Aðsent

Verulegur afkomubati - ánægjuleg tilbreyting
Föstudagur 5. maí 2017 kl. 06:00

Verulegur afkomubati - ánægjuleg tilbreyting

- Aðsend grein frá meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar

Árrsreikningur Reykjanesbæjar og stofnana hans fyrir árið 2016 sýnir glöggt að verulegur viðsnúningur hefur orðið í rekstri Reykjanesbæjar. 
Bæði bæjarsjóður (A hluti) og samstæða ( A og B hluta fyrirtæki í eigu eða meirihlutaeigu sveitarfélagsins) skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu og markar slíkt þáttaskil. 
Afkoma bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjárhagsliði er jákvæð um kr. 1.759 milljónir sem gefur tæplega 14% framlegð og er rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs jákvæð um tæpar 49 milljónir. 
Afkoma samstæðu fyrir afskriftir og fjármagnsliði er jákvæð um rúman 4,1 milljarð sem gefur rúmlega 21% framlegð og er rekstrarniðurstaða samstæðu jákvæð um 92 milljónir. Um er að ræða talsverðan afkomubata frá fyrri áætlunum sem voru settar fram með varfærnissjónarmið í huga.

Verulegur tekjuauki og mikið aðhald

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024


Þessi niðurstaða hefur orðið til af tvennu þ.e. talsverðum tekjuauka vegna fjölgunar starfa og minnkandi atvinnuleysis en ekki síður vegna mikils aðhalds í rekstri. 
Sú sýn Sjálfstæðismanna um að vaxtaberandi skuldasöfnun þeirra í gegnum árin, sem þeir nefna fjárfestingar, sé nú skila sér, hlýtur að teljast æði sérkennileg þegar ljóst er að minnkandi atvinnuleysi á svæðinu vegna fjölgunar starfa í Flugstöð ræður þar mestu um þá miklu breytingu sem nú er að eiga sér stað. 
Þeir geta heldur ekki þakkað sér tiltekt í rekstri sem þeir greiddu atkvæði gegn á sínum tíma.

Reykjaneshöfn áfram með neikvæða afkomu 
þrátt fyrir þennan afkomubata er rekstrarniðurstaða Reykjaneshafnar áfram neikvæð og verður svo áfram nái áætlanir um uppbyggingu í Helguvík ekki fram að ganga. Því er nauðsynlegt að fylgja eftir þeim áætlunum til að koma í veg fyrir að það reyni á ábyrgð bæjarins á skuldum hafnarinnar.

Skuldaviðmið lækkar


Sá tekjuauki sem orðið hefur á árinu leiðir það af sér að skuldaviðmið lækkar. Á sama tíma hafa fjárfestingar ekki aukist og því sjáum við verulegar breytingar hvað þetta varðar. Skuldaviðmiðið á samstæðu er nú komið í 209% en var 234% þegar að núverandi meirihluti tók við. Skuldaviðmið bæjarsjóðs hefur einnig lækkað verulega og er nú komið í tæp 167%. Við höfum því fimm ár til að koma skuldaviðmiði samstæðu úr 209% í 150% eins og lög mæla fyrir um. Það mun krefjast verulegrar útsjónarsemi því á sama tíma mun Reykjanesbær þurfa auka fjárfestingar í innviðum vegna mikillar fjölgunar íbúa. 

Siglt í rétta átt


Með þessari rekstrarniðurstöðu er ljóst að verið er að sigla í rétta átt þótt lítið megi út af bregða. Eiginfjárstaða sveitarfélagsins er ekki góð og skuldir alltof miklar.  Núverandi meirihluti lagði áherslu á að gæta aðhalds og það hefur hann gert en jafnframt lagt áherslu á að gæta að stöðu barnafjölskyldna í bænum okkar. 
Því verkefni sem við tókumst á hendur eftir síðustu kosningar er hvergi nærri lokið og því verður ekki lokið fyrr en skuldaviðmiðið er komið undir 150% og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaganna sleppir hendinni af Reykjanesbæ.

Guðbrandur Einarsson Bein leið
Friðjón Einarsson Samfylking og óháðir
Gunnar Þórarinsson Frjálst afl

Kristján Jóhannsson Bein leið
Guðný Birna Guðmundsdóttir Samfylking og óháðir

Davíð Páll Viðarsson Frjálst afl