Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eigandi Víkurfrétta mætir til leiks
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 26. apríl 2024 kl. 06:08

Eigandi Víkurfrétta mætir til leiks

Það kom að því að Maggi Tóka þyrfti að lúta í gras en eftir að hafa rúllað yfir þrjá kynbræður sína kom Petra Lind Einarsdóttir, sá og sigraði með níu rétta gegn átta hjá Magga sem getur þó borið höfuðið hátt. Hann stóðst pressuna og kom sér upp fyrir Jónas Karl Þórhallsson í fjórða sætið. Þar sem eingöngu tvær umferðir eru eftir þar til undanúrslitin hefjast, þarf Petra Lind að eiga stórleiki í þeim tveimur umferðum sem eru eftir til að komast upp fyrir Magga, hún þarf að fá 21 leik réttan í þessum tveimur umferðum.

Enn á ný voru Íslendingar ekki getspakir, enginn þeirra sautján sem náðu þrettán réttum keyptu seðilinn á Íslandi. Ellefu af 603 náðu tólf réttum og fæ hver rúmar 50 þúsund krónur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þar sem ljóst er að áskorandinn mun ekki eiga möguleika á að koma sér upp í fjórða sætið, var ákveðið að slá á léttu strengina og draga sjálfan eiganda og ritstjóra Víkurfrétta, Pál Ketilsson, að tippborðinu. Það er gaman frá því að segja að þegar tippleikur Víkur-frétta hófst síðasta haust tippuðu karlpeningar Víkurfrétta sín á milli og er skemmst frá því að segja að Palli galt afhroð! Það sannaðist reyndar þá að sólin skín stundum á hundsrass því Hilmar Bragi, sem veit varla hvernig fótbolti lítur út, vann með ellefu leiki rétta, undirritaður og Jóhann Páll fengu tíu leiki og Palli var langneðstur með sjö rétta. Einhver hefði þar með haldið að eðlilegt væri að Hilmar Bragi fengi sprotann en Palli hélt nú aldeilis ekki!

„Ég á’etta og má’etta! Það er ekkert að marka þessa einu umferð í október, ég var með hugann við eitthvað allt annað og spáði ekkert í þeim seðli. Það að Hilmar Bragi hafi náð ellefu leikjum réttum segir sína sögu. Ég hef margoft farið í þessa tippferð Víkurfrétta og því er eðlilegt að ég mæti til leiks. Þar sem áskorandinn á ekki séns á að komast upp í fjórða sætið væri eðlilegt af mér að leggjast flatur gegn Petru Lind og leyfa henni að vinna en þar sem ég er mikill keppnismaður er ekki séns að ég geri það. Ég ætla mér sigur í þessum leik, ekki síst til að sýna starfsmönnum mínum að þetta hafi bara verið slys í október. Ég mun ekki sýna Petru Lind neina miskunn,“ sagði Palli.

Petru Lind líst vel á að mæta eiganda Víkurfrétta.

„Það er bara heiður að fá að mæta Palla sem ég þekki vel. Þó svo að hann eigi engan möguleika á að komast upp í fjórða sætið og er bara að spila upp á heiðurinn veit ég að hann mun gefa allt sem hann á til að vinna mig. Ég var auðvitað hæstánægð með að vinna Magga og sé að ég þarf að eiga stórleiki í þeim umferðum sem eru eftir til að eiga möguleika á að hreppa fjórða sætið. Ég þarf að gera enn betur en ég gerði núna og eigum við ekki að segja að ég muni sýna stöðuga framför, fæ tíu leiki rétta næst og tek svo ellefu þar á eftir, þannig fer ég upp í 30 leiki rétta og vinn Magga á betra meðaltali. Hins vegar kæmi mér ekki á óvart ef Palli nái ellefu réttum eða fleirum, þar með myndi hann sýna hvað í sér býr og ná þannig að stinga upp í þennan titt sem skrifar þessa tipppistla,“ sagði Petra Lind.