Aðsent

Stutt saga af fjölskyldu á Suðurnesjum
Þriðjudagur 25. október 2016 kl. 06:00

Stutt saga af fjölskyldu á Suðurnesjum

Aðsend grein frá Oddnýju Harðardóttur

Ung hjón, með tvö börn, labba inn í banka. Þau þurfa lán fyrir sinni fyrstu íbúð, langar í þriggja herbergja íbúð. Þau vita að það verður þröngt á þingi, en telja sig ekki ráða við stærra. Bæði hafa ágætis menntun, örugga vinnu og laun. Með erfiðismunum hafa þau safnað milljón en meira þarf til fyrir útborgun. Viðbótarlánið sem þau geta fengið í bankanum, fellir þau í greiðslumati.

Fjölskyldan er orðin þreytt á óörygginu. Síðustu fimm ár hafa þau leigt á þremur stöðum og borgað háa leigu. Börnin hafa skipt tvisvar um skóla; jafn harðan og þau tengjast skólafélögunum eru þau rifin upp og flutt er á nýjan stað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hjónin merja leiguna en þrá meiri stöðugleika fyrir börnin og vita auk þess að afborgun af íbúðarláninu yrði talsvert lægri en leigan; ef þau ættu bara fyrir útborguninni.

Þessi hjón munu, ásamt öðru ungu fólki, bera uppi samneysluna okkar næstu 40 árin. Þau fara illa nestuð í þá ferð. Er það furða þótt þau hafi oft velt því fyrir sér að flytja til útlanda?

Samfylkingin vill hjálpa þessari fjölskyldu. Við viljum bjóða þeim fyrirfram greiddar vaxtabætur til fimm ára; alls þrjár milljónir króna. Þetta mun koma þeim yfir þröskuldinn.  Framtíð fjölskyldunnar verður tryggari og börnin búa við meira öryggi og ánægju. 

Nánar má kynna sér leið Samfylkingarinnar; þriggja milljón króna forskot á fasteignamarkaði á slóðinni www. xs.is.

Til viðbótar við forskotið á fasteignamarkaði verða byggðar 4.000 almennar leiguíbúðir og 1.000 íbúðir fyrir námsmenn á næsta kjörtímabili, fái Samfylkingin nægilegt brautargengi í kosningunum sem framundan eru. Markmiðið er öryggi á húsnæðismarkaði og raunverulegt val um að leigja eða eiga.

Oddný G. Harðardóttir
formaður Samfylkingarinnar og skipar 1. sæti lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi