Aðsent

Snúa þarf vörn í sókn fyrir Suðurnes
Karl Gauti Hjaltason.
Miðvikudagur 25. október 2017 kl. 11:41

Snúa þarf vörn í sókn fyrir Suðurnes

Ég hef ákveðið að bjóða fram krafta mína á Alþingi okkar Íslendinga og brenn í skinninu til að fá að takast á við öll þau fjölmörgu verkefni sem þar þarf að vinna að. Margt mætti auðvitað nefna en það sem snýr að Suðurnesjamönnum er klárlega helst samgöngur og heilbrigðis- og sjúkrahúsþjónusta.

Samgöngumálin eru mér ofarlega í huga og það hefur tekið allt of langan tíma að tvöfalda Reykjanesbrautina, þó rætt hafi verið um það í áratugi. Reykjanesbrautina þarf að tvöfalda sem allra fyrst alla leið upp í flugstöð og inn til Keflavíkur. Ef það væri ekki fyrir það hversu langan tíma þetta hefur tekið hefur Grindavíkurvegurinn alltaf þurft að bíða. Flokkur fólksins vill berjast fyrir því að gerður verði 2+1 vegur til Grindavíkur og það fyrr en seinna. Þetta má ekki draga lengur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Heilbrigðis- og sjúkrahúsþjónustu á Suðurnesjum hefur hrakað á undanförnum árum, eins og reyndar vítt og breytt í kjördæminu. Ég tel að nauðsynlegt sé að skurðstofa sé opin í Reykjanesbæ og þar geti mæður fætt börn sín. Þá eru fjárveitingar til þessa málaflokks alls ekki ásættanlegar. Fyrir þessu mun ég berjast með kjafti og klóm. Hvers vegna ætti ekki að vera hægt að halda úti boðlegri sjúkrahúsþjónustu í Reykjanesbæ ef það var unnt fyrir um áratug síðan? Núna mitt í allri hagsældinni og hagvextinum?
Það er ekki aðeins samgöngumál og heilbrigðismál sem brenna á Suðurnesjamönnum. Ýmsar stofnanir ríkisins á Suðurnesjum hafa mátt þola mikinn niðurskurð á umliðnum árum. Þetta verður að leiðrétta. Hér á ég ekki bara við heilbrigðisþjónustuna, heldur einnig lögreglu og framhaldsskólann. Ég mun vinna að því af krafti að berjast fyrir þessu.

Frítekjumarkið – allir vildu Lilju kveðið hafa
Í kosningabaráttunni hafa hinir flokkarnir stokkið á okkar vagn og boðað stefnu sem við höfum barist fyrir. Bara eitt dæmi er frítekjumarkið. Frítekjumark ellilífeyris var ákveðið 25 þús. kr. með breytingu á lögum um almannatryggingar sem tók gildi 1. jan. sl. Fyrir atbeina hagsmunasamtaka aldraðra, sem töldu mikilvægt að ellilífeyrisþegar gætu haft tekjur án þess að þær hefðu áhrif á fjárhæð ellilífeyrisins, varð að ráði að setja frítekjumark sem gilti um allar tekjur. Af hálfu stjórnarmeirihlutans var ákveðið að ellilífeyrisþegar mættu hafa 25.000 kr. á mánuði í tekjur án þess að það hefði áhrif á fjárhæð ellilífeyris til lækkunar. Frítekjumarkið er almennt og skiptir ekki máli hvort um sé að ræða atvinnutekjur, greiðslur frá lífeyrissjóðum, fjármagnstekjur eða aðrar tekjur. Minnihlutinn, þar á meðal Píratar, studdu þessa tillögu meirihlutans um 25 þús kr. frítekjumark fyrir allar tekjur eldri borgara.

Flokkur fólksins hefur tekið einarða afstöðu gegn þessu naumt skammtaða frítekjumarki allt frá upphafi. Fjárhæðin dugir ekki einu sinni fyrir kostnaði við að sækja vinnu. Þetta lága frítekjumark gerir eldra fólki erfitt um vik við að auka tekjur sínar. Fólk lifir æ lengur og býr margt við ágæta heilsu og starfsorku. Hér er dýrmætt vinnuafl sem leggur af mörkum til samfélagsins með því að greiða skatta og skyldur. Með útilokun þessa aldurshóps frá vinnumarkaði er litið fram hjá jákvæðum efnahagslegum, félagslegum og lýðheilsufræðilegum sjónarmiðum.

Nú keppast aðrir flokkar hver sem betur getur að boða hækkun frítekjumarksins, hversu trúverðugt sem það nú er að ætla að breyta sínu eigin hugarfóstri. Einungis Flokkur fólksins hefur allan tímann boðið eldri borgurum þessa lands að vinna með okkur hinum og auka þannig tekjur sínar og lífsgæði eftir því sem vilji þeirra og geta stendur til. Frítekjumarkið er eitt af mörgum málum sem Flokkur fólksins ætlar að afgreiða fái hann brautargengi í kosningunum.

Ágætu Suðurnesjamenn! Ég held að það sé mikil þörf á að frambjóðendur Flokks fólksins komist í ræðustól Alþingis, þessum mikilvægasta ræðustól landsins og láti í sér heyra varðandi þau þjóðþrifamál sem flokkurinn berst fyrir,  X F.

Karl Gauti Hjaltason
oddviti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi