Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Nýtt hjúkrunarheimili mun ekki geta tekið við íbúum Hlévangs“
Ný áttatíu rýma viðbygging við Hrafnistu rís við Njarðarvelli. VF/Hilmar Bragi
Fimmtudagur 25. apríl 2024 kl. 06:08

„Nýtt hjúkrunarheimili mun ekki geta tekið við íbúum Hlévangs“

Hugmyndir uppi um að breyta Hlévangi í fjölnota þjónustuúrræði fyrir fötluð börn

Velferðarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að setja af stað starfshóp sem á að greina og skoða möguleikana sem felast í að breyta Hlévangi í fjölnota þjónustuúrræði fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra auk þess að kostnaðargreina þær breytingar sem gera þyrfti á húsnæðinu. Áætlað er að heimilisfólk á Hlévangi flytjist yfir á nýtt hjúkrunarheimili á Nesvöllum haustið 2025. Lagt var fram minnisblað frá sviðsstjóra velferðarsviðs og teymisstjóra barna- og fjölskylduteymis um fjölnota þjónustuúrræði fyrir fötluð börn og ungmenni ásamt tillögu um starfshóp til að greina tækifæri og áskoranir við slíkt úrræði á síðasta fundi velferðarráðs 11. apríl.

„Reykjanesbær er ört stækkandi sveitarfélag og telur ráðið þetta mjög brýnt verkefni, því áhersla er lögð á að færa þar undir sama þak lögbundna frístundaþjónustu og tímabundna sólarhringsþjónustu fyrir fötluð börn með miklar umönnunarþarfir. Hlutdeild Reykjanesbæjar er um 70% af rekstri Heiðarholts sem er skammtímavistun fyrir fötluð börn sem er rekin af Suðurnesjabæ og er starfsemin rekin fyrir öll sveitarfélögin á Suðurnesjum. Þörfin fyrir skammtímadvöl er mun meiri en við náum að veita og eru biðlistar langir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að auki getur Hlévangur vegna stærðar sinnar einnig bætt verulega aðstöðuna fyrir aðrar lögbundnar þjónustur fyrir fötluð börn og ungmenni. Má þar nefna Skjólið sem er frístundarúrræði og Ævintýrasmiðjuna sem er sumarúrræði og hefur verið mjög eftirsótt síðustu ár fyrir þennan málaflokk. Hægt verður að efla og byggja upp fjölþætta og heilsteypta stuðningsþjónustu fyrir þennan málaflokk,“ segir í afgreiðslu ráðsins.

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar í Reykjanesbæ, lagði fram bókun um málið á síðasta fundi bæjarstjórnar:

„Ég er sammála velferðarráði og tek undir með að brýn þörf er fyrir fjölnota þjónustuúrræði fyrir fötluð börn og ungmenni. Það er mjög mikilvægt að fötluð börn njóti sambærilegra lífsgæða og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Ég tek undir með velferðarráði að mikilvægt er að koma á starfshópi sem á að greina og skoða möguleika á hentugu húsnæði undir þetta brýna verkefni.

Velferðarráð leggur til að skoða þann möguleika að Hlévangur verði skoðaður með það að leiðarljósi að breyta húsnæði sem hentar fjölnota þjónustuúrræði fyrir fötluð börn ásamt því að kostnaðargreina þær breytingar.

Þegar ég las þetta þá rak ég upp stór augu þar sem að væntanlega verður Hlévangi ekki lokað á næstunni.

Nýtt hjúkrunarheimili mun ekki geta tekið við íbúum Hlévangs. Heilbrigðisráðherra er búinn að gefa út að Reykjanesbær fær 30 rými á nýja hjúkrunarheimilinu sem er í byggingu en ekki 60 eins og til stóð. Í ljósi þeirra eldsumbrota sem hafa átt sér stað í Grindavík munu Grindvíkingar fá 30 rými.

Nú þegar eru 33 einstaklingar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að bíða eftir að komast inn á hjúkrunarheimili og annar eins fjöldi á biðlista. Ég spyr því meirihlutann hvort að hann telji að það sé raunhæft að skoða Hlévang fyrir þetta brýna verkefni?“

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, sagði í umræðum á fundi bæjarstjórnar að nýju rýmin við Njarðarvelli í Reykjanesbæ verði samtals 80 í fjórum tuttugu rýma deildum. Að frádregnum þeim 30 rýmum sem tekin verða frá fyrir Grindvíkinga verði 50 rými eftir til ráðstöfunar fyrir aðra. Kjartan tók jafnframt fram að hjúkrunarrými væru ekki eyrnamerkt ákveðnum sveitarfélögum, heldur væru öll rými á landinu einn sameiginlegur pottur fyrir landsmenn.