Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Umsækjendur um alþjóðlega vernd allt of margir
Föstudagur 26. apríl 2024 kl. 06:07

Umsækjendur um alþjóðlega vernd allt of margir

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúi Umbótar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar lögðu fram bókanir við fundargerð velferðarráðs á síðasta fundi bæjarstjórnar, þar sem velferðarráð tók fyrir endurnýjun á samningi um samræmda móttöku flóttafólks.

Í velferðarráði voru lögð fram uppfærð drög að þjónustusamningi milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar um samræmda móttöku flóttafólks. Velferðarráð samþykkti á fundinum uppfærð samningsdrög. Einnig samþykkti velferðarráð að alþjóðateymi og ráðgjafar- og virkniteymi velferðarsviðs Reykjanesbæjar verði sameinuð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Margrét A. Sanders, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, lagði fram eftirfarandi bókun vegna fjórða máls fundargerðarinnar frá 11. apríl:

„Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir ekki samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku 250 flóttamanna. Ástæðan er eftirfarandi:

1. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2024 og það fjármagn sem greiða á stendur ekki undir þeim kostnaði sem fallið hefur á Reykjanesbæ.

2. Síðasti samningur gerði ráð fyrir að flóttamönnum í samræmdri móttöku myndi vera fækkað í 150 fyrir árslok 2023. Það gekk ekki eftir.

3. Enn eru umsækjendur um alþjóðlega vernd allt of margir í Reykjanesbæ og hefur illa tekist að fækka þeim.

Auk þessara 250 sem nú skal samið um, voru þann 31. desember 2023 1.119 hælisleitendur (umsækjendur um alþjóðlega vernd) að auki í Reykjanesbæ.

Sjálfstæðisflokkurinn harmar að álagið vegna flóttafólks valdi því að þjónusta sveitarfélagsins við bæjarbúa, þar með þau 33% íbúa sem eru af erlendu bergi brotin, sé ekki betri en raun ber vitni. Sveitarfélagið er komið langt yfir þolmörk. Hælisleitendum í Reykjanesbæ verður að fækka.

Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.“

„Löngu komin langt yfir þolmörk“

Margrét Þórarinsdóttir bókaði einnig við 4. mál úr fundargerð velferðarráðs frá 11. apríl:

„Enn og aftur ætlar meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar að gera nýjan samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks. Ég hef áður gagnrýnt þessi áform meirihlutans.

Rétt er að rifja upp reynsluna af fyrri þjónustusamningi og allt samráðsleysið við Reykjanesbæ, ef meirihlutinn er búinn að gleyma því. Framsóknarflokkur, Samfylking og Bein leið sáu sig knúin til að gera síðasta samning til þess að endurheimta hluta af þeim fjármunum sem sveitarfélagið hafði lagt til vegna mikils fjölda flóttafólks á svæðinu. Það var talið nauðsynlegt og því var haldið fram að Reykjanesbær myndi ekki þurfa að greiða með samningnum. Það reyndist ekki rétt. Reykjanesbær þurfti að greiða með síðasta samningi, sem rann út um áramótin.

Það er greinilegt að meirihlutinn ætlar að halda þessari vegferð áfram í andstöðu við mikinn meirihluta íbúa. Þessi samningur gildir í sex mánuði og mun Reykjanesbær skuldbinda sig til að taka á mót allt að 250 einstaklingum, fjölskyldum og pörum. Þegar síðasti samningur var samþykktur var hann samþykktur með þeim fyrirvara að gerð yrði viljayfirlýsing um fækkun flóttafólks í bænum. Fækka átti í samræmdri móttöku flóttafólks úr 350 einstaklingum niður í 150 fyrir árslok árið 2023 þegar samningnum lyki. Við þann samning var ekki staðið af hálfu ríkisins og í árslok 2023 voru 264 einstaklingar í samræmdri móttöku flóttafólks. Fækkunin var því einungis 86 einstaklingar í stað 150.

Það er greinilegt að meirihlutinn ætlar að láta eins og ekkert hafi í skorist og samþykkja þennan nýja samning þrátt fyrir að loforð ríkisins, sem voru skrifuð í samninginn gengu ekki eftir. Það verður áhugavert að sjá þegar þessum nýja samningi lýkur, hve mikið fé Reykjanesbær hefur þurft að greiða með samningnum.

Það er miður hvað meirihlutinn er í litlu sambandi við íbúa bæjarfélagsins og vilja þeirra í þessu máli. Meirihlutinn virðist heldur ekki skilja að nú þurfa önnur sveitarfélög að taka þennan bolta.

Við erum löngu komin langt yfir þolmörk. Enn og aftur vil ég minna meirihlutann á að kannanir hafa sýnt að allt að 85% íbúa á Suðurnesjum telja að fækki beri hælisleitendum á svæðinu.

Á það ber okkur að hlusta.

Á það hlusta ég og segi því nei.

Ég mun samþykkja fundargerð velferðarráðs en segja nei við endurnýjun á samningnum.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót“

Margrét Þórarinsdóttir (U) bar upp tillögu um að samþykkt velferðarráðs í fjórða máli fundargerðarinnar að alþjóðateymi og ráðgjafar- og virkniteymi velferðarsviðs Reykjanesbæjar verði sameinuð verði vísað til bæjarráðs til frekari umræðu.

Tillagan felld með sjö atkvæðum meirihlutans.

Margrét Þórarinsdóttir (U), Margrét A. Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D) og Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) greiða atkvæði á móti endurnýjun þjónustusamnings um samræmda móttöku flóttafólks frá fjórða máli fundargerðarinnar. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.