Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Vilhjálmur varð ekki aftur annar
Hópurinn sem tók þátt í Víkurfréttabikarnum 2024.
Fimmtudagur 25. apríl 2024 kl. 06:12

Vilhjálmur varð ekki aftur annar

Vilhjálmur Arngrímsson, Kúddi, sigraði á Víkurfréttamótinu í ballskák sem haldið var í húsakynnum Virkjunar á Ásbrú í síðustu viku. Vilhjálmur lagði Jón Ólaf Jónsson í spennandi úrslitaleik 2-1.

Vilhjálmur „Kúddi“ Arngrímsson, Víkurfréttameistari 2024.

„Ég er hræddur um að ég fái viðurnefnið Vilhjálmur annar ef ég tapa,“ sagði sigurvegarinn við blaðamann áður en úrslitin  hófust en Kúddi tapaði fyrir Jóni Ólafi í úrslitum mótsins í fyrra. Þeir mættust aftur í úrslitum í ár og Jón Óli vann fyrsta leikinn nokkuð örugglega en Kúddi gafst ekki upp og sýndi hvað í honum býr með því að vinna næstu tvo leiki en það þurfti hann að gera til að sigra á mótinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta er gaman hjá okkur körlunum. Við mætum hér reglulega og spilum billiard í þessari skemmtilegu aðstöðu, rosknir karlar frá sextugu og yfir. Keppum og spjöllum. Svo er einn okkar duglegur að baka vöfflur sem við borðum hér með rjóma og sultu,“ sagði Kúddi.

Veitt voru verðlaun fyrir sex efstu sætin. Jón Norðfjörð, formaður Ballskákfélags eldri borgara á Suðurnesjum en það er nafn félags þeirra karla, vann Georg úrsmið Hannah um 5. sætið. Vilhjálmur Ragnarsson lagði svo Helga Hólm í leik um 3. sætið.

Karlarnir mæta flestir tvisvar í viku, sumir oftar en að jafnaði eru þeir um tuttugu. Tæplega fjörutíu eru í félaginu. Aðstaðan er mjög góð, átta fín billiardborð og svo er hægt að setjast niður á kaffistofunni og fá sér bolla og spjalla.

Víkurfréttabikarinn í ballskák er bara eitt af mörgum mótum sem haldin eru yfir árið. Jón Norðfjörð segir að menn hafi gaman af því að spila og hittast. Hann var nýlega endurkjörinn formaður Ballskákfélagsins.

„Það er virkilega gaman að koma hérna og hitta félagana. Þetta er góður félagsskapur. Hér eru menn sem eru komnir hátt á níræðisaldur en bera sig vel og gefa ekkert eftir.“

Jón Ólafur Jónsson (að ofan) og Vilhjálmur Arngrímsson (að neðan) munda kjuðana í úrslitaleiknum.