þeirra stofnana sem verða í húsinu – en það er ekki nóg að segja að það sé hægt að stækka húsnæðið, það þarf staðfestingu frá bæjaryfirvöldum að þau ætli að leggja í það verkefni og gert verði ráð fyrir að þessar stofnanir geti vaxið samhliða áframhaldandi íbúafjölgun í sveitarfélaginu. Verði það gert efast ég ekki um að sambúðin verði farsæl og öll starfsemi Hljómahallar muni blómstra í einu stóru menningarhúsi.
Samlegðaráhrif
Nú er ég alls ekki að tala fyrir því að loka söfnum, þvert á móti. Hins vegar finnst mér að það megi frekar kynna sér hvort ekki sé grundvöllur fyrir samstarfi þessara stofnana án þess að skerða þjónustuna – jafnvel efla hana.
Að halda því fram að bókasafn, tónlistarskóli og rokksafn eigi enga samleið er ekki staðreynd heldur fyrirfram ákveðin hugmynd sem er byggð á þröngsýni.
Ég vil benda á að í Kópavogi er bókasafn, náttúrugripasafn, tónlistarskóli og tónleikasalur í einni og sömu byggingu. Þar halda nemendur tónlistarskólans reglulega tónleika í bókasafninu. Sama er að segja um bókasafnið í Hafnarfirði, þangað koma nemendur tónlistarskóla sveitarfélagsins reglulega og halda tónleika þó safnið og skólinn séu ekki í sama húsnæði.
Að halda því fram að tónlistarkennsla geti ekki farið fram í sömu byggingu og bókasafn er bara ekki rétt. Kennslustofurnar í tónlistarskólanum eru sérstaklega hljóðeinangraðar og hannaðar með það í huga að ekki skapist of mikil truflun fyrir aðra. Ég hef alveg orðið vitni að því þegar starfsmaður Rokksafnsins lætur í sér heyra af því að einhver gleymdi að loka að sér meðan á tónlistarkennslu stóð og það skapaði of mikil læti í Rokksafninu, málið var leyst með því að viðkomandi lokaði dyrum kennslustofunnar – hvernig er það öðruvísi þegar kemur að bókasafni?
Annað sem hefur verið kastað fram er að framvegis verði ekki hægt að halda forskólatónleika (eða nokkra aðra tónleika) í Rokksafninu. Hver hefur haldið því fram að það verði ekki hægt þó ein stofnun bætist í flóruna? Þess fyrir utan er það nýlunda að halda tónleika forskólanema í Rokksafninu en lengst af voru þeir haldnir í Stapa og þóttu takast vel.
Verndum Hljómahöllina
Síðasta fimmtudag var viðburðurinn Verndum Hljómahöllina haldinn til að mótmæla flutningi bókasafnsins í rými Rokksafnsins. Í viðburðarboðinu sagði:
„Ákvörðun meirihlutans mun hafa slæmar afleiðingar fyrir menninguna hér í bæ sem og hafa neikvæð áhrif á aðila í verslun og þjónustu. Þá mun þessi ákvörðun einnig koma til með að þrengja að starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og almennri starfsemi í Hljómahöll.“
Þarna eru höfð uppi stór orð. Hvernig veit fólk að þetta muni hafa slæmar afleiðingar fyrir menninguna eða muni hafa neikvæð áhrif á verslun og þjónustu? Eina sem er hægt að slá föstu er að í óbreyttri Hljómahöll mun þrengja að starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og almennri starfsemi Hljómahallar.
Ég mætti á þennan viðburð og hlýddi á fjóra aðila flytja erindi um mikilvægi Rokksafnsins fyrir Reykjanesbæ, þeir voru Jakob Frímann Magnússon, Páll Óskar Hjálmtýsson, Bragi Valdimar Skúlason og eini heimamaðurinn í hópnum, Ásgeir Elvar Garðarsson.
Fram kom að stærsti vandi eins helsta aðdráttarafls Reykjanesbæjar væri aðsóknarleysi (sem mér finnst vera svolítil mótsögn nema það sé ekkert sem dragi ferðamenn að bænum okkar) en ræðumenn höfðu lausn á þeim vanda – að gera samninga við rútufyrirtækin um að stoppa með túrista í Rokksafninu á leið sinni um Reykjanesbrautina. Ekki flókin lausn eða hvað? Er það rétta leiðin?
Á þessum fundi heyrðist ekkert um þann möguleika að gera Rokksafnið meira aðlaðandi fyrir okkur heimamenn. Að gera eitthvað til að fjölga heimsóknum íbúa Reykjanesbæjar í safnið.
Jakob Frímann lagði Rokksafnið að jöfnu við Þjóðminjasafn Íslands og reyndi að sjá fyrir sér ef því yrði lokað – en það er grundvallarmunur á þessu tvennu, Þjóðminjasafnið er rekið af ríkinu en Rokksafnið af sveitarfélagi. Nú finnst mér þeir Jakob Frímann, Páll Óskar og Bragi Valdimar hafa svipað mikið til málanna að leggja um hvernig safnastarfi í Reykjanesbæ skuli háttað og ég um gatnaskipulag í Reykjavík. Þeir mega hafa sínar skoðanir en í mínum huga hafa þær afskaplega lítið vægi – svipað vægi og skoðun mín á því hvort Hverfisgata í Reykjavík eigi vera einstefna eða tvístefna.
Gæfuspor fyrir Rokksafnið
Að mínu mati er það ekki rétta lausnin á vanda Rokksafnsins að sækja fleiri ferðamenn. Í mínum huga er það staðfesting á því að Rokksafnið er ekki hugsað fyrir íbúa Reykjanesbæjar til að njóta heldur er það minnisvarði um þátt svæðisins í uppgangi dægurtónlistar á Íslandi. Væri ekki réttara að gera safnið meira aðlaðandi fyrir okkur sem búum hérna? Að bjóða upp á nýja sérsýningu á tveggja og hálfs árs fresti er alls ekki hvetjandi til að fá heimafólk í Rokksafnið.
Rokksafn Íslands hefur haldið fjórar sérsýningar frá stofnun (á tíu árum). Á sama tíma hafa 85 sýningar verið settar upp í Listasafni Reykjanesbæjar, Byggðasafn Reykjanesbæjar setur að jafnaði upp tvær til fjórar sýningar á ári og Bókasafn Reykjanesbæjar þrjár til fimm.
Flestir sem hafa mótmælt yfirvofandi breytingum vita reyndar ekki að Rokksafn Íslands er alls ekki safn. Rokksafn Íslands er í rauninni bara sýning sem er haldin í húsnæði Hljómahallar á munum í eigu Byggðasafns Reykjanesbæjar.
Hjá Bókasafni Reykjanesbæjar starfar manneskja með mastersgráðu í safnafræði og mastersgráðu í hagnýtri menningarmiðlun og önnur sem er með diploma í safnafræði, fólk sem er sérmenntað til að reka söfn og stýra sýningum. Ég veit ekki til þess að nokkur starfsmanna Hljómahallar búi yfir þeirri menntun. Hugsanlega verður það gæfuspor fyrir Rokksafnið að fá slíkt starfsfólk í húsið. Rokksafn Íslands er skemmtileg sýning um sögu dægurtónlistar á Íslandi og það væri alger fásinna að loka henni og pakka sýningarmununum ofan í kassa þó bókasafn flytji í sama húsnæði – en það er hægt að gera mikið betur.
Ég hvet fólk því til að rjúka ekki upp til handa og fóta og kasta fram svörtustu mögulegu sviðsmyndinni sem staðreynd. Höldum ró okkar og metum kosti og galla svona sambúðar þegar tillögur að útfærslu hennar liggja fyrir.
Jóhann Páll Kristbjörnsson,
íbúi Reykjanesbæjar.