Aðsent

  • Séra Erla verðskuldar atkvæði þitt
  • Séra Erla verðskuldar atkvæði þitt
Föstudagur 1. maí 2015 kl. 09:00

Séra Erla verðskuldar atkvæði þitt

Séra Skúli Ólafsson skrifar.

Þegar Erla Guðmundsdóttir kom í fyrsta skiptið inn á skrifstofuna mína, í ágústmánuði 2006, sagði ég henni að Keflavíkursókn ætti eftir að verða besti söfnuður á Íslandi. Ekki vissi ég á þeirri stundu hvernig við ætluðum að ná því markmiði, og raunar er minnist ég þess ekki að hugmyndin hafi áður kviknað í kolli mínum. Eftir á að hyggja, þá var það þessi nýjasti liðsmaður kirkjunnar, sem lét mig missa þessa yfirlýsingu út úr mér. Áhugi hennar var svo smitandi og ekki fór á milli mála hversu sterkar taugar hún bar til safnaðarins.

Erla - eða séra Erla eins og hún varð síðar - er Suðurnesjakona eins og þær gerast bestar. Hún á ættir að rekja til fólks sem ól önn fyrir Keflavíkurkirkju, ræsti hana, snyrti og lagaði það sem laga þurfti. Formæður hennar saumuðu altarisdúka og lögðu mikið á sig til að þetta hjarta samfélagsins, væri um leið prýði þess og stolt. Þetta fólk leit á hina öldnu og tignarlegu byggingu sem framlengingu af eigin heimili og eigin lífi og þannig hugsar séra Erla líka. Ekki er annað hægt en að hrífast af þeim metnaði sem hún ber til safnaðarstarfsins. Upp úr þeim jarðvegi vann söfnuðurinn sín afrek. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Já, kraftaverkin áttu eftir að gerast. Á sama tíma og kirkjan var skuldug upp fyrir hnettina tvo sem tróna á turninum, reif hópur leiðtoga kirkjustarfið upp í sögulegar hæðir. Á þeim dögum þegar samfélagið suður með sjó var í áfalli eftir þá miklu ágjöf sem fylgdi brottflutningi hersins og heilu efnahagshruni, blómstraði grasrótarstarfið í Keflavíkurkirkju. Þegar aðrir söfnuðir á Íslandi drógu svo úr æskulýðsstarfi að það varð vart svipur hjá sjón, streymdi fólk í barnastarfið í Keflavíkurkirkju. Í samstarfi við KFUM og KFUK á Suðurnesjum, útskrifaði söfnuðurinn leiðtoga á sviði æskulýðsmála í stórum stíl. Fermingarfræðslan batnaði ár frá ári og sífellt fjölgaði sigrunum. Nýtt fólk slóst í hópinn með nýja krafta og endalausar hugmyndir, innblásið af þeirri elju sem fylgir séra Erlu. 

Það gerist ekki oft að ég reynist sannspár, en þarna síðsumars fyrir níu árum hitti ég naglann á höfuðið. 

Núna hefur þessi söfnuður tækifæri á að sýna prestinum með Suðurnesjahjartað stuðning sinn. Það gerir fólk með því að greiða henni atkvæði í þeim kosningum sem framundan eru. Sannarlega var það mikið brautargengi að 1944 kosningabær sóknarbörn skyldu undirrita yfirlýsingu um að kosning fari fram. Nú þarf að stíga skrefið til fulls og setja x við séra Erlu. Hún verðskuldar það og Keflavíkurkirkja mun áfram blómstra með hana sem sóknarprest. 

Skúli Ólafsson