Verkafólk á rétt á sömu kjörum og þingmenn

Nú er mikið talað um skort á trausti til Alþingis og virðingu þess. Sumir þingmenn tala reyndar eins og þetta sé eitthvað sem þurfi bara að fara í nefnd og virðast ekki sjá, eða láta sem þeir sjái ekki, tengslin milli vantrausts og frétta af því hvernig þingmenn misnota sameiginlega sjóði til að ferðast í einkaerindum. Hvernig aðrir þingmenn þiggja húsnæðisstyrki fyrir lögheimili á eyðibýlum þótt vitað sé að raunverulegt heimili þeirra er í glæsihúsum í borginni, og þörfin á húsnæðisstyrkjum því engin.

Hæsti kostnaðarliðurinn hjá öllum heimilum landsins er bensín og húsnæði.
Venjulegt fólk fær ekki aðstoð við þessa útgjaldaliði. Laun þess fara í að greiða fyrir húsnæði og aksturskostnað. Það fær ekki úthlutað 40% launahækkun af nefnd sem það skipaði sjálft. Það á ekki rétt á húsaleigubótum ef heildarlaun ná 400.000.

Á sama tíma þarf venjulegt fólk að búa við það að sveiflur í kostnaði við akstur og húsnæði hafa áhrif á lánin þeirra. Olíukostnaður hefur einnig áhrif á matvöruverð og alla vöru sem þarf að flytja í verslanir, laun þess eru sjaldnast verðtryggð en það eru lánin.

Maður spyr sig hvort ekki sé réttmæt krafa að fólk sem að býr ekki í því sveitarfélagi sem það vinnur í fái sömu kjör og þingmenn?

Mér finnst það ekki réttlætanlegt að hækka launakostnað þingmanna á þeim forsendum að þau hafi ekki fylgt launaþróun þegar fríðindi þeirra í starfi tekur á tveimur stærstu kostnaðarliðum hvers heimilis á landinu. Hversu lengi hefur þetta viðgengist?

Er þetta kannski það sem allur okkar skattpeningur fer í?

Ég vill að allar upplýsingar um fjárveitingar til þingmanna síðustu 20 árin verði gerðar opinberar, ég vil að þingmenn sjái sóma sin í því að sýna verkafólki þessa lands þá virðingu að lækka launin sín í samræmi við launaþróun vinnumarkaðarins og þeir lúti sömu lögmálum og öryrkjar þegar kemur að skerðingum krónu á móti krónu fyrir þessa styrki og þau heimilli sem keypt hafa verið og kostuð með skattfé almennings.

Þingmenn sem þegið hafa bætur og ráðstafað því í kaup á húsnæði ættu að skila því, ella vera bornir út eins og einstaklingar og fjölskyldur landsins sem að lentu í skuldavanda og misstu allt sit í hruninu. Þeir þingmenn sem sjá ekki eitthvað að þessu ættu að taka poka sinn og fara að vinna við eitthvað annað. Þið eruð þjónar fólksins. Sýnið fólkinu í landinu virðingu og þá fáið þið þá virðingu sem ykkur vantar svo sárlega til baka.

Þórólfur Júlían Dagsson, stjórnarmeðlimur Pírata á Suðurnesjum.