Aðsent

Suðurnesin og samanburðurinn
Oddný Harðardóttir.
Föstudagur 27. október 2017 kl. 07:00

Suðurnesin og samanburðurinn

Reykjanesbær stóð fyrir upplýsandi fundi í DUUS húsum síðastliðinn fimmtudag um fjárveitingar til stofnana á Suðurnesjum miðað við aðra landshluta.

Ekkert af þessum tölum kom mér á óvart en það skiptir máli að taka þær saman af fagfólki sem hefur engra hagsmuna að gæta. Það eykur trúverðugleikann og hjálpar okkur stjórnmálamönnunum að tryggja Suðurnesjamönnum sinn sanngjarna hlut.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Glötuð tækifæri
Á árunum fyrir hrun voru Suðurnesin eitt helsta vaxtarsvæði landsins. Þá fjölgaði íbúum mikið á milli ára og fjárveitingar til grunnþjónustunnar ekki í sama takti líkt og nú. Síðan kom skellurinn með brotthvarfi hersins og hruninu þar sem okkar svæði varð illa úti. Þess vegna hefði átt að beina sjónum sérstaklega að Suðurnesjum þegar ríkissjóður hafði rétt úr kútnum og góðaærin tóku við. En það var ekki gert.
Vandinn í samskiptum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Reykjanesbæjar og kostnaður bæjarfélagsins vegna Ásbrúarsvæðisins var mér ljós þegar ég gegndi stöðu fjármálaráðherra. Þess vegna skipaði ég bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar í stjórn Kadeco árið 2012. Formaður Sjálfstæðisflokksins skipti um þann fulltrúa nokkrum mánuðum síðar og veikti þar með stöðu Reykjanesbæjar gagnvart Kadeco og ríkinu. Það voru afdrifarík mistök Sjálfstæðisflokksins.

Mínar tillögur
Mín tillaga var að sú ríkisstjórninni yrði falið að skipa starfshóp fimm sérfræðinga úr jafn mörgum ráðuneytum til að vinna aðgerðaáætlun í samráði við sveitarstjórnarmenn um hvernig efla mætti atvinnulíf og samfélag á Suðurnesjum. Hér er slóðin á tillöguna og greinargerðina með henni http://www.althingi.is/altext/144/s/0513.html. Ég sóttist eftir stuðningi og meðflutningi þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar en þeir sáu ekki ástæðu til að styðja málið eða flytja það með mér, þó þau hefðu verið í lykilaðstöðu til að koma tillögunni í framkvæmd. Það voru stórkostleg mistök að mínu mati.
Staðan er þessi: Í næstu fjárlögum þurfa að sjást þess skýr merki að alþingismenn ætli að taka á því óréttlæti sem blasir við í samantekt Reykjanesbæjar. Fjárframlög til heilbrigðis- og velferðarmála og til skóla og lögreglu verða að aukast í takt við íbúafjölda og þjónustuþörf á svæðinu. Og ekki síður verður ríkið að greiða Reykjanesbæ fasteignaskatta frá árinu 2006 og bæta fyrir þann forsendubrest sem átt hefur sér stað síðan lögin um afslátt á fasteignagjöldum til ríkisins voru samþykkt. Samfylkingin mun áfram beita sér fyrir þessu og verði flokkurinn í aðstöðu til eftir kosningar, hrinda hvoru tveggja í framkvæmd.

Jafnaðarstefnan
Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur Íslands og berst fyrir jafnaðarstefnunni alla daga allan ársins hring. Við erum ekki jafnaðarmenn eingöngu dagana fyrir kosningar eins og nýju flokkarnir sem fengu brautargengi í síðustu kosningum en felldu grímuna rækilega með fjárlagafrumvarpinu sínu. Sem Suðurnesjamaður, fyrrum sveitarstjórnarmaður, bæjarstjóri og formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og þingmaður kjördæmisins, þekki ég samfélögin á Suðurnesjum mjög vel og veit hvar skóinn kreppir og hvar úrbóta er þörf.
Ég óska eftir stuðningi þínum lesandi góður í kjörklefanum. Látum hjartað ráða för og kjósum Samfylkinguna. Setjum X við S.

Oddný G. Harðardóttir,
oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi