Í nafni hvers og í hvaða tilgangi?
Í tilefni af birtingu greinar sem birtist á vef Víkurfrétta undir undirskriftinni „Ekki í okkar nafni“ viljum við undirritaðir koma eftirfarandi á framfæri.
Ólíkt þvi sem skilja má af greinarskrifum Gunnars Helgasonar, fjallaði bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga um mikilvægi þess að ríkið standi við bakið á Grindvíkingum í þeirri bágu stöðu sem þeir eru í. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um svör frá ríkinu um hvernig tryggja eigi réttindi þessi hóps til jafns við aðra íbúa sveitarfélaga hér á landi, hafa engin svör borist og því miður ekki útlit fyrir að neitt sé að gerast í þeim málum. Í slíkri stöðu er það skylda bæjarstjórnar að beita sér með öllum tiltækum ráðum til varnar hagsmunum bæjarbúa allra, einnig og alls ekki síður þeirra sem eiga lögheimili í öðrum sveitarfélögum og hafa neyðst til að flytja búferlum vegna náttúruhamfara.
Í viðtali við bæjarstjóra, þar sem hann kemur fram fyrir hönd bæjarráðs, bendir hann réttilega á að ef ríkið haldi áfram að draga lappirnar og ekkert verði að gert þá geti skapast þær aðstæður að ofan á allt annað geti gjá farið að myndast á milli fólks. Ef einhver hefur efasemdir um réttmæti þeirra orða bæjarstjórans, þá er áður nefnd grein sem birtist á vef Víkurfrétta kannski einmitt sönnun þess hvað getur gerst í svona aðstæðum, þar sem aðilar nýta sér bága stöðu nágranna okkar til að draga fólk í dilka og stilla því upp í andstæðar fylkingar.
Í því sambandi er einnig ástæða til að árétta að í umræddri grein er ekki farið rétt með staðreyndir, orð og setningar slitin úr samhengi og ýjað að hlutum sem eiga sér enga stoð í veruleikanum, hvorki er varðar bókun bæjarráðs né það sem fram kom í viðtali við bæjarstjóra sveitarfélagsins í Víkurfréttum þann 4. apríl sl.
Áður en fyrrnefnd skrif valda enn meiri skaða en þau hafa eflaust gert nú þegar, þá hvetjum við lesendur til að lesa umrætt viðtal, sem og bókun bæjarráðs sem hvort tveggja er aðgengilegt á heimasíðu Sveitarfélagsins Voga.
Björn Sæbjörnsson forseti bæjarstjórnar
Birgir Örn Ólafsson formaður bæjarráðs
Kristinn Björgvinsson oddviti L listans.