Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Bjartsýni ríkir hjá grindvískum golfurum
Fimmtudagur 25. apríl 2024 kl. 06:12

Bjartsýni ríkir hjá grindvískum golfurum

„Þó svo að aðstæður væru eðlilegar værum við ekki að opna Húsatóftavöll á sumardaginn fyrsta, tíðarfarið býður ekki upp á það. Vonandi getum við opnað 1. maí,“ segir Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur.

Við héldum aðalfund okkar nýlega og kom aldrei neitt annað til greina en halda það í golfskálanum okkar á Húsatóftavelli. Mætingin var góð og var gott hljóð í grindvískum golfurum, það eru allir sammála um að þetta verði frábært golfsumar hjá okkur.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í lok síðustu viku hóf verkfræðistofan EFLA jarðvegsskönnun á Húsatóftavelli og fór verkið vel af stað.

Jarðvegskönnun á vellinum

„Það eru allir sammála um að það þurfi að framkvæma þessa jarðvegsskönnun á Húsatóftavelli, við myndum aldrei hleypa öðruvísi inn á hann. Ég persónulega er sannfærður um að það er í lagi með völlinn en mér myndi ekki líða vel með að hleypa inn á hann fyrr en fagaðilar eru búnir að ganga úr skugga um að allt sé í lagi. Það er búið að fljúga með dróna yfir völlinn og á bara eftir að vinna úr þeim gögnum. Ég er búinn að labba völlinn allan þvert og endalangt og hef séð neitt athugavert. Einu skemmdirnar eru þær sem urðu 10. nóvember við fremri teiginn á þrettándu holu, á nýja æfingasvæðinu og svo eru smá sprungur í bílastæðinu. Þetta eru minniháttar skemmdir en þó munum við þurfa að gera nýjan fremri teig á þrettándu holu. Vonandi verður það svæði ekki lagað, heldur girt af svo gestir okkar geti skoðað hvað gekk á. Skemmdirnar á æfingasvæðinu skipta ekki svo miklu máli því það var ekki tilbúið og ég myndi treysta mér til að leggja bílnum þar sem skemmdin er á bílastæðinu. Þetta verður samt auðvitað lagað, ég er bara að benda á að ástandið hjá okkur er miklu betra en margir halda. Ég hef margoft verið spurður að því hvort Húsatóftavöllur sé ónýtur, því fer víðsfjarri. Síðan völlurin opnaði árið 1981 höfum við leikið golf á milli tveggja sprunga og þær hafa ekkert stækkað síðan 10. nóvember. Sem dæmi hefur brúin á milli Ameríku- og Evrasíuflekans ekkert aflagast. Ástandið á vellinum okkar er bara mjög gott fyrir utan að veðurguðirnir hafa ekki verið okkur hliðhollir frekar en öðrum golfvöllum. Ef allt gengur að óskum og veðurguðirnir verði þokkalega hagstæðir munum við opna völlinn með pompi og prakt 1. maí í síðasta lagi,“ segir Helgi.

„Nokkrir golfklúbbar hafa boðið Grindvíkinga velkomna. „Golfklúbbur Suðurnesja, Golfklúbbur Sandgerðis og Eyjamenna bjóða meðlimum GG að spila frítt í sumar og aðrir klúbbar bjóða góð kjör og fyrir það munum við alltaf verða þakklát fyrir. Vonandi mun samt ekki koma til þess, heldur að meðlimir GG geti spilað sinn Húsatóftavöll en það er gott að vita af hinum valkostunum. Við Grindvíkingar þekkjum ekkert annað en horfa björtum augum til framtíðarinnar, við getum ekki beðið eftir að golfsumarið hefjist,“ sagði Helgi Dan að lokum.